10.2.2013 | 02:15
Tvíbent talnaröð ?
Talnarunan 7-9-13 samanstendur af svo ólíkum tölum hvað snertir trú á þeim hverri fyrir sig, að sérkennilegt er að þessi runa boði heppni. Kannski er gildi hennar tvíbent og get ég nefnt dæmi um það.
Þegar ég kom að gosinu í Leirhnjúki í desember 1975 hitti ég Sigurð Þórarinsson jarðfræðing sem bar sína frægu skotthúfu. Á húfuna hafði fallið lítil hraunsletta og kom brunagat á hana, án þess að Sigurð sakaði.
Ég tók við hann viðtal sem því miður hefur verið hent, fékk hann til að taka ofan húfuna og sýna gatið og spurði hann síðan hvort hann væri aldrei hræddur um að eins færi fyrir honum og Steinþóri Sigurðssyni í Heklugosinu 1947.
"Nei", svaraði Sigurður. "Ég er viss um að deyja í Reykjavík eins og langflestir sem þar búa."
"Af hverju ertu svona viss um það," spurði ég.
"Af þvi ég er með svo gott nafnnúmer", svaraði Sigurður. (Á þeim tíma voru fjórir stafir í nafnnúmeri fólks, sem samsvaraði síðari hluta kennitölunnar, sem síðar kom).
"Hvaða númer er það?" spurði ég.
"7-9-13" svaraði Sigurður.
Hann varð sannspár hvað það varðaði að deyja í Reykjavík, þótt aðeins fimm árum síðar, árið 1981, hlypi hann sjötugur eins og hind upp á einn af Lakagígum sem ungur væri. Minnugur nafnnúmersins hélt ég þá að hann yrði allra karla elstur, því að það var ekki hver sem var, kominn á áttræðisaldur, sem var svona sprækur, grannur og léttur á sér.
En aðeins hálfu ári eftir Lakagígaferðina var hann allur, 71. árs að aldri. Banamein hans var hjartaáfall og ég frétti, að þegar læknar gættu að æðakerfi hans, hefði komið í ljós að það var gerónýtt, ótrúlegt en satt.
Ég myndi því ekki treysta talnaröðinni 7-13 um of.
Verður 7.9.´13 happadagur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það má nú ekki útiloka 007 og svo handhafa flugskírteins no. 13.
En 9 - ekki einu sinni prímtala......
Jón Logi (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 12:19
„Hann varð sannspár hvað það varðaði að deyja í Reykjavík og tveimur árum síðar hljóp hann sjötugur eins og hind upp á einn af Lakagígum sem ungur væri.“
Ertu líka miðill? En vitaskuld eru menn miklu léttari á sér í astrallíkamanum en í kjötinu.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 17:08
Afsakaðu. Sigurður mælti þessi orð 1975 og þess vegna hefði átt að standa 5 árum síðar, þ. e. 1980 um það þegar hann hljóp eins og hind upp á einn Lakagíga. Skal skoða pistilinn aftur, takk.
Ómar Ragnarsson, 10.2.2013 kl. 21:41
Ég var nú ekki að agnúast út í ártöl heldur hitt að tveim, eða fimm, árum eftir dauða sinn í Reykjavík hljóp hann léttfættur upp á gíginn.
Jamm. Svona er innrætið. Maður má ekkert aumt sjá án þess að sparka í það.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 10.2.2013 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.