12.2.2013 | 12:58
Ein algengasta orsökin.
Ein algengasta orsök þess að loftför skella til jarðar er sú, að í krappri beygju í lágri hæð, einkum ef beygt er undan vindi, verði beygjan of kröpp, en það veldur því að hraði loftsins yfir vængfletina, í þessu tilfelli lyftispaðann á þyrlu, nægir ekki til að mynda lyftikraft sem yfirvinnur mikla aukningu þyngdaraflsins vegna miðflóttaaflsins.
Þetta sýnist vera aðalorsök þyrluslyssins sem sýnt ér á myndbandi Top Gear og ef farið er inn á YouTube og kallað fram slys frá Alaska 24. júní 1994 þar sem B-52 sprengjuþotu var ofgert á flugsýningu, sést vel, hve hrikalegar afleiðingar þetta getur haft.
Um leið og loftfarið fer yfir þolmörkin missir flugmaðurinn stjórn á því og hefur ekkert ráðrúm til að ná stjórninni aftur nema í margfalt meiri hæð frá jörðu.
Spurt er í frétt mbl.is um þetta hvenær við fáum Top Gear til Íslands. Því er til að svara að Top Gear kom til Íslands í kringum 1990 og gerði þátt hér og sömuleiðis komu þeir Top Gear menn til landsins 2010 og létu til sín taka við eldstöðina á Fimmvörðuhálsi.
Þyrla hrapar við tökur á Top Gear | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Spurningin er reyndar „hvenær fáum við íslenskan Top Gear þátt?“, þ.e. með íslenskum þáttastjórnendum. Nú þegar eru í gangi Top Gear þættir í Kóreu, Bandaríkjunum, Ástralíu, Rússlandi og eflaust víðar.
Ég vil nú bara nota tækifærið til að skora á þig, ef þú hefur áhuga á að snúa þér aftur að sjónvarpi, til að kanna möguleikann á því að stýra skemmtilegum bílaþætti, hvort sem hann er að fyrirmynd Top Gear eða þín eigin smíð frá grunni. Engum treysti ég betur til verksins en þér.
Elín Esther Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 15:22
Clarkson var hérna '94 ef ég hef það rétt með þáttinn "Motorworld", og þetta ætti nú Ómar að muna, enda sjálfur í honum.
Hérna:
http://biggibraga.blog.is/users/28/biggibraga/files/Gamalt/motorworld_1995_6920.mp4
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 15:33
Alltaf gaman þegar næstum árs gamlar fréttir komast á toppinn. Þyrlan fór niður vegna mótorbilunnar. Lítil hæð og lítill hraði eru ekki góð samblanda á þyrlum þegar kemur að mótorbilunum en það má kannski á móti segja að það hafi bjargað því að ekki fór verr í þetta skiptið.
Ótrúlegt seigt í þessum gömlu stríðstólum!
Karl J. (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 17:11
Sæll Ómar og aðrir áhugasamri....
Jeremy Clarkson kom hér fyrst að mynda árið 1994 þegar hlé var gert á Top Gear þáttunum á BBC. Eins og fram kom hér að ofan gerði hann þá Motorworld þáttin, sem var partur af seriu sem sló í gegn og var sýnd um allan heim, en aldrei á Íslandi. Enginn áhugi, þar sem bílar voru partur af málinu.
Fyrsta serian var tekin í 12 löndum. Ef ég man rétt var bætt held ég 24 þáttum við, auk samantektarþáttar, bók o.fl. þar sem Ísland lék alltaf stórt hlutverk.
Motorworld þátturinn um Ísland fékk eitt mesta áhorfið sem um gat á þessum tíma á BBC 2 og ég frétti að menn hefðu verið orðnir leiðir á ónæðinu í sendiráði Íslands í London vegna fyrirspurna, sem og á skrifstofu Icelandair í London.
Undirritaður sá um allan undirbúning á þessum tökum ásamt nokkrum fleirum eins og fram kemur í credit listanum. Þetta var mikil vinna og undirbúningur, en ég held það megi segja, að þessi þáttur sé einhver besti landkynningarþáttur sem gerður hefur verið um Ísland, allavega frá þessum tíma. Sá sem stjórnaði tökunum og vann með mér að öllum undirbúning var Andy Wilman, en hann er enn í dag aðal höfundurinn og framleiðandinn af Top Gear ásamt Jeremy í Bretlandi.
Í kjölfar Motorworld kom síðan fjöldi annarra sjónvarpsframleiðenda til að gera efni tengt Íslandi, bílum, ferðamennsku o.s.frv. Ég kom að gerð nokkra þeirra eins og Lonely Planet á National Geographic, Car country, Tarrant on TV, Diceman, barnaþáttur BBC, Blue Peter, svo nokkrir séu nefndir.
Allt þetta var liður í því sem á eftir kom, eins og að gera Íslensku Torfæruna að vinsælu sjónvarpsefni á Eurosport og allan heim með dreyfingu hjá FOX. Það var hinns vegar eyðilagt af innlendum aðilum, sem er önnur saga.
Top Gear þátturinn sjálfur með þeim Richard og James til viðbótar komu svo aftur 2005 og 2006, þegar tekið var upp efni í þrjá þætti. Eitt innslag um sportbíla, akstur Gísla G. Jónssonar á Kleyfarvatni og síðan keppni á vélknúnum kayak á Jökulsárlóni. Síðan komu Íslendingar verulega að sögu þegar þeir félagar fóru á breyttum Artick Truck jeppa á norðurpólinn og þegar Fimmvörðuháls gaus.
Ég get upplýst, að hugmyndasmíði og forkönnun er í gangi núna varðandi tvö atriði, en of snemmt er að ræða það hér núna. Bíð eftir að heyra í Jeremy og Andy vinum mínum um það, en þetta hefur verið í deiglunni í nokkra mánuði.
Kveðja.
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 18:08
Þá þarf Ómar að vippa þeim í FRÚna og taka smá syrpu, - nú eða taka skaftið niður af Skógarsafni til að endurtaka leikinn frá 1994.
Ég var sem verknemi í Bretlandi undir vor 1995, og staðfesti fúslega að þessi þáttur sló algerlega í gegn. Hann var þá nýsýndur, og allir þurftu að spyrja mig út í dittinn og dattinn hér á skerinu. Verst að ég sá ekki þáttinn fyrr en ég var á leiðinni heim!
Jón Logi (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 19:21
Já, þetta er það sem ég upplifði líka á þessum tíma, en því miður vorum við íslendingar of miklir molbúar til að notfæra okkur þetta.
Var að fá tölvupóst frá Top Gear mönnum. "Iceland is on the radar" Símtal á fimmtudaginn...
Aldrei að vita nema Skaftið verði tekið niður. Ómar er allavega ekki eins rykfallin og það... Held ég....
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 22:50
Ég er ekki enn rykfallnari en svo að ég er kominn langt með hálftíma heimilda- og fræðslumynd undir heitinu "Akstur í óbyggðum" sem tekin var í fyrra á óbyggðaslóðum um allt land, allt frá Snæfellsnesi austur fyrir Snæfell eystra.
Í þessari mynd stelur senunni Subaru´81, sams konar og sá sem fór fyrstur með íslenskar konur í gegnum alþjóðlegt rall 1983 og síðan í beinu framhaldi í gegnum eina langa alþjóðlega jepparallið sem hér hefur verið haldið, - skemmtilegasta, eftirminnilegasta, erfiðasta og fáránlegasta rallið sem ég fór í.
Og vann allar jeppa-ófæru-sérleiðirnar á móti allt að 35 tommu drekum, nema að á einni sérleið, Sprengisandi, urðum við Jón númer tvö af því að við þurftum að skipta um dekk á miðri leið einasta skiptið sem við frömdum þann verknað í 38 röllum !
Hinn 32ja ára gamli Súbbi fer í myndinni upp 40 gráðu bratta lausamalarbrekku, sem venjulegir jeppar, hvað þá jepplingar, koksa á !
Ómar Ragnarsson, 12.2.2013 kl. 23:19
Nú sé ég hvernig þú heldur þér ryklausum félagi....
Ferð og ekur þannig að rykið hrynur af þér.
Hlakkar til að sjá myndina um "Akstur í óbyggðum". Þú sagðir mér aðeins frá þessu þegar við hittumst á gömlurallarakvöldinu síðastliðið haust....
Kanski fæ ég að hóa í þig til að endurtaka atriðið á Skaftinu ef Top Gear kemur
Kær kveðja,
Ólafur Guðmundsson.
Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 16:11
Hér með vottast að kall er sko alls ekki rykfallinn flugmaður. Kannski verra neð skaftið, en sjálfsagt viðbjargandi. En FRÚin flýgur þó enn....
Jón Logi (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 17:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.