25.2.2013 | 19:10
Hæfileikarnir flæða um skólana.
Hæfileikar ungu kynslóðarinnar flæða um íslenska skóla.
Einn þessara skóla er Fjölbrautarskólinn í Ármúla sem er steinsnar frá blokkinni sem ég bý í, eins og sést hér á mynd.
Margt gott hefur verið gert í þessum skóla eins og sést á tengdri frétt á mbl.is. um skynörvunarbúnað handa fjölfötluðum nemendum í skólanum.
Vegna nálægðar við skólann fer það ekki alveg framhjá nágrönnunum, sem þar er að gerast.
Skólinn stendur þar sem fyrrum var mikil grjótnáma en nú grasi þakin brekka sem hefur verið mikill yndisstaður sem leiksvæði á veturnar, bæði fyrir börn okkar og barnabörn.
Frábært að renna sér á snjóþotum þegar vel viðrar til slíks á veturna.
Á sínum tíma varð Iðunn dóttir okkar stúdent við skólann og nú er Helga Rut Hauksdóttir dótturdóttir okkar nemandi þar.
Ég átti þess kost að sjá og heyra hæfileikaríka nemendur láta ljós sitt skína á föstudagskvöld í söngkeppni skólans og keppnin var hörð.
Helga Rut stóð sig með bestu prýði og þær mægðurnar, hún og Lára, brostu breitt á eftir eins og sést á mynd hér fyrir neðan.
Í dómnefndinni voru meðal annarra þau Eyþór Ingi og Ragnhildur Gísladóttir og bæði þau og áheyrendur voru næsta sammála um það að hinn stórefnilegi Lúkas hefðu sigrað.
Hann flutti frumsamið lag og texta eins og fleiri keppendur.
Hann skilaði afbragðsvel afar erfiðum flutningi á flóknum og miklum texta.
En ekki síst heillaði hann áhorfendur með nýtingu þeirrar tækni að búa til allan undirleik sinn sjálfur með nýjustu tækni, sem fólst í því að leika undir á gítar og slá á hann og taka það upp jafnóðum og blanda síðan við "læf" spil og söng á meðan á flutningum stóð.
Lúkas er nafn sem ég held að rétt sé að leggja á minnið, gott dæmi um hæfileikana sem flæða fram í íslenskum skólum.
Ármúlaskóli fær tæki til örvunar og hæfingar fjölfatlaðra nemenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.