Arðrán og misrétti þar og hér.

Nígería er land orkuauðlinda, sem nýttar eru af erlendum stórfyrirtækjum, sem græða á tá og fingri og njóta fríðinda og mestalls gróðans af auðlindunum. Þar hafa hin erlendu auðfyrirtæki reist virkjanir með stórfelldum náttúruspjöllum og opnað olíulindir af miklu tillitsleysi við innfædda til þess að stunda arðrán sem byggist á misrétti í svipuðum stíl og tíðkaðist á tímum nýlenduveldanna.   

Í kringum olíuauðinn er hægt að reisa hverfi glæsiskýjakljúfa í höfuðborginni með tilheyrandi bruðli og lúxus á sama tíma sem mestöll þjóðin býr við fátækt og slæm kjör, jafnvel í þeirri sömu borg.

Fyrir rúmum aldarfjórðung gáfust Íslendingar upp á því að selja skreið til Nígeríu vegna þess að sárafátækt fólkið gat ekki borgað fyrir hana, þótt hún væri morandi í möðkum. Á sama tíma var hægt að selja hreina íslenska skreið frá Bandaríkjunum fyrir hundraðfalt verð og fá borgað í reiðufé, af því að 1% Nígeríumanna var ríkt fólk.

Núna samsvarar 1% Nígeríumanna 1,58 milljónum manna.

Nýting orkunnar og arður af henni er á svipuðum nótum hér á landi. Íslendingar buðu stórfyrirtækjum á sínum tíma lægsta orkuverð í heimi og fríðindi, sem tækju blaðsíður að tilgreina út í hörgul.

Líkt og í þróunarlöndum fá innfæddir náðarsamlegast vinnu í álverunum á Íslandi fyrir störf, sem kostaði þjóðfélagið margfalt meira að skapa en nokkur önnur störf, sem hægt er að skapa hér á landi.

Forstjóri Landsvirkjunar segir arðsemi virkjananna ekki viðunandi, Orkuveita Reykjavíkur er á hausnum og horfst er í augu við skuldaklafa til margra ára, ef ekki áratuga.

Á sama tíma virðist stefna í það að Alcoa sé að klára að borga álverið í Reyðafirði upp á allra næstu árum.

Hinir innfæddu verða að borga skatta og gjöld af störfum sínum og rekstri á sama tíma sem erlendu forréttinda- og fríðindaherrarnir sleppa við að borga skatta af minnst fimmfalt meiri tekjum sem renna óskiptar úr landinu, - og á sama tíma sem önnur fyrirtæki hér á landi og almenningur kvartar undan skattlagningu.

Og milljarða fríðindi eru í boði í hvert sinn sem fyrirtæki með "orkufrekan iðnað" lætur sjá sig.

Hin nýju ígildi nýlenduherra nota útsmognar bókhaldsaðferðir og viðskiptatilfærslur á milli landa til þess að fela gróða sinn og koma honum undan út úr landinu. Reikna má með að gróði Alcoa sé ekki minni en 15 milljarðar á ári, en líklega nær 30 milljörðum. Erfiðara að giska á gróða Norðuráls.

Og ekki er að sjá annað en að þeir stjórnmálamenn, sem halda stórauknum virkjana- og stóriðjuframkvæmdum hátt á lofti, en að þeir láti sér þetta vel líka.


mbl.is Afríska Dúbaí rís í Lagos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Er það ekki einmitt vegna þess hvað kjafturinn hæfir skelinni vel að lífið er svona dásamlegt í þessu annars ágæta landi okkar....?

Ómar Bjarki Smárason, 20.3.2013 kl. 21:24

2 identicon

Og þess vegna flytur landinn unnvörpum úr landi?

Jón Logi (IP-tala skráð) 21.3.2013 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband