Hvernig er nýyrðið "fjarfluga"?

Ég sé í DV í dag að blaðið hefur tekið upp nafnið dróni yfir enska orðið drone. Ef þetta hefði verið gert á öðrum sviðum flugsins væri íslenska heitið yfir svifflugu "glæta" sbr. enska orðið "glider", flugvél væri nefnd "flugplan", þyrla væri nefnd "sjopper" eða "kopti" sbr. ensku orðin "chopper" og "helicopter" og þota héti "détt" sbr. enska orðið "jet".

Ég tel óþarfa að gefast upp fyrir því verkefni að finna íslenskt heit fyrir orðið "drone", og mætti þar hafa íslenska nýyrðið sviffluga til hliðsjónar.

Þar sem fyrirbrigðinu "drone" er fjarstýrt liggur beint við að í samræmi við það verði notað heitið "fjarfluga" , sem táknaði ómannaða flugvél. Sviffluga ber sitt heiti af því að hún kemst á ferð með því að nota svif án vélarafls og fjarfluga sitt nafn af því að henni er fjarstýrt og stjórnandinn fjarri flygildinu.

Bæði orðin útskýra á hreinni íslensku hvers eðlis þessi loftför eru og hvað greinir þau frá öðrum loftförum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

„Fjarfluga“ er ágætistillaga. Ef til vill þó heldur sakleysilegt orð miðað við að þar er á ferð háþróuð og þungvopnuð njósna- og árásarvél. Sannarlega engin smáfluga.

Nú hefur þetta fyrirbæri stökum sinnum verið nefnt „vélfygli“. Hvað með að kalla þessar vélar „váfugla“? Þá er vísað til þess ótta sem vélarnar vekja hjá fólki þegar þessar þær sveima hátt yfir skotmarkinu. Nú stefnir reyndar í að váfuglarnir verði látnir sveima yfir stórborgum Bandaríkjanna við litla hrifningu heimamanna.

Eyþór Björnsson (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 21:28

2 identicon

Orðið fisfluga gæti komið til greina með tilliti til eðlis þess
sem um ræðir og hversu auðvelt er að koma því við t.d. við
njósnir, eftirlit lögreglu og við ólíklegustu aðstæður án vitundar
3.ja aðila svo nokkru nemi.

Húsari. (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 22:17

3 Smámynd: Björn Geir Leifsson

"Dróni" með íslenskri stafsetningu og beygingu, er þjált og þægilegt orð sem ætti að vera í lagi að taka inn sem nýyrði jafnvel þó orðstofninn sé framandi, rétt eins og orðið "bíll" eða "skvísa" svo dæmi séu tekin.

Legg til að það njóti sannmælis og við sjáum hvort það gangi ekki.

Björn Geir Leifsson, 8.2.2013 kl. 23:09

4 Smámynd: Sigurður Antonsson

Fáir blaðamenn eru skáldlegir eða snjallir orðsmiðir. Einar Benediktsson var torskilinn en hugmyndaríkur. Fag fréttamanna snýst um að afla staðreynda. Taka allt nýtilegt af vettvangi eða umræðna og setja saman á læsilegan hátt. Framúrskarandi fréttaskýrendur marka svo sín spor og stýra oft umræðunni. Setja í farveg ef svo býr undir, endurtaka og leiða í krafti síns miðils.

Oft hef ég undrast hve fljótir þeir eru að afla upplýsinga og staðreynda, af netinu eða eftir öðrum leiðum. Steini Briem er eldsnöggur að varpa fram miklu magni upplýsinga eins og sést á þessu sviði. Hann er ekki mikið fyrir að fela upplýsingaveituna eða að þýða málflutning erlendra spekimanna máli sínu til stuðnings.

Dróni gæti átt við um flugdóna eða flugdólg sem ekki er undir stjórn, en aktar undir áhrifum eiturverkana. "Fjarfluga" fjargný eða váflugvél á væntanlega við um njósna og árásarflugvél. Dróna eða afæta væri ekki ósanngjarnt nafn fyrir slíka óbæru. Hughrif, eldmóð eða snilli þarf til að skapa nýtt orð sem fær brautargengi á íslensku.

Sigurður Antonsson, 9.2.2013 kl. 04:13

5 identicon

Vélfygli eða vélflygildi fær mitt atkæði. Allavega eitthvað sem lýsir að hér er nær að tala um fljúgandi vélmenni en bara fjarstýrða flugvél. Þaðan kemur líka þetta enska orð drone.

Bjarki (IP-tala skráð) 9.2.2013 kl. 10:48

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vélfygli er of líkt orðinu vélfluga eða vélflugvél sem er notað um vélknúnar flugvélar sem andstæða orðsins sviffluga. Þegar verið er að finna nýyrði inn í flóru nýyrða í fluginu verður að hafa önnur orð um flug til hliðsjónar.

Ómar Ragnarsson, 10.2.2013 kl. 00:33

7 identicon

Mér finnst nú bara "Dróni" ágætt. Enda um flugmannslausann"dóna" að ræða.

Jón Logi (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 14:19

8 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Eitt stórt vandamál með orðið "Drone/Dróni" er reyndar að það hefur fengið á sig mjög ljótt orð.

Allsstaðar þar sem það kemur upp þá dettur ókunnugum oftast aðeins í hug drápsvélar bandaríkjahers.

Mannlausar fjarstýrðar eða sjálfstýrðar flugvélar koma að notum í gríðarlega mörgu öðru en að meiða og deyða. Litlar mannlausar flugvélar eru notaðar í mjög vaxandi mæli til alls konar verkefna í friðsömum tilgangi svo sem loftmyndatöku, gróðurathuganna,dýratalninga, umhverfismælinga, leitar, veðurmælinga og fleira og fleira. Tækninni fleygir bókstaflega fram og er orðin aðgengileg áhugamönnum.

Módelflugmenn (ég er einn þeirra) hafa miklar áhyggjur af því óorði sem er að komast á mannlaus flygildi hvers konar því æstur almenningur, aðallega í USA og Ástralíu en einnig víðar, fær hland fyrir hjartað þegar minnst er á dróna og er farinn að krefjast banns á allt slíkt.

Í þessari filmu er staðan í þessum málum þokkalega vel rakin:

http://youtu.be/20JCGDwBt7A

Björn Geir Leifsson, 11.2.2013 kl. 22:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband