6.2.2013 | 00:11
Endingarmeiri og betri bílar = færri seldir.
Grimm samkeppni bílaframleiðenda um kaupendur leiðir meðal annars til þess að bílar endast betur en áður og ábyrgð á þeim er komin upp í sjö ár, þar sem hún er lengst.
Ef afleiðingin er sú að færri bílar seljist en áður lítur hún að vera rökrétt. Þannig bítur samkeppnin um endingu í skottið á bílaframleiðendum.
Hið eina sem getur haldið sölunni við er að bílarnir verða sífellt sparneytnari og notadrýgri miðað við stærð og verð. En það hljóta að vera takmörk fyrir því hve lengi þær framfarir geta staðið eða haldið áfram á sama hraða og nú.
Þekkt eru dæmi um gagnstæða þróun úr fortíðinni. Þegar Ford Falcon var settur á markað í Bandaríkjunum síðla árs 1959 náði hann mestri sölu hinna þriggja nýju "compact" bíla vegna þess að hann var léttastur og einfaldastur.
En það var líka reiknað með að hann entist ekki nema örfá ár og væri skipt út fyrir nýjan á 2ja til 5 ára fresti.
Þetta jók söluna í bili en leiddi til lakari gæða og það hefndi sín þegar til kom samkeppni frá erlendum bílum, einkum japönskum, sem settu alveg ný viðmið varðandi lága bilanatíðni og endingu.
Krafan um hinn sívaxandi hagvöxt mun ekki geta gengið upp til lengdar þegar hráefni og auðlindir jarðarinnar fara að minnka.
Nú þegar hefur olíuöldin náð hámarki eins og spáð var fyrir talsvert löngu. Hún náði hámarki 2005.
Hér eftir verður æ dýrara að vinna olíuna, sem finnst á nýjum en óaðgengilegri svæðum.
Upp úr 1980 gátu Sádi-Arabar hjálpað vestrænum þjóðum til að auka hagvöxt og fella Sovétríkin í leiðinni með því að auka framboð á olíu.
Þeir hafa verið grátbeðnir um að gera þetta nú, en gera það ekki. Ástæðan getur ekki verið nema ein:
Sá tími mun einfaldlega styttast þar til olíulindirnar fara að þverra ef dælingin upp úr þeim er aukin, og það er ekki lengur hægt að horfa fram hjá því.
Á árunum fyrir Hrun reyndu þjóðir heims að auka hagvöxtinn með því að búa til sýndarverðmæti úr lánum í stærri stíl en áður hafði þekkst. Bólan sprakk og þjóðir heims glíma við skuldir og fjárlagahalla, sem virðast fela í sér óleysanlegt viðfangsefni, samanber fjárlagaþverhnípið sem Bandaríkjamenn standa frammi á.
Nýskráningum stórfækkar í Þýskalandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Endingarmeiri og betri bílar - Færri seldir! Þetta er alt með ráðum gert, að láta bíla ekki endast of lengi.
Ég hef oft velt vöngum yfir því, hvers vegna ekki eru framleiddir varahlutir í bíla á Íslandi. Ég hef ekki aðstöðuna, því ég er ekki í klíkunni, annars væri ég löngu búin að koma því í verk.
Við höfum ál, ódýrt rafmagn og vinnuafl.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 6.2.2013 kl. 11:38
Einn endingarbesti bíll framleiddur í Bretlandi var af gerðinni Ford Zephyr. Þessi bíll sem kom á markað fyrir rúmri hálfri öld, var sögð gullmylla atvinnubifreiðastjórns.
Fyrir vikið seldist þessi bíll varla meira svo bílaframleiðandinn gjörbreytti bílnum, stækkaði vélina sem var af V gerð og gott ef ekki að hann væri sjálfskiptur eftir amerískri fyrirmynd. Þessi breyting hafði í för með sér að þessi gerð varð gullmylla bílaviðgerðamanna því þessi breyting var ekki í samræði við væntingar.
Eg man að faðir minn ók Zephyr til 1966 eða 67 og var nánast ekkert eftir af bílnum eftir dygga þjónustu. Samt voru margir sem kaupa vildu enda voru bílar lúxús á þeim tíma og notaðir bílar eftirsóttir. Þá fékk hann sér amerískan kagga sem var fremur dýr í rekstri en mjög endingargóður. Síðustu bílar föður míns voru af gerðinni Citroën og hafði hann gaman af tæknibreytingunum sem fylgdu þeim bíl.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 6.2.2013 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.