6.2.2013 | 22:48
Auðvitað var minni umferð í fyrra.
Þegar sú stórfrétt er sögð að umferðin í Reykjavík í janúar síðastliðinum hafi verið meiri en í janúar í fyrra koma orð Guðmundar Jaka í hugann þess efnis að stundum megi efast um nauðsyn umfangsmikilla og dýrra rannsókna hámenntaðs fólks, sem fréttnæmar þykja, á hlutum, sem liggja í augum uppi.
Nefndi hann sem dæmi þegar viðamikil og dýr háskólarannsókn á matarvenjum Íslendinga leiddi þá stórfrétt í ljós að landsmenn borðuðu mest á milli klukkan 12 og 1 í hádeginu og milli klukkan sjö og átta á kvöldin.
Nýliðinni janúarmánuður var 3,3 stigum hlýrri en í meðalári og einn af tíu hlýjustu janúarmánuðum frá upphafi mælinga fyrir 160 árum. Götur Reykjavíkur voru auðar mest allan mánuðinn með sumarfæri og lengst af nánast vorveður.
Í fyrra var hins vegar einhver snjóþyngsti janúar í áraraðir í borginni nánast allan mánuðinn, mikil ófærð og hálka í marga daga og erfiðleikar við að komast um. Hundruð manna beinbrotnaði í hálkunni.
Af sjálfu leiðir að umferðin var minni þá en núna og er engin frétt. Það hefði verið frétt ef umferðin hefði verið meiri í janúar í fyrra en nú.
Aukin umferð á höfuðborgarsvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nákvæmlega. Þetta er ekki-frétt.
Brjánn Guðjónsson, 6.2.2013 kl. 23:02
Hahahahaha! Alveg hárrétt hjá þér Ómar! Og hefur þú tekið eftir öllum þeim "hávísindalegu" könnunum sem dunið hafa á okkur undanfarið? Ég er búinn að hlægja mig máttlausann yfir fíflaganginum í háskólaborgurunum sem framkvæma þessa vitleysu! T.d: Mesta byssueignin er meðal framsóknarmanna!! Er verið að skaffa bjánum verkefni eða? Það er eitthvað stórkostlegt að í Háskóla Íslands.
Davíð Þ. Löve, 6.2.2013 kl. 23:17
Það þarf ekki "umfangsmikla og dýra rannsókn hámenntaðs fólks" til að komast að þessu Ómar.
Í mörg ár hafa verið umferðarteljarar vítt og breitt um borgina og þarf ekki annað en gjóa augunum á tölvuskjá til að lesa af þeim. Jafnvel á Internetinu.
Svona fjartengdir teljarar eru einnig á þjóðvegum víða um land.
Ágúst H Bjarnason, 7.2.2013 kl. 07:07
Þetta eru snillingar !!!
Hjörtur Sæver Steinason (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 09:01
Ætlaði einmitt að minnast á það sama og Ágúst. Svona umferðartölur eru athyglisverðar þegar til lengri tíma er litið og raunar nauðsynlegar ef vegakerfið á að þróast í takt við notkun þess.
Þetta hjá Ómari er svona svipað og að segja að frétt um það að það hafi verið hlýrra í janúar sl. en á sama tíma og í fyrra:... "Iss, það þarf nú ekki hámenntaða veðurfræðinga til að segja okkur það, það fundu þetta allir á eigin skinni!".
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2013 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.