"Eitthvað annað" sem er að engu hafandi?

Stoðtækjaframleiðandinn Össur er eitthvert besta dæmið um það sem talað hefur verið niður til í fyirlitningartóni í meira en áratug sem "eitthvað annað" og því að engu hafandi og rétt að hlæja og draga dár að.

Nú vinna meira en 1600 manns hjá fyrirtækinu sem er fleira fólk en vinnur samanlagt í álverum Íslands.

Stór hluti þessa fólks vinnur að vísu í verksmiðjum Össurar erlendis en engu að síður ber þessi staðreynd vitni um að "eitthvað annað" geti verið atvinnuskapandi.

Össur er skráð hér á landi og samkvæmt upplýsingum um það á netinu, skilaði fyrirtækið 5 milljarða króna hagnaði sem er 9% meira en í fyrra.

Össur er ekki eina "eitthvað annað" fyrirtækið á Íslandi sem hvert um sig skilar jafn miklu eða meira í þjóðarbúið en öll störfin í álverunum. CCP og önnur fyrirtæki, sem byggja eingöngu á hugviti og mannauði, eru gott dæmi um slíkt.

Enda munum við Íslendingar ekki geta boðið upp á viðunandi kjör fyrir fólk ef við afneitum því, sem kallað er "eitthvað annað."

Jafnvel þótt sex risaálver myndu nýta orku hverrar einustu sprænu og hvers á Íslandi og rústa einstæðri ósnortinni náttúru landsins, myndu störfin í álverunum aðeins skapa 2% af vinnuafli landsins atvinnu. 98% væri "eitthvað annað."

Áltrúarmenn flagga "afleiddum störfum" og fá út að 8% vinnuaflsins myndu nærast á álverunum. Samt yrðu 92% eftir sem væru "eitthvað annað". Og áltrúarmenn gleyma því að hver um sig leiða aðrar atvinnugreinar af sér afleidd störf þannig að ef frumkvöðla- og sprotafyrirtækin margfalda líka störfin á sama hátt kemur út marfalt hærri tala en álverin gefa.

En af hverju er ég að "tönnlast á" þessu, sem ég hef bloggað svo tugum skiptir um áður.

Það er vegna þess hér á landi ríkir það sem kalla má "valkvæð vitneskja", þ. e. að enda þótt margir heyri eða sjái einfaldar staðreyndir kýs það að láta þær fara inn um annað eyrað og út um hitt jafn óðum.


mbl.is Tæplega 5 milljarða hagnaður Össurar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Nefndu 1 (EINN) aðila sem talað hefur niður til Stoðtækjaframleiðandans Össurar sem "eitthvað annað".

Ég veit þú getur það ekki og svona óráðsbull er málstað ykkar ekki til framdráttar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2013 kl. 15:10

2 identicon

Sammála Gunnari hér að ofan, kannast ekki við þetta neikvæða tal.

Í "eitthverju öðru" erum við í harðri samkeppni við nær öll önnur lönd í heiminum. Þau lönd búa við samkeppnisforskot vegna meiri mannfjölda og nálægðar við markaðinn. Ísland er harðbýlt land og fámennt og því dýrt, og ef við ætlum að búa komandi kynslóðum jafngóð eða betri lífskjör en fólki í nágrannalöndunum verðum við að nýta okkar auðlindir þegnunum til handa. Það höfum við gífurlegt og vaxandi samkeppnisforskot, og því fylgir betri menntun, lífsgæði og menningin mun blómstra sem aldrei fyrr. Þá munum við einnig hafa efni til að vernda og hugsa vel um og nýta þau 98% landsins sem ekki verða nýtt til orkuframleiðslu.

Við getum vissulega lifað af "einhverju öðru" en þá verða lífskjör hér lakari en í samkeppnislöndunum. Svona einfalt er það.

Ekki gleyma því að hinir fáu álversstarfsmenn skapa um helming útflutningstekna okkar,það myndu 1600 starfsmenn Össurar ekki gera. Ef við yrðum af helmingi gjaldeyristekna okkar væri gengi krónunnar enn lægra en það er í dag, lífskjör verri, enn fleiri hefðu flúið land og svo frv. Að fáa starfsmenn þurfi til að skapa helming útflutningstekna er ekkert nema jákvætt.

Þorbergur Leifsson (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 15:28

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útflutningur héðan frá Íslandi á vörum og þjónustu árið 2009:

1. sæti:
Þjónusta 287 milljarðar króna (þar af samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta 197 milljarðar króna),

2. sæti: Iðnaðarvörur
244 milljarðar króna (þar af ál 171 milljarður króna og kísiljárn 17 milljarðar króna),

3. sæti: Sjávarafurðir
209 milljarðar króna,

4. sæti: Landbúnaðarvörur
8 milljarðar króna.

Útflutningsverðmæti samgangna, flutninga og ferðaþjónustu var því níu milljörðum króna meira árið 2009 en útflutningsverðmæti áls og kísiljárns.

Utanríkisverslun, þjónustuviðskipti við útlönd árið 2009


Utanríkisverslun okkar Íslendinga með vörur árið 2009

Þorsteinn Briem, 7.2.2013 kl. 16:16

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samtök iðnaðarins:

"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990 til 2004 sköpuðust vegna hátækni.

Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.

Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.

Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.


Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju.

Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en um 70% eru flutt úr landi.
"

Þorsteinn Briem, 7.2.2013 kl. 16:21

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi var um 8.400 árið 2007 (fyrir fimm árum) og þar af voru 5.400 störf í einkennandi ferðaþjónustugreinum, til dæmis gisti‐ og veitingaþjónustu, farþegaflutningum og ferðaskrifstofum.

Um þrjú þúsund störf voru þá í tengdum greinum, til dæmis smásölu, afþreyingu, verslun, menningu, tómstundum og þjónustu tengdri farþegaflutningum.

Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010


Þar að auki er ferðaþjónusta í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Stóriðja er hins vegar einungis á örfáum stöðum á landinu.


7.3.2012:


"Þrjú álver eru rekin á Íslandi og hjá þeim starfa um tvö þúsund manns en þegar bætt er við þeim sem tengjast álverunum teljast um 4.800 starfa í áliðnaði og tengdum greinum.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Samtök álframleiðenda."

Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni
hérlendis var um 8.400 árið 2007 og ef þeim störfum hefur fjölgað frá þeim tíma um 6,8% á ári að meðaltali, líkt og erlendum ferðamönnum fjölgaði hér á síðasta áratug, voru þessi störf um tólf þúsund í fyrra, um þrisvar sinnum fleiri en í álverunum hér og tengdum greinum.

Erlendum ferðamönnum hefur hins vegar fjölgað mun meira en um 6,8% á ári að meðaltali hér á Íslandi síðastliðin fimm ár.

Þorsteinn Briem, 7.2.2013 kl. 16:53

6 identicon

Íslensk hátæknifyrirtæki mættu engum skilningi og voru sannarlega töluð niður á árunum 2002-2006, í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar. Ástæðan var einmitt sú að ýmsir bentu á þekkingarfreka hátækni sem valkost við náttúru- og orkufreka stóriðju. Það var á þessum árum sem álverin fóru að tala um sig sem hátæknifyrirtæki. Þar misskildu þau gjörsamlega skilgreininguna á því en hún var sú að fyrirtæki sem settu hátt hlutfall (mig minnir um 8%) veltu sinnar í rannsóknir og þróunarstarf væru hátæknifyrirtæki.

Mér er sérstaklega minnisstæður fréttatími þar sem Halldór Ásgrímsson, handhafi dýrasta kosningatékka Íslandssögunnar, var viðmælandi vegna fréttar um að mörg hátæknifyrirtæki neyddust til að flýja land til að forðast síhækkandi gengi krónunnar, launaskrið og tilfinnanlegan skilningsskort á rekstrarumhverfi hátæknifyrirtækja.

Hann sagðist í fréttinni efast um sannleiksgildi þess að fyrirtæki væru að íhuga að fara af landinu, það væri ekkert athugavert við rekstrarumhverfi hátæknifyrirtækja og ruðningsáhrif gaf hann ekkert fyrir.

Nokkrum mánuðum síðar flutti Medcare Flaga, eitt fremsta fyrirtæki heims á sviði svefnrannsókna, til USA með manni og mús, alls um 100 manns. Össur, Marel og fleiri stór fyrirtæki beindu vexti sínum nær öllum til útlanda í stað þess að halda áfram uppbyggingu hér á landi. Á árunum 2004 til 2008 er stórt gap í vaxtarkúrfu hátækniiðnaðar á Íslandi. Nær engin ný fyrirtæki verða til og lítil fyrirtæki ná ekki vexti eins og áður og síðar.

Staðreyndin er sú að ofuráhersla stjórnvalda á þessum árum á álver og virkjanir sem grunn vaxandi atvinnulífs var kolrangur. Hann kostaði okkur mun meira en hann færði okkur. Galin peningamálastefna ýkti svo enn slæm áhrif þessarar þröngu sýnar á atvinnumálin.

Fólk er fljótt að gleyma. Tortryggni, skilnings- og skeytingarleysis Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í garð hátækniiðnaðar á þessum árum gleyma hins vegar fáir sem störfuðu í þessum geira á árunum upp úr 2000 fram að 2007 þegar Samfylkingin tók við iðnaðarráðuneytinu og fór að hlúa að sprotafyrirtækjum.

Dofri Hermannsson (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 17:05

7 identicon

Ómar hefur nokkuð til síns máls um að það hafi ekki "þótt fínt" að fjárfesta í Össuri og Marel hér á sínum tíma þegar lífeyrissjóðir landsmanna jusu milljörðum á milljarða ofan í íslensku bankana fyrir hrun. Enda er það ömurlegt að þessi afburða fyrirtæki voru keypt af útlendingum fyrir framan nefið á "aulunum" sem voru að moka peningum landsmanna "út um gluggann". Það sem "álóðir" virðast ekki átta sig á er að þótt útflutningsverðmæti álvera á Íslandi sé mikið er alltof lítill hluti þess sem kemur í hlut landsmanna.

Halldór Friðgeirsson (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 17:11

8 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Er ekki svolítið skakkt að telja þjónustu til útflutningsvara Steini?

Jósef Smári Ásmundsson, 7.2.2013 kl. 18:12

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Dofri, og það er náttúrulega allt í blússandi uppsveiflu, nú þegar engar álvers eða virkjanaframkvæmdir hafa verið í gangi sl. 6 ár og hrein og tær vinstri stjórn við völd?

Þið kunnið ekki að skammast ykkar, en af nógu er að taka á kjörtímabilinu. En það styttist í að þið hrökklist í burtu, það er þó jákvætt.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2013 kl. 18:37

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jósef Smári Ásmundsson,

Við Íslendingar höfum miklar tekjur af útflutningi á þjónustu, sem ekki er útflutningur á vörum.

Þegar erlendir ferðamenn kaupa hér á Íslandi hvalaskoðunarferð er það útflutningur héðan á þjónustu.

Einnig þegar þeir kaupa til að mynda ferð til Íslands með Icelandair, gistingu hér á hóteli, ferð með leigubíl eða rútu og þjónustu á veitinga- eða kaffihúsi.

Og erlendir ferðamenn kaupa hér íslenskar sjávar- og landbúnaðarafurðir á veitingahúsum, sem er þá í raun útflutningur á íslenskum vörum, enda þótt þær séu ekki fluttar úr landi.

Hingað til Íslands komu um 650 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð í fyrra og miðað við að þeir hafi dvalið hér á Íslandi að meðaltali í viku og keypt tvær máltíðir á dag fyrir fimm þúsund krónur hverja máltíð á veitingahúsi keyptu þeir hér samtals um níu milljónir máltíða fyrir 46 milljarða króna.

Erlendir gestir um Leifsstöð 2002-2012


Og Íslendingar halda því nú varla fram að ókeypis sé fyrir alla að ferðast héðan til útlanda, flug, leigubílar, gisting og fæði.

Útflutningur á sjávarafurðum var hér 28,2% af útflutningi vöru og þjónustu árið 2009 en 55,6% árið 1994, samkvæmt Landssambandi íslenskra útvegsmanna (LÍÚ):

Hlutfall sjávarafurða af útflutningi 1994-2009

Þorsteinn Briem, 7.2.2013 kl. 19:29

11 identicon

"nú þegar engar álvers eða virkjanaframkvæmdir hafa verið í gangi sl. 6 ár" segir leigubílstjórinn á Reyðarfirði.

Mætti kannski minna ökuþórinn að það varð hér allsherjar hrun?

Það að halda að heill Íslendinga ráðist öðru fremur að virkjanaframkvæmdum segir bara sína sögu um smásálir.

Danir mættu vera guðslifandi fegnir að losna við slíkt "fullveldi".

Jóhann (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 21:09

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Man nú enginn eftir talinu um "eitthvað annað, svo sem prjónaskap og fjallagrasatínslu"?

Ég þakka málefnalegar umræður hér að ofan en vil þó taka eitt fram:

Ég var ungur alinn upp við það að öll störf, sem þyrfti að inna af hendi til að þjóðlífið virkaði, væru göfug, allt frá því að stjórna landinu til þess að moka skít, hirða sorp eða vaska upp.

Þess vegna finnst mér það ekki málefnalegt, þegar menn vilja gera lítið úr okkur Gunnari Th. Gunnarssyni, með því að kalla mig "skemmtikraftinn" og hann "leigubílstjórann", dæmi um landlægt umræðuplan hér á landi þar sem aðalatriðið er ekki hvað er sagt, heldur hver sagði það.

Ómar Ragnarsson, 7.2.2013 kl. 21:56

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta, Ómar og ég er algjörlega sammála þér í þessu. Öll störf eru mikilvæg og virðingarverð. Mér finnst reyndar menn gera mest lítið úr sjálfum sér með svona tali. Þetta er einhverskonar minnimáttarkennd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2013 kl. 22:35

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er einnig faglærður skrúðgarðyrkjumaður og vann lengi sem slíkur. Einnig var ég togarasjómaður í um áratug. Unnið sveitastörf, snjómokstursmaður hjá vegagerðinni og margt fleira. Svo er ég líka ökukennari.

Jóhann, sem ekki þorir að koma fram undir fullu nafni, getur valið úr

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.2.2013 kl. 22:42

15 identicon

Ekki skil ég hvað þessi upptalning á störfum hefur með meint hugleysi mitt að gera.

Punkturinn minn var sá, að þeir sem reiða sig á "virkjanir" staðfesta bara þrælslund sína.

Danir virkja sköpunargáfu sína...

Jóhann (IP-tala skráð) 7.2.2013 kl. 23:01

16 identicon

Dofri og Ómar

Til að byggja upp rekstrargrundvöll fyrir hátæknifyrirtæki hér á landi þarf að skapa góð lífskjör, og betri heldur en í nágrannalöndunum. Þá þarf skattaumhverfi að vera gott láir tekjuskattar á einstaklinga og fyrirtæki og lágur virðisaukaskattur og önnur gjöld á fyrirtæki lægri en annarstaðar. Ef þetta er ekki til staðar fara hátækni fyrirtækin, innlend eða erlend annað,því það er hörð samkeppni um svona fyrirtæki og þau velja sér besta staðinn, og ekkert annað. Þetta er viss þversögn, því há laun, sem er forsenda að halda besta starfsfólkinu fælir fyrirtækin frá. Hafi það gerst 2004-8 er það vegna hás launakostnaðar þá. Á þeim árum var reyndar tekjuskattur fyrirtækja hér mjög lár miðað við önnur lönd, en það hefur sennilega ekki dugað því virðisaukaskattur og allt verðlag og aðrar álögur á fyrirtæki voru há hér á landi.

Eina leiðin til að skapa þeim starfsskilyrði hér umfram önnur lönd er að tekjur ríkisins komi frá öðru en álögum á fyrirtæki og einstaklinga. Það er eimitt möguleiki hér á landi, með því að stærsti hluti tekna ríkisins komi af auðlindagjaldi, og þá fyrst og fremst sjávarútvegi og orkuframleiððslu. Reyndar er auðlindagjald af orkuframleiðslu ekki hátt enn sem komið er en það mun snarhækka á næstu árum þegar orkuverð hækkar og sæstrengur til Evrópu (sem selur aðallega afl, en ekki orku) gæti flýtt þeirri þróun. Þá munu virkjanir afskrifast á allra næstu árum þannig að 90% tekna Landsvirkjunar renna beint í ríkissjóð. Því meira sem við virkjum því hærri auðlindagjöld og því betri starfsskilyrði hátæknifyrirtækja.

Þetta fer því alveg saman hátækni og orkuframleiðsla og við ættum að vera fegin að ekki þurfi að binda fleiri störf í orkuframleiðslunni. Án auðlindanýtingar verða aldrei góð starfsskilyrði fyrir hátækni fyrirtæki hér á landi, þau velja sér hagkvæmustu staðsetninguna og besta starfsfólkið og frumkvöðlar flytja þangað sem skilyrðin eru best.

Mikið væri nú gaman að við Íslendingar gætum sameinast um þessi augljósu hagsmunamáll allra í stað þess að vera alltaf að stilla einni atvinnugrein á móti annarri, þegar þær í raun styðja hvor aðra og auðlyndanýtingin í raun forsenda þess að skapa hátæknifyrirtækjum starfsgrundvöll. Það eitt að vilja hátækni fyrirtæki er ekki nægjanlegt því öll lönd í heiminum keppa grimmilega um þau.

Þorbergur Leifsson (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 14:41

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek undir með Þorbergi

Gunnar Th. Gunnarsson, 8.2.2013 kl. 14:55

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Það er rétt sem Þorbergur Steinn skrifar, enda þekkir hann mjög vel til þessara mála.

Ágúst H Bjarnason, 8.2.2013 kl. 15:18

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Raforkuvinnsla hér á Íslandi árið 2008 var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%.

Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.

Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann
en áður hafði hún verið mest í Noregi.

Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega árið 2008 og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.

Þorsteinn Briem, 8.2.2013 kl. 16:20

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

19.11.2008:

"Stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins samþykkti fyrir stundu á fundi sínum beiðni Íslendinga um 2,1 milljarðs Bandaríkjadollara lán.

Íslenskt efnahagslíf þarf á fimm milljörðum dollara að halda, að mati ríkisstjórnarinnar, en sú upphæð jafngildir um 700 milljörðum króna, miðað við Seðlabankagengi."

Stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins samþykkti lánabeiðni Íslendinga

Þorsteinn Briem, 8.2.2013 kl. 17:02

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.8.2012:

"Skattlagning á hagnað fyrirtækja er með minnsta móti á Íslandi af 34 OECD-ríkjum, þó ríkisstjórnin hafi hækkað hana úr 15% 2008 í 20% nú.

Það eru einungis fimm lönd sem hafa lægri skattlagningu fyrirtækja en Ísland árið 2011. Þau eru Slóvakía, Pólland, Ungverjaland og Tékkland með 19% og svo Írland með 13%.

Fjögur lönd eru með svipaða skattbyrði fyrirtækja og Ísland, þ.e. Grikkland, Chile, Slóvenía og Tyrkland. En Japan og Bandaríkin eru með helmingi meiri skattlagningu fyrirtækja en Ísland, eða 39-40%.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum leggja allar meiri skatta á fyrirtæki en Ísland.
Samt gengur flest mjög vel í þeim löndum.

Ef við skoðum hverju tekjuskattur á fyrirtæki skilar í ríkissjóð, sem % af vergri landsframleiðslu, þá er Ísland í 4. neðsta sæti 2010.

Fyrir hrun var búið að færa atvinnurekendum, fjárfestum og bröskurum ótrúleg fríðindi í skattamálum á Íslandi. Betri en í sumum erlendum skattaparadísum. Hófleg hækkun skatta á þá eftir hrun hefur litlu breytt. Skilyrðin eru enn góð.

Það eru því staðlausir stafir hjá talsmönnum atvinnulífsins og hægri róttæklingum þegar þeir fullyrða að fyrirtæki séu sérstaklega skattpínd á Íslandi.

Íslensk fyrirtæki eru með einna minnstu skattlagninguna sem þekkist í hagsælli ríkjunum.

Spurningin er þá hvort atvinnurekendur telji að þeir eigi ekki að bera kostnað af hruninu?
Eiga þeir að vera stikkfrí eftir að hafa grætt óhóflega á árunum fyrir hrun og átt sjálfir stóran hluta í orsökum hrunsins?

Margir af forystumönnum atvinnulífsins þá og nú voru framarlega í útrás og braski bulláranna."

Skattpíning fyrirtækja á Íslandi? - Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands

Þorsteinn Briem, 8.2.2013 kl. 17:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband