Í nafni Kristjáns 7 áttu stórfelldar umbætur að verða á Íslandi.

Ég óska Kristjáni Jónssyni til hamingju með það að verða sjöundi á alþjóðlegu júdómóti í sínum flokki. Stenst ekki mátið að blogga um annan Kristján sjöunda, þ. e. konung Danmerkur og Íslands 1766-1808.

Í sögunni hefur hann hlotið heitið "geggjaði konungurinn" vegna geðsjúkdóms síns, sem varð til þess að þeir sem best höfðu í valdabaráttunni í kringum konunginn, réðu í raun því sem ráða þurfti til lykta.

Þegar Kristján fór í ferðalag til Evrópu 1768 kynntist hann lækni í Altona, Struense að nafni, sem varð einkalæknir hans og kom með lækniskunnáttu sér í mjúkinn við kóng og drottningu.

Kristján taldist í hópi nýrrar tegundar einvalda, "menntaðra einvalda," sem töldu sig fyrsti fremst þjóna fólksins og skylt að stuðla að framförum. Hann og Struense skeggræddu rit Voltaire og fleiri slíkra  og Struense  nýtti sér aðstöðu sína til að taka völdin að mestu þegar heim kom og leggja til miklar umbætur, svo miklar að annað eins þekktist ekki í öðru konungsveldi í Evrópu.

Skipuð var svonefnd Landsnefnd fyrir Ísland árið 1770, því að það blasti við að eitthvað alvarlegt olli því að Íslendingum fækkaði á meðan Norðmönnum fjölgaði verulega. Norðmaður var settur til formennsku í nefndinni til að auka líkur á árangri og nefndin gaf Íslendingum sjálfum kost á að senda bréflega tillögur sínar til Landsnefndarinnar. Á annað þúsund bréf bárust.

Meðal verkefnanna sem nefndin átti að ráðast í, voru hafnarbætur, betri skipakostur, þéttbýlismyndun við sjóinn, umbætur í landbúnaði og að finna aftur hina gömlu þjóðleiðir yfir hálendið.

Í einum slíkum leiðangri fannst Fjalla-Eyvindur við Sprengisandsleið.

Því miður voru umbótatillögur Struenses í Danmörku og á Íslandi í óþökk ríkjandi valdastéttar, aðalsins í Danmörku og hins íslenska aðals, embættismanna og stórbænda, en 95% bænda á Íslandi voru leiguliðar og áttu ekki ábúðarjarðir sínar.

Struense var fangelsaður og líflátinn og þar með var úti um umbætur á Íslandi, heldur var þeim illu heilli í raun seinkað um 130 ár.

En viðleitnin mun í mínum huga varpa ljóma á nafn Struenses og einhvern tíma trúi ég að stórt heimildarskáldverk um hann og sameiginleg örlög hans og Íslendinga verði skrifað og kvikmyndað.   

Íslendingar þekkja ekki Kristján 7 og Struense enda ekki minnst á hugsjónir þeirra í kennslubókum.

Þetta þarf að breytast.


mbl.is Kristján sjöundi í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Okkur var kennt að kuldar og náttúruhamfarir hafi staðið íslendingum fyrir þrifum og að danir hafi gert illt verra. Það virðist þó vera að íslendingar voru íslendingum verstir.

Sorglegt.

Villi Asgeirsson, 18.2.2013 kl. 15:22

2 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Það þarf að endursýna sjónvarpsþætti Baldurs Hermanssonar "Í hlekkjum hugarfarsins" sem Hrafn Gunnlaugsson, þáverandi dagsskrárstjóri RÚV fékk ekki að endursýna í sjónvarpinu RÚV, þrátt fyrir eindreginn vilja. Aðeins Skagfirðingar voru því mótfallnir af mjög eðlilegum ástæðum.

Mbkv,Björn bóndi :)

Sigurbjörn Friðriksson, 18.2.2013 kl. 15:41

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Þessa?

http://blog.pressan.is/larahanna/2013/02/16/thjod-i-hlekkjum-hugarfarsins/

Villi Asgeirsson, 18.2.2013 kl. 15:49

4 Smámynd: Sigurbjörn Friðriksson

Villi... Góður..!!!! Ég vissi ekki að þessi hlekkur væri til.

Mbkv, Björn bóndi =:o)>

Sigurbjörn Friðriksson, 18.2.2013 kl. 15:57

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Lára Hanna veit allt. :o)

Villi Asgeirsson, 18.2.2013 kl. 16:01

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það eru samt vissir gallar á þessum þáttum Baldurs. Framsetningin er ekki nógu yfirveguð. það er samt alveg rétt sem Gísli Gunnars bendir á í umræðuþættinum í restina að í þáttunum eru dregnar fram nokkrar staðreyndir sem íslendingar almennt hefðu lítið sem ekkert heyrt um fram að þessu. Og þessvegna voru þættirnir alveg réttlætanlegir sagnfræðilega séð, að mínu mati. Vistaband, ísl. aðall, andstaða við þéttbýlismyndun o.s.frv.

En gallinn við þættina, svo eitthvað sé nefnt, er að flest er séð útrfrá gleraugum nútimans. það kemur ekki nógu vel fram og er ekki undirstrikað, að það fyrirkomulag sem við þekkjum, viðhorf til réttinda fólks o.s.frv. - þetta er mestallt bara ný tilkomið. það er bara nýbúið að finna upp að allir hafi sama rétt. Réttleysi fólks fyrr á tímum var ekki bundið við Ísland. Hvenær var þrælahald afnumið í USA? Bara í gær!

Sést í myndinni um Lincoln BNA forseta, að það var álitið af sumum fráleitt að svartir hefðu sama rétt og aðrir. Hversvegna? Jú, vegna þess að óheimilt væri af mannlegum yfirvöldum að gera þá jafna sem guð hefði skapað ójafna!

það er þetta viðhorf fyrr á tímum sem er svo erfitt að skýra út fyrir nútímafólki. þetta viðhorf að sumir væru af guði jafnari en aðrir.

Sem dæmi hugsaði fólk þannig fyrr á tíð: Afhverju eru sumir voldugir og ríkir? það hlýtur að vera vilji guðs! Annars væri það ekki svoleiðis. O.s.frv.

Ofansagt er allt í mjög stuttu máli.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.2.2013 kl. 18:41

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Sem eitt lítið dæmi um viðhorf fólks fyrr á tíð skal koma með eftirfarandi klausu. Bara til umhugsunar. Og taka ber eftir að þetta er bara í fyrradag og þetta er alþingismaður. Mikilsmetinn og virtur í sinni sveit, að vestan að eg tel. Taka ber eftir að hann talar um fólk barasta eins og búfénað:

,,Ávextirnir, sem vér höfum til þessa uppskorið af lausamennsku yflr höfuð, eru einna tíðast þessir: iðjuleysi, flakk, munaðarlíf, leti, ráðleysi, vanþekking, vankunnátta og jafnvel á stundum skortur á vöndnðu framferði. Eitthvað af þessu eða fleira og færra af því í sameiningu hafa verið aðal-einkenni lausgangara með tiltölulega fáum undantekningum, og það því fremur, sem mennirnir hafa komizt yngri á lausamennsku-rólið, eins og það viðgengst almennast"

( Guðjón Guðlaugsson alþm. 1893.)

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=137012&pageId=2030187&lang=is&q=lausamennska

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.2.2013 kl. 19:01

8 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég er ekki búinn að horfa á alla þættina, en horfði á umræðuþáttinn og er sammála mörgu sem þar kom fram og því sem þú segir, Ómar Bjarki.

- Myndmálið er voðalega ómerkilegt. Þetta er eins og fjögurra tíma fyrirlestur.

- Uppsetningin er allt of einföld. Það er einmitt ekkert talað um tíðarandann og viðhorf fólks á þeim tímum sem teknir eru fyrir. Sérstök sakamál eru tekin fyrir. Voðaatburðum gerð skil, en lítið talað um það sem var að gerast í kringum þá.

- Ekkert talað um af hverju fólk lét bjóða sér þetta. Af hverju gerði aðþýðan ekkert í málunum. Sérstaklega eftir að danakonungur fór að bjóða hjálp.

- Það er talað um Ísland sem helvíti (bókstaflega) og borgríki Evrópusem hálfgerð himnaríki þar sem verslun og listir blómstruðu og smjör draup af hverju strái.

Samt verð ég að viðurkenna að ég sat límdur við þættina þrjá og hlakka til að sjá þann síðasta. Sýnist að á meðan maður tekur þessu með smá fyrirvara og skilur að þetta er sýn höfundar, er mikið hægt að læra af þáttunum.

Villi Asgeirsson, 18.2.2013 kl. 19:09

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

( Guðjón Guðlaugsson alþm. 1893.)

Hann hefur ekki verið að berjast á móti því að vistabandið yrði afnumið?

Villi Asgeirsson, 18.2.2013 kl. 19:16

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að sænskur fræðimaður, Hans Gustavsson, skrifaði ritgerð, já heila bók, sem nefndist "Fran kung to almuge" og fjallaði um Landsnefndina og ástandið á Íslandi 1770.

Niðurstaða hennar er sú að hvergi í Evrópu réði einvaldskonungur eins litlu og á Íslandi, þar sem hinn íslenski aðall, embættismenn og bændur, ekki einasta réðu öllu, sem þeir vildu, þjóðinni til stórtjóns, heldur nutu synir þeirra meiri fríðinda en synir danska aðalsins.

Synir hins íslenska aðals nytu sömu fríðinda við danska skóla og synir danska aðalsins, en hinir dönsku synir þurftu á móti að sæta því að sinna herþjónustu í þeim styrjöldum, sem Danir háðu, en íslensku synirnir voru undanþegnir því !

Ómar Ragnarsson, 18.2.2013 kl. 20:45

11 identicon

Ég man vel eftir þessum þáttum, og þótt ungur væri, þá hjó ég eftir einu. Það var sú skýring Baldurs að bændur hefðu komið af sinni bestu getu í veg fyrir útgerðarstarfsemi.
Það var ekki minnst á það að margir bændur höfðu útræði, og svo það, að á erfiðari stöðum var sjódauðinn algengur endir hjá karlmönnum á besta aldri.
Ef einhver fer á skógasafn er athyglisvert að sjá mynd af sjódauðum Eyfellingum á tiltölulega stuttu tímabili. Snemma á 19. öld ef ég man rétt, og allt af róðrabátum hafi ég það rétt, enda þar engin höfn.

Það var gert að þessu grín í næsta áramótaskaupi, þar sem Magnús Ólafsson fór hamförum í hlutverki hins illa bónda sem byrjaði morguninn á því að berja vinnufólkið á lappir. Gaman væri að fá hlekk á þá skissu ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 18.2.2013 kl. 20:51

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Niðurstaða mín er því sú, að á þeim tíma sem Íslendingar gátu augljóslega ekki verið frjáls og fullvalda þjóð og einveldiskonungar ríktu í Evrópu, voru Danir skásta nýlenduveldið fyrir okkur.

Ef til dæmis Bretar hefðu ráðið yfir Íslandi hefðu þeir ekki lyft litla fingri til að safna fé handa okkur vegna hallæra á borð við Móðuharðindin. Þeir gerðu það ekki þegar Írar horféllu þúsundum saman vegna uppskerubrests á nítjándu öldinni.

Og Íslendingar hefðu ekki getað varðveitt íslenska tungu undir Bretum eða fengi uppörvun og stuðning á borð við þann sem Rasmus Kristján Rask veitti Íslendingum þegar íslensk tunga stóð hvað höllustum fæti.

Í sögunni, sem okkur var kennd lengi vel, var látið að því liggja að Skúli fógeti hefði risið nánast einn og óstuddur gegn dönsku valdi. En auðvitað var þá ómögulegt fyrir Skúla nema vegna þess að hann átti samherja meðal danskra umbótamanna.

Og með ólíkindum er að forystumaður sjálfstæðisbaráttunnar skyldi vera á launum hjá danska ríkinu og að enginn skyldi láta lífið í sjálfstæðisbaráttu okkar.

Ómar Ragnarsson, 18.2.2013 kl. 20:53

13 identicon

Prestar, Sýslumenn, Kaupmenn og Stórbændur. Og ábúðarlög þannig, að allar framkvæmdir leiguliða (kotunga) urðu sjálfkrafa eign landeiganda, og hækkuðu þar með andlag leigugjalds. Um þetta má lesa í sögunni "ábúðarréttur" eftir Jónas frá hrafnagili, - bókin hét ljós og skuggar, held að hún hafi verið prentuð ca 1911. Þessum lögum var ekki breytt fyrr en seint á 19. öld muni ég rétt. Þetta minnist Baldur ekki á, en mér þykir þetta stærra mál en vistabandið.

Jón Logi (IP-tala skráð) 18.2.2013 kl. 20:57

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Það er sagt vera algengt í vanþróuðum landbúnaðarsamfélögum að fólk leitist við að takmarka aðra atvinnuvegi, svo sem verslun, og loka þá úti frá samfélaginu.

Slíkt er að sjálfsögðu að einhverju leyti gert með fordæmingu.

Á Íslandi kemur andúð á verslun fram strax í Íslendingasögum, einkum verslun sem stunduð er í ábataskyni.

Á sama tíma er líka tekið að takmarka leyfi fólks til að stofna heimili án þess að hafa jarðnæði og búfé til að lifa á, og hefur því banni einkum verið stefnt gegn því að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu."

"Slíkar takmarkanir á öðrum búskap en sveitabúskap ganga í gegnum Íslandssöguna í dálítið ólíkum og misströngum myndum.

Svo seint sem árið 1887 samþykkti Alþingi lög, sem gengu í gildi árið eftir, þar sem mönnum var bannað að setjast að í þurrabúð nema með skriflegu leyfi hreppsnefndar, eftir að hafa sannað með vottorðum tveggja skilríkra manna að þeir væru reglumenn og ráðdeildarsamir."

Vísindavefurinn - Af hverju voru yfirvöld á Íslandi á móti borgarsamfélagi og Reykjavík?

Þorsteinn Briem, 18.2.2013 kl. 21:34

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Varðandi sjósókn, í stuttu máli, þá var það þannig að það þannig að hún var takmörkuð eftir bestu föngum. Gísli Gunarsson hefur skrifað um það. Eg er ekki aveg með það í augnablikinu á reiðum höndum hvað var m.a. gert, en minnir að þeir hafi barasta bannað vissa beitu o.þ.h. og vaðurinn mátti ekki vera of langur. þetta voru engar aðfarir við veiðarnar. Á meðan voru hollendingar og fleiri að mokveiða hérna.

það þarf ekkert að ræða það sérstaklega að valdamenn á íslandi komu í veg fyrir uppgang sjávarútvegs.

það er eins og margir eigi erfitt með að skilja hvað felst í ,,bændasamfélag". það felst í því aleg óhemju íhaldsemi og niðurnjörfun alls samfélagsins.

þetta ,,bændasamfélag" á ekkert skilt við nútíma bændur á Suðurlandi sko. það er enginn að agnúast útí Jón Bjarnason eða Guðna Ágústsson þegar talað er um bændasamfelag Íslands fyrri alda. Við erum að tala um allt annað dæmi. Við erum að tala um frumstæðu. Við erum að tala um frumstætt samfélag þar sem allt aðrar hugmyndir voru um lífið en nú þekkist.

Við getur bara tekið barnadauðann, að hann var óskaplegur. Að margir halda núna að fyrr á tímum hafi fjölskyldur verið fjölmennar, kannski 10-12 börn og afi og amma á heimilinu os.frv. það er alrangt. það er ekki fyrr en sirkar 1850 og þar uppúr sem mörg börn verða algeng á heimilum. Fyrr á tímum eru kannski 2-3 börn. Karl, kona og 2-3 börn. það þýðir þá að barnadauði hefur verið svakalegur. þar sem getnaðarvarnir þekktust ekki.

það hafa meir að segja komið kenningar um það að börnin hafi verið viljandi deydd. Einfaldlega vegna þess að foreldrarnir gátu ekki framfleytt þeim. Konur höfðu ekki börn á brjósti öldum saman. það var ekki fyrr en um miðja 19.öld að danir kendu íslendingum að hafa börn á brjósti að það fór á tíðkast. þetta er ótrúlegt. Við erum bara að tala um frumstætt samfélag, bláfátækt, óupplýst og snautt, svipað og sjá má summstaðar í þriðja heiminum í dag. það þróuðust allskyns afkáranlegr siður og forneskjan algjör.

Hinsvegar var alltaf, eins og bent er á og viðurkennt núna af flestum, innlendur aðall sem réi öllu sem hann vildi ráða - og hann hafði það hugsanlega ágætt.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.2.2013 kl. 22:32

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Manntal var tekið fyrir allt Ísland árið 1703.

Íbúar voru þá 50.358, margir mjög fátækir."

Og Íslendingar hafa aðallega átt börn með öðrum Íslendingum, enda langflestir náskyldir hver öðrum.

Þorsteinn Briem, 18.2.2013 kl. 22:48

17 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það kemur fram í þáttunum að þegar sjómenn lærðu nýja tækni við fiskveiðar, var hún iðulega bönnuð innan örfárra ára.

Barnadauði var hér 2-4 sinnum hærri en í nágrannalöndunum.

Ef lítið var um mat, voru börnin einfaldlega svelt í hel. Þau voru lítil og því neðst í goggunarröðinni. Fyrir utan auðvitað þau börn sem borin voru út.

Ég get eki annað en velt því fyrir mér hvað nútímaíslendingur myndi gera ef hann vaknaði í torfbæ um 1650. Hvernig myndi hann bregðast við barsmíðum á börnum, drekkingum á konum og hindurvitnunum og fáfræðinni sem ríkti.

Villi Asgeirsson, 18.2.2013 kl. 23:01

18 Smámynd: Villi Asgeirsson

Einn lærdóm er hægt að draga af þessum þáttum. Framfarir eru ekki sjalfsagður hlutur.

Okkur var kennt að landnámsöldin hafi verið gósentíð, en veður og eldgos hafi steypt þjóðinni í örbyrgð. Að um leið og fór að hlýna, hafi þjóðin skriðið út úr moldarkofunum, heimtað sjalfstæði og rifið sig inn í nútímann.

En örbyrgðin var okkar eigið verk. Verk manna sem hugsuðu um eigin hag, ekki hag samfélagsins. Ef vitlaus stjórnun gat umturnað öllu, komið stoltri landnámsþjóð sem sigldi um heimshöfin og fann Ameríku á kné. Hvernig er hægt að vera viss um að það gerist ekki aftur?

2008 sýndi íslendingum, og heimsbyggðinni, að tíminn er ekki línurit sem fer bara upp á við. Að það sé eitthvað náttúrulögmál að börnin okkar muni hafa það betra en við, því við höfum það svo mikið betra en forfeður okkar.

Það er gömul saga og ný að þekking á fortiðinni er eina leiðin til að endurtaka ekki mistökin sem gerðu forfeður okkar fátæka, kalda og fáfróða. Við megum ekki gleyma fortíðinni, og því síður mála hana rósrauða og drekkja henni í sykursætri rómantík.

Villi Asgeirsson, 18.2.2013 kl. 23:29

19 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eftir Móðuharðindin voru íslendingar 38.368 árið 1786. (og nei, það stóð aldrei til að flytja alla íslendinga á Jótlandsheiðar þegar Móðuharðindin stóðu yfir. því var logið uppá dani í svokallaðri sjálfstæðisbaráttu)

En a lokum að þessu sinni, að þegar eg tala um ,,frumstæðu" - að þá er eg að meina eins og með frumstæða ættbálka sem þekkjast fram til okkar daga víða í heiminum. Að lífið þar er oft afskaplega harðneskjulegt. Fólk hættir til að líta á slíka ættbálka í rómantísku ljósi. Lifir í sátt við náttúruna o.s.frv.

Í raunveruleikanum er það oft allt öðruvísi. Samfélag slíkra ættbálfa getur verið afskaplega harðneskjulegt. það þróast allskyns siðir og venjur sem óhugsandi eru í okkar nútíma vestrænu samfélögum. Vestrænum samfélögum þar sem öllum eru tryggð réttindi með lögum o.s.frv.

það ber líka að hafa í huga trúna og handanheiminn. Íslendingar voru mjög trúaðir á sinn hátt. þa er engu líkara en skilin milli þesa heims og handanheims hafi ekki alltaf verið alveg kristalskýr en allavega beið í handanheimi miklu betra líf. það var alveg bjarföst trú og sannindi. Og fæðn var ekki af lakari taginu í handanheimi eins og sálmaskáld á 16.öld benti á:

Útvöldum guðs svo geðjist geð,

gestaboð til er reitt,

kláravín, feiti og mergur með

mun þar til rétta veitt,

soddan veislu vér sitjum að

sælir um eilíf ár.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 18.2.2013 kl. 23:40

20 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Hér er miklu skemmtilegri og fróðlegri umræða um þættina heldur en á mínu bloggi þar sem þeir eru.

Takk fyrir það, strákar! :-)

Lára Hanna Einarsdóttir, 19.2.2013 kl. 00:59

21 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Langafi minn fór með ömmu mína frá Landbroti austur í Öræfasveit og afhenti hana bóndanum þar sem vinnuvél, en leiddi kú til baka. Slétt skipti. Ekki lengra síðan.  

Amma mín jafnaði sig aldrei eftir þetta, þótt hún væri svo heppin að fósturfaðir hennar var slíkur afbragðs maður að hún nefndi móður mína eftir honum og það nafn hefur síðan gengið til dóttur minnar.

Fósturfaðir ömmu minnar rann til rifja barnafjöldinn, ómegðin og fátæktin í Hólmi hjá langafa mínum, sem fórnaði sér fyrir þá hugsjón sína að lækna og líkna út um allar sveitir á meðan langamma mín stritaði og hélt búinu gangandi.  

Ómar Ragnarsson, 19.2.2013 kl. 01:37

22 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Það er ýmislegt skemmtilegt í sögunni um samskipti Íslendinga og Dana um og eftir 1800. Eins og þú bendir á þá var Struensee mjög frjálslyndur og mikill upplýsingarmaður. Sumir ungir Íslendingar hrifust með, þar á meðal Magnús Stephensen sem lauk námi í Kaupmannahöfn 1788. Að vísu var Struensee löngu dauður þá en stjórnarfar var ennþá talsvert frjálslynt og upplýsingahugsjónir í hávegum hafðar.

Magnús var alltaf mikill upplýsingamaður, en ekki par vinsæll á Íslandi. Sem dómari samdi hann oft sérálit gegn öðrum dómurum sem helst vildu láta limlesta og lífláta brotamenn. Danska ríkisstjórnin fylgdi yfirleitt alltaf séráliti Magnúsar og breytti dómum í Brimarhólmsvist.

Magnúsi varð það á, ásamt öðrum ungum mönnum, að skrifa mikið bænaskjal til konungs stuttu fyrir aldamótin og fara fram á mjög svo róttækar breytingar. En þá höfðu tímar breyst og fengu þeir skammir fyrir.

Magnús var ágætlega enskumælandi, sem og faðir hans Stefán stiftamtmaður, og sumir telja það, ásamt óánægju með dönsk stjórnvöld, hafa haft áhrif á hugsanlegan stuðning við Jörund hundadagakonung. Víst er að Magnús fór til Englands á meðan Napóleonsstríðin stóðu sem hæst og Danir voru í sjókví. Magnúsi tókst að fá ensk stjórnvöld til að leyfa siglingar til Íslands og vakti athygli Englendinga á möguleikum þess að leggja Ísland undir sig. Englendingar veltu þessu fyrir sér en féllu að lokum frá hugmyndunum. En Jörundur (sem var um margt ótrúlega merkilegur maður) hafði fengið fluguna í hausinn eins og frægt varð.

Andstaða bænda við sjósókn og þéttbýlismyndun var talsverð og helgaðist eflaust fyrst og fremst af skorti á vinnuafli, nokkuð sem virðist hafa verið viðloðandi á Íslandi frá allra fyrstu tíð. Þegar leið á 19. öldinna hófst þéttbýlismyndun á nokkrum stöðum á landinu og útgerðarmenn gripu til þess ráðs að stofna barnaskóla til að laða fólk til sín. Afnám vistarbandsins í tengslum við stjórnarskrána 1874 opnaði fyrir samkeppnina, skólar risu víða um land við sjávarsíðuna (Vestmannaeyjar reyndar nokkru fyrr, síðan Bolungarvík osfrv.).

Þar sem Magnús bjó í sínum tíma, að Leirá, gripu bændur til þess ráðs að stofna barnaskóla í tilraun til að keppa við hið unga þéttbýli á Akranesi. Leirárskóli var starfræktur í nokkur ár fyrir 1900, finn því miður ekki nánari upplýsingar í svipinn, en tilraun bænda til að halda í vinnuhjú mistókst og skólinn var lagður niður. Núvernandi skóli var svo stofnaður 1965, í andstöðu við bændur.

Ég er sammála þér að við hefðum varla getað haft betri nýlenduherra en Dani, hins vegar held ég að Englendingar hefðu reynst okkur betur en Írum. Þeir voru alla vega mjög jákvæðir gagnvart Íslandi kringum aldamótin 1800 og fyrr í sögunni enda er 15. öldin oft nefnd "Enska öldin" vegna mikillar sjósóknar Englendinga hingað, nokkuð sem hélst nánast óslitið allt fram til þorskastríða.

Brynjólfur Þorvarðsson, 19.2.2013 kl. 12:25

23 identicon

Brynjólfur, faðir Magnúsar Stephensen var Ólafur stiftamtmaður ekki Stefán en Magnús átti bróðir sem Stefán hét og var hann amtmaður og bjó á Hvítárvöllum.

Egill Þorfinnsson (IP-tala skráð) 19.2.2013 kl. 14:56

24 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Allir verða að sjá og hlýða á "Þjóð í hlekkjum hugarfars"! Takk

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.2.2013 kl. 18:13

25 identicon

ER eimmitt að hlusta á þættina hans Baldurs Hermanssonar af bloggi Láru Hönnu og horfði á "kallinn" hann Húsavíkur Jón í gærkveldi. Og helvítið hann Björn bónda í fyrrakvöld, því þvílík kvöl og pinting að sjá þetta,

Takk kærlega Lára Hanna að benda okkur á þú ert einstök.

Kristinn J (IP-tala skráð) 20.2.2013 kl. 09:00

26 identicon

Fyrir þá er á horfðu, - er minnst á það að siglingar íslendinga til og frá landinu voru bannaðar í stjórnartíð Dana?

Jón Logi (IP-tala skráð) 20.2.2013 kl. 14:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband