13.2.2013 | 23:50
Eitt af fjórfrelsum Roosevelts.
Í frægri ræðu 6. janúar 1941 setti Roosevelt það fram sem markmið í heimsmálum að berjast fyrir fjórum tegundum af frelsi:
1. Skoðana- og tjáningarfrelsi. 2. Trúfrelsi. 3. Frelsi frá skorti. 4. Frelsi frá ótta.
Þessar fjórar tegundir frelsis tengjast á ýmsa vegu. Númer 1 og 2 og það síðasta, nr. 4, geta orðið lítils virði ef skortur á mat og nauðsynjum er svo mikill að lifað er í daglegum ótta, og skorturinn og óttinn við hann eru svo yfirþyrmandi að skoðana, tjáningar og trúfrelsi eru alger aukaatriði.
Öryggi borgarannar er einn af hornsteinum vestræns lýðræðis. Árásir hryðjuverkamanna miða ekki síst að því að grafa undan þessu öryggi og skapa ótta.
Þá er afar mikilvægt að láta óttann ekki fá yfirráð heldur að gera eins og Birgitta Jónsdóttir segir, að neita að lifa í ótta eftir því sem það er mögulegt.
Því miður hafa viðbrögð á Vesturlöndum varðandi það að koma á lögregluríki til þess að tryggja öryggi oft verið til þess eins fallin að skapa ótta í þjóðfélaginu og þar með í raun að gagnast tilgangi hryðjuverkamannanna.
Svo er að sjá sem í Bandaríkjunum hafi menn átt erfitt með að feta meðalveg í þessum efnum.
Þegar mjög langt er gengið í lögreglu- og hernaðaraðgerðum skapast andrúmsloft sem getur kallað fram stríðsglæpi á borð við þann sem Wikileaks samtökin afhjúpuðu með myndum af drápi almennra borgara í Bagdad.
Og í framhaldinu var það hneyksli að ekki væri komið lögum yfir hina brotlegu.
En einnig getur sáning ótta og tortryggni gefið öflum lausan tauminn, sem gangast upp í því að traðka á mannréttindum eins og ferðafrelsi, friðhelgi einkalífs, skoðanafrelsi, jafnræði gagnvart lögum og vönduðu réttarfari.
Við þekkjum hvernig þetta þróaðist í alræðisríkjum eins og kommúnistaríkjum, en það ber líka að hafa áhyggjur af því að hjá þeirri þjóð sem telur sig vera brjóstvörn mannréttinda og vestræns lýðræðis hefur sigið á ógæfuhlið í þessum efnum.
Birgitta neitar að lifa í ótta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Rétt Ómar. það sem meira er og öllu verra enn allt annað eru þessi svokölluðu patriotlög. Svona í stuttu máli þá afnámu þau lög réttarríkið hjá þeim og þeir geta gert hvað sem er við hvern sem er ef þeir bara skilgreina viðkomandi sem hugsanlegan hryðjuverkamann eða e h sem þeir kalla " Ólöglegan bardagamann" Hvað svo sem það nú þíðir!
ólafur (IP-tala skráð) 14.2.2013 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.