Það fyrsta að birtast.

Það er erfitt að fjalla um álit Feneyjarnefndarinnar á þeim grundvelli sem verður að liggja fyrir handa öllum, þ.e. íslenskri þýðingu, sem því miður kemur ekki fyrr en á föstudag.

Þó var minnst á nokkur athyglisverð atriði í fréttum Sjónvarpins í kvöld og verður að notast við þá mola í bili.

Þar kom fram að sérfræðingarnir í nefndinni teldu völd forsetans í nýju stjórnarskránni heldur lítil miðað við það að henn sé þjóðkjörinn.

Hins vegar hefur mikið verið látið með það álit eins reyndasta sérfræðings okkar í þessum efnum, forsetans sjálfs, að völd forsetans verði allt of mikil.

Síðan leggja andstæðingar frumvarpins þetta saman og fá út tvöfaldar mjög "alvarlegar athugasemdir" þessara sérfræðinga, sem sé, allt ómögulegt.

Gallinn er bara sá að annar aðilinn telur völdin lítil en hinn mikil, og þegar álíka stór plús og mínus eru lagðir saman, verður útkoman núll, þ. e. það sem ég og fleiri hafa haldið fram allan tímann, að völd forsetans verði álíka mikil og þau hafa verið.

Fróðlegt er að sjá að Feneyjanefndin telur málskotsrétt forsetans varasaman af því að þá geti myndast togstreita milli forsetans og þingsins þar sem annar aðilinn geti farið illa út úr því. Sem sagt: "alvarleg athugasemd."

En ég spyr: Á það að koma í veg fyrir að þjóðin fái að skera úr um slík mál eins og hún hefur fengið að gera undanfarin ár og meirihluti hennar verið nokkuð sáttur við það upp á síðkastið? Og þarf einhver að fara eitthvað sérstaklega illa út úr því?  Hvor aðilinn á að ráða, þjóðin eða Feneyjanefndin?

Og síðan gleymist hitt atriðið, að málskotsréttur forsetans heldur sér ef núverandi stjórnarskrá heldur áfram að gilda og þó á miklu loðnari hátt í núgildandi stjórnarskrá, vegna atriða sem lagfærð eru í frumvarpi stjórnlagaráðs varðandi tímafresti og það hvaða skilyrði þurfi að vera til að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi ekki, en vegna gats í núverandi ákvæði deildu menn hart um það 2004 hvort það að fella þjóðaratkvæðagreiðsluna niður hefði verið stjórnarskrárbrot. Nýja stjórnarskráin tekur af öll tvímæli um þetta.

Raunar er bagalegt að Feneyjanefndin skyldi ekki líka verið fengin til að leggja mat á núverandi stjórnarskrá. Ég er hræddur um að þá hefðu "alvarlegar athugasemdir" orðið miklu fleiri og stærri og samanburður fengist á milli stjórnarskránna.

Nefndin telur þingið fá mikil völd og að það muni geta valdið þrátefli á milli ríkisstjórna og þingsins.

En vilja menn hafa þetta áfram eins og kvartað hefur verið sáran yfir í áratugi, að ríkisstjórnir hafi oft umgengist þingið eins og valdalausa afgreiðslustofnun? Og í raun ekki ríkt þingræði og að  þetta hafi átt þátt í því hvernig aðdragandi Hrunsins varð?

Og á sama tíma hefur forseti vor kvartað yfir því að þingræðið sé ekki tryggt í nýju stjórnarskránni, sem er furðulegt, því að aukin völd og vegur þingsins og gulltryggt þingræði varðandi stjórnarmyndanir eru rauður þráður í nýju stjórnarskránni en er það ekki samkvæmt núgildandi stjórnarskrá þar sem forsetinn getur myndað utanþingsstjórn upp á eigin spýtur.

Aukið þingræði var það sem flestir vildu í aðdraganda gerðar nýrrar stjórnarskrár.

Ef Feneyjanefndin telur þingið fá of mikil völd en meirihluti þjóðarinnar vill að þingið og þingræðið rétti úr kútnum, eftir vilja hvors eigum við að fara?

Feneyjanefndin telur einstaka ráðherra fá of mikil völd í nýju stjórnarskránni. Nefndarmenn ættu þá að glugga í núverandi stjórnarskrá og sjá hvernig ráðherrar eru í raun einráðir, hver í sínum málaflokki, og aðrir ráðherrar geta fríað sig ábyrgð.

Í nýju stjórnarskránni er komið á "kollektivri" ábyrgð, þ. e. samábyrgð,- að ráðherrar geti ekki fríað sig ábyrgð af verkum hvers annars, nema að gera það formlega, og þannig er ábyrgð þeirra aukin frá því sem nú er.

Áf ofangreindu sýnist mér að sumt sem talið er vera "alvarlegar athugasemdir" sé það ekki, heldur viðri nefndarmenn skoðanir sínar á borð við það að forsetinn eigi að hafa meiri völd og ríkisstjórnir sömuleiðis meiri völd á kostnað þingsins svo að ekki "myndist þrátefli."

Það er að sjálfsögðu matsatriði að hvernig eigi að koma fyrir þeirri valdtemprun, valdajafnvægi og valdmörkum sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis benti á að skorti svo sárlega í stjórnskipun okkar. En viðfangsefnið er jafn brýnt fyrir því, að koma þessu sem haganlegast fyrir og gefast ekki upp við þær umbætur sem þörf er á að ráðast í.


mbl.is Stjórnarskráin rædd á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég spyr svona sakleysislega;;;eigum við að láta einhverja Æjatolla sem ekki einu sinni kunna Íslensku,að segja okkur til syndanna vegna stjórnarskrásmálsins. ?

Hver þýddi þetta fyrir þá.? Reka þá úr landi einsog agenta FBI.

Númi (IP-tala skráð) 12.2.2013 kl. 23:23

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

12.2.2013 (í dag):

Eiríkur Bergmann Einarsson, sem sæti átti í Stjórnlagaráði:


"Langþráð álit Feneyjanefndarinnar svokölluðu, sem ráðleggur um nýjar stjórnarskrár aðildarríkja Evrópuráðsins, var birt í dag.

Þar kennir ýmissa grasa, ýmsu hrósað og athugasemdir gerðar við annað. Eins og gengur.

Nokkrar athugasemdir eru til að mynda gerðar við forsetaembættið sem nefndin telur þó að breytist lítið að eðli og inntaki í nýju stjórnarskránni.

Nefndin veltir því upp hvort betur kunni að fara á því að stjórnmálamenn og jafnvel sveitastjórnarmenn að auki velji forsetann í stað almennings, eins og nú er.

Þá telur nefndin að málskotsréttur forseta (sem hér hefur lengi verið í gildi) sé sérkennilegur og að heppilegra geti verið að hann vísi málum til lagalegrar nefndar sem meti stjórnarskrárgildi laganna eða þá aftur til Alþingis.

Svo má nefna að Feneyjarnefndin telur að betur fari á því að þingmenn einir breyti stjórnarskrá, helst með auknum meirihluta en að óþarfi sé að bera stjórnarskrárbreytingar undir þjóðina, eins og Stjórnlagaráð leggur til."

Álit Feneyjanefndarinnar á frumvarpi Stjórnlagaráðs

Þorsteinn Briem, 12.2.2013 kl. 23:41

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Þetta er bara álit" segir Valgerður Bjarnadóttir.

Þetta "álit"  er sem blaut og skítug tuska í andlit ykkar í hinni umboðslausa stjórnlagaráði.... enn ein, má segja. Reyndar er ríkisstjórnin orðin umboðslaus líka en það stendur til bóta í vor.

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.2.2013 kl. 00:05

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ef álit Feneyjanefndarinnar er ekki bara álit hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að vita hvað það er.

Og ef ríkisstjórnin er umboðslaus hlýtur stjórnarandstaðan að leggja fram vantrauststillögu á stjórnina.

30.1.2013:


"Ætla ekki að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra.
"

Samfylkingin, Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar og Vinstri grænir geta allt eins fengið meirihluta þingmanna í alþingiskosningunum nú í vor og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn.

Enginn veit núna
hversu marga þingmenn hver og einn flokkur fær í kosningunum.

En Sjálfstæðisflokkurinn heldur greinilega að hann geti stjórnað landinu samkvæmt skoðanakönnunum.

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 01:05

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samfylkingin, Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar og Vinstri grænir geta fengið meirihluta þingmanna í alþingiskosningunum nú í vor og ef þeir vilja staðfesta breytingar á stjórnarskránni geta þeir það að sjálfsögðu.

Og Alþingi getur tekið tillit til ábendinga innlendra og erlendra fræðimanna varðandi frumvarp Stjórnlagaráðs.

Forsætisráðherra hefur þingrofsvaldið
, alþingiskosningar verða 27. apríl næstkomandi og enda þótt áætlað sé að Alþingi starfi fram í miðjan mars næstkomandi getur það starfað mun lengur.

"Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðaði til þingkosninga 25. apríl [2009] og rauf þing frá og með þeim degi."

"Á vorþingi 2009 var þingrof tilkynnt 13. mars en þingið starfaði fram til 17. apríl og var fjöldi mála afgreiddur á þessum tíma.

Forsætisráðherra tók það raunar fram þegar tilkynnt var um þingrofið að "engar hömlur" væru "á umboði þingmanna á þessu tímabili", unnt væri að leggja fram ný mál, enda þótt tilkynnt hafi verið um þingrof og hægt væri að afgreiða bæði almenn lög og stjórnskipunarlög."

"Þingstörfum var frestað aðeins rúmri viku fyrir kjördag."

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 01:12

6 identicon

Þetta eru ágætar ábendingar, Ómar.

Ef rétt er að Feneyjarnefndin hafi ekki lagt mat á gömlu stjórnarskrána til að meta breytingar til bóta eða hins verra við þá nýju, þá er starf hennar marklaust!                    Þá er hún dæmd til að rugla saman almennum hugmyndum um stjórnarskrár og svo hinu hvort sú nýja sé til bóta frá fyrra ástandi.

Eitt helsta hlutverk stjórnarskrár ætti að vera að tryggja valddreyfingu en vissulega helst án þess að stjórnarnarkreppur myndist.  Það er minnst hætta á stjórnarkreppu við einveldi, þannig að sá mælikvarði einn og sér er varasamur.

Eitt það besta við núverandi stjórnarskrá er einmitt málskotsrétturinn, þar er valdakreppa milli tveggja aðalfulltrua lýðsins, forseta og þings, leyst með því að skjóta málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef við værum með ódannaðan forseta sem ætlaði að misnota þetta verkfæri til að berja á "andstæðingum" sínum þá mynda vopnið bíta hann sjálfan ef lög þau er hann neitaði að skrifa undir yrðu samykt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því tilfelli yrði hann að segja af sér (minnir mig, vona að ég sé ekki að oftúlka þar)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 08:38

7 identicon

Er Steini Briem bot?

Ef álit feneyjanefndar skiptir engu máli, til hvers var þá verið að sóa tíma og peningum í að fá þetta álit?

Það skiptir engu máli hvað sérfræðingar segja, sem flest allir gera miklar athugasemdir við frumvarpið, það skal bara samt keyrt í gegn.

Og þó það sé algerlega vitað mál að næsta ríkisstjórn gerir ekkert með þetta drasl, þá skal það bara samt keyrt í gegn og til þess notaðir síðustu dagar ríkisstjórnarinnar.

Sennilega af þeirri ástæðu einni að þetta er verðmiði hreyfingarinnar að styðja við stjórnina, en flestir vita að þessi ríkisstjórn hefur bara eitt markmið, og það er að lifa af eitt kjörtímabil sama hvað það kostar.

Hún er löngu fallin, en hreyfingin styður við líkið eins lengi og stjórnarskrárþvælan fær að halda áfram.

Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 09:32

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

"26. gr. [...] Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu.

Lögin falla úr gildi
, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu."

Stjórnarskrá Íslands


Forseti Íslands þarf ekki að segja af sér, enda þótt slík lög yrðu samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hins vegar:


"11. gr. [...] Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. [...]"

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 09:32

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurður,

Ef ríkisstjórnin er "löngu fallin" hlýtur stjórnarandstaðan að leggja fram vantrauststillögu á stjórnina.

30.1.2013:


"Ætla ekki að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina eða einstaka ráðherra.
"

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 09:44

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samfylkingin, Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar og Vinstri grænir geta fengið meirihluta þingmanna í alþingiskosningunum nú í vor, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn.

Í síðustu alþingiskosningum fengu Vinstri grænir um 20% færri atkvæði í kosningunum en skoðanakönnun Capacent Gallup á fylgi flokkanna sýndi í sama mánuði og kosningarnar voru haldnar.

Framsóknarflokkurinn fékk hins vegar um 40% fleiri atkvæði í kosningunum og Borgarahreyfingin um 140% fleiri atkvæði en skoðanakönnunin sýndi.

Kosningar til Alþingis 25.4.2009


Capacent Gallup 8.4.2009: Lítil breyting á fylgi flokkanna

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 09:48

11 identicon

Ég verð nú að segja eins og er að ég er ekki alveg sammála því sem menn eru að lesa út úr fréttaflutningi af áliti Feneyjarnefndarinnar. Það er ekki verið að tala um of mikil eða lítil völd neinna. Þeir benda bara á þá einföldu staðreynd að núverandi frumvarp er ógreinilegt um völd einstakra aðila, sem leitt getur til óvissu og sundrungar milli einstakra stofnana og þar með gert stjórnkerfið óvirkt um lengri eða skemmri tíma. Nokkuð sem fjöldinn allur af innlendum aðilum hafa bent á, hvar svo sem þeir eru í flokki.

En það er bara eins og að þeir sem eru að reyna að þröngva frumvarpinu í gegn óbreyttu geti bara alls ekki hugsað út fyrir þann ramma sem þeir virðast fastir í. Í stað þess að skoða hvaða atriði þetta eru og hvort ekki sé hægt að bæta frumvarpið hvað þessar athugasemdir varðar og gera það án einhvers ofstækis þá skal frumvarpið rekið í gegnum þingið hvað svo sem það kostar.

Og hver er þá sennileg niðurstaða málsins: kannski geta þeir rekið þetta í gegnum þetta þing á þeim dögum sem eftir er, með mikla mótstöðu við málið. Síðan förum við í nýjar Alþingiskosningar og svo mun nýtt Alþingi taka frumvarpið aftur til meðferðar og greiða um það atkvæði. Ef frumvarpið er samþykkt í þessari síðari afgreiðslu Alþingis þá verður það að nýrri stjórnarskrá og ekki fyrr og þar skiptir þjóðaratkvæðagreiðsla engu máli. Þannig er bara núverandi stjórnarskrá. En ef þetta er rekið í gegnum Alþingi með gegn mikilli andstöðu og niðurstöður næstu Alþingiskosninga verða eins og skoðanakannanir benda nú til, hvað teljið þið þá að verði um frumvarpið. Kolfellt á Alþingi og þar með öðlast það ekkert gildi og til hvers var þá öll þessi vinna unnin og öllum þessum peningum sem sett var í þetta eytt.

Nei það er beinlínis eins og að þeir sem séu að reka þetta nú í gegnum Alþingi séu beinlínis að vinna að því að frumvarpið verði bara alls ekki að stjórnarskrá. Þetta byggi ég á því að Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur fengið fjöldann allan af ábendingum um atriði sem þyrfti að laga í frumvarpinu til þess að það skapi ekki réttaróvissu í landinu eftir að það tæki gildi. Samt sem áður virðist sem þessum athugasemdum sé alls ekki sinnt og þeim einfaldlega svarað með því að "þjóðin" vilji núverandi frumvarp og þar af leiðandi komi þessum aðilum þetta ekkert við. Þessi sama nefndi lét þýða frumvarpið og senda það til Feneyjarnefndarinnar (Þá veistu það Númi hverjir það voru sem þýddu frumvarpið og þú vilt reka úr landi eins og FBI, þ.e. sömu aðilarnir og eru nú að reyna að koma frumvarpinu í gegnum Alþingi). Eftir að nefndin sendi það til Feneyjarnefndarinnar til umsagnar þá gera þeir um 50 breytingar á frumvarpinu og ekkert af þeim breytingum var send til Feneyjarnefndarinnar!!! Ég bara spyr hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega.

Ég er þeirrar skoðunar að ef ekki verði af breytingum á stjórnarskránni núna þá sé ekki við neinn að sakast nema þá sem eru að reyna að reka frumvarpið í gegn án þess að huga að þeim ábendingum sem fram koma varðandi atriði sem þyrfti að laga í frumvarpinu og án þess að afla stuðnings við frumvarpið og þau atriði sem þar eru lögð fram. Með þessari óbilgirni tel ég að þessir aðilar séu að eyðileggja alla þá vinnu sem búið er að leggja í endurskoðun stjórnarskrárinnar því þar eru margir mjög góðir punktar og mikið af atriðum sem vert sé að skoða nánar þó svo að eitthvað þurfi aðeins að laga þá til þannig að þjóðin búi ekki við stjórnskipulega óvissu (hugsanlega stjórnskipulega ringulreið ef verstu spádómar ganga eftir) í framhaldinu.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 09:59

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu getur Alþingi gert breytingar á þessu frumvarpi eins og öðrum frumvörpum og mun áreiðanlega gera einhverjar breytingar á því.

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 10:36

13 identicon

Sammála hverju einasta orði frá nafna mínum Geirssyni.

Sjálfur kaus ég á stjórnlagaþing og var mjög hlyntur þessum hugmyndum framan af.

En fúskið og fíflaskapurinn sem hafa yfirtekið þetta verkefni síðan þá hafa svo gjöreyðilegt þetta ferli allt saman að það er í besta falli tímasóun að halda þessu áfram.

tímasóun á tímum þar sem við megum engan tíma missa.

Það eru svo ótal mörg verkefni sem bíða og almenningur kallar eftir, sem öll eru látin sitja á hakanum á meðan tíma þings er sóað í skjal sem allir vita að er löngu ónýtt og verður aldrei að stjórnarskrá.

Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 11:16

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Sigurður" er trúlega völva Vikunnar.

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 11:35

15 identicon

Það þarf enga spámennsku til að sjá að þetta er fallið á tíma.

Salvör Nordal, formaður stjórnlagaráðs viðurkennir það núna í hédegisfréttum að það sé ekki raunhæft að þetta sé að klárast á þessu þingi.

Þetta blasir bara alveg við öllum sem horfast í augu við staðreyndir.

Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 12:07

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðaði til þingkosninga 25. apríl [2009] og rauf þing frá og með þeim degi."

"Á vorþingi 2009 var þingrof tilkynnt 13. mars en þingið starfaði fram til 17. apríl og var fjöldi mála afgreiddur á þessum tíma.

Forsætisráðherra tók það raunar fram þegar tilkynnt var um þingrofið að "engar hömlur" væru "á umboði þingmanna á þessu tímabili", unnt væri að leggja fram ný mál, enda þótt tilkynnt hafi verið um þingrof og hægt væri að afgreiða bæði almenn lög og stjórnskipunarlög."

"Þingstörfum var frestað aðeins rúmri viku fyrir kjördag."

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 12:21

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nú eru tveir og hálfur mánuður til alþingiskosninganna 27. apríl næstkomandi.

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 12:29

18 identicon

....og Þór Saari staðfestir það svon núna í hádegisfréttum að ef ríkisstjórnin "gefst upp" á þessu máli að þá eigi hún að víkja.

= líf ríkisstjórnarinnar hangir á því að halda áfram máli sem allir vita að er útilokað að klára.

Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 12:30

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Líf ríkisstjórnarinnar hangir nú ekki á Þór Saari.

Þar að auki er meira en nægur tími fyrir Alþingi til að samþykkja breytingar á stjórnarskránni, þar sem nú eru tveir og hálfur mánuður til alþingiskosninganna 27. apríl.

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 12:47

20 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Salvör Nordal er ekki formaður stjórnlagaráðs og ég er ekki fulltrúi í stjórnlagaráði.

Við vorum þetta fyrir rúmu hálfu öðru ári.

Ómar Ragnarsson, 13.2.2013 kl. 14:10

21 identicon

Ok, formaður ráðsins á meðan það var starfandi.

Ekki að það skipti máli.

Ég held líka að það viti flestir að það er ekki við ykkur að sakast hvernig þessu hefur verið klúðrað, það er bara alveg fáránlegt að einu og hálfu ári eftir að þið skiluðuð þessu frá ykkur sé enn verið að leita umsagna.

Þessu hefði átt að cera lokið fyirr a.m.k. ári síðan og þingið hefði þá haft undanfarið ár til að vinna að nauðsynlegum breytingum í samræmi við aðfinnslur sérfræðinga.

Að ætla að lagfæra þetta allt saman á nokkrum vikum verður aldrei annað en klúður, bara enn eitt klúður ónýtrar ríkisstjórnar.

Því miður.

Sigurður (IP-tala skráð) 13.2.2013 kl. 14:33

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Sigurður", þú getur nú ekki fullyrt eitt eða neitt í þessum efnum fyrir hönd tugþúsunda manna.

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 14:55

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Niðurstaða talningar atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn [fyrir tæplega fjórum mánuðum] um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga:

1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.


Já sögðu
73.408 eða 64,2%."

Þorsteinn Briem, 13.2.2013 kl. 15:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband