21.3.2013 | 18:01
Einstrengingsleg meðferð málsins.
Meðferð flugvallarmálsins í Reykjavík hefur verið einstrengingsleg í meira en tvo áratugi og öll miðast við að leggja flugvöllinn niður.
Þegar haldin var atkvæðagreiðsla um flugvöllinn 2001 var ákvæði um það að hún væri ekki bindandi nema tilskilinn hluti kjósenda tæki þátt í henni. Þetta voru fyrstu mistökin, því að Davíð Oddsson gaf út þá dagskipun að þeir, sem vildu flugvöllinn áfram, sætu heima og eyðilegðu með því atkvæðagreiðsluna í stað þess að hvetja þá til þess að fara og kjósa.
Afleiðingin varð sú að í kosningu, sem var með allt of lítilli þátttöku til að vera bindandi, munaði örlitlu á þeim sem voru á móti vellinum og þeim sem voru með honum.
Það er ójafn leikur og í raun ólýðræðislegt þegar málum er stillt þannig upp að annar aðilinn í álitamáli þarf að hafa fyrir því að fara á kjörstað og kjósa en hinn aðilinn telur sig geta sigrað með því að sitja heima.
En þessu viðhorfi var flaggað í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána í haust og er dapurlegt þegar áhrifamenn í flokki, sem telur sig hafa verið brjóstvörn lýðræðisins á Íslandi, halda svona löguðu fram.
Engu að síður tölu flugvallarandstæðingar þetta binda hendur borgarstjórnar og hafa hamrað á því síðan.
Hvað um það, síðan 2001 eru liðin tólf ár og skoðanakannanir síðustu árin hafa sýnt, að viðhorf fólks hafa breyst fyrir löngu og það er ekki aðeins mikilll meirihluti landsmanna sem vill flugvöllinn áfram, heldur góður meirihluti Reykvíkinga sjálfra.
Samt er haldið áfram að vinna leynt og ljóst að því að koma vellinum í burtu í stað þess að kanna betur fleiri möguleika en einn á því hvernig hægt er að koma honum fyrir og finna málamiðlun í þessu mikilsverða máli.
Ég hef bent á eina slíka lausn, sem var reifuð fyrir nokkrum dögum í grófum dráttum í fréttum Stöðvar 2, og fleiri lausnir eða útfærslur kæmu til greina.
Sumir þeirra sem keyra málið áfram, telja sig vera mikla vini beins lýðræðis, en ásamt þáverandi andstæðingum þess var sett regla 2001 sem gerði aðilum kleyft að koma í veg fyrir það í sameiningu að atkvæðagreiðslan yrði bindandi og raunhæf.
Nú væri ráð í ljósi hins langa tíma, sem liðið hefur, og möguleika á að skapa hér þroskaða beins-lýðræðis menningu, að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, sem varðar alla þjóðina, því að ef það er eitthvað mál sem varðar alla þjóðina, er það flugvallarmálið í höfuðborg allra Íslendinga.
Sala á Vatnsmýrinni óforsvaranleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvorki ríkjum né borgum er stjórnað samkvæmt skoðanakönnunum, heldur kosningum.
14.3.2013:
"Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson, staðgengill borgarstjóra, undirrituðu samninginn, sem var samþykktur í borgarráði í morgun með öllum greiddum atkvæðum.
Samningurinn er svokallaður marksamningur og skuldbindur Reykjavík sig til að selja allar lóðir á markaði."
Reykjavík kaupir land í Skerjafirði
Þorsteinn Briem, 21.3.2013 kl. 18:23
Væri ekki meira vit í því að byggja nýjan miðbæ verslunar og skrifstofuþjónustu ásamt Alþingi upp í Höfða og reisa háskólasjúkrahús austan við Elliðavoginn.
Gamli miðbærinn og grend yrði með túrista þjónustu áfram
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 21.3.2013 kl. 18:24
Isavia heldur því fram í fréttatilkynningu í dag að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 93%?!
Á árunum 2002-2004 var nýtingarhlutfall Ísafjarðarflugtvallar um 93% en Reykjavíkurflugvallar OG Vestmannaeyjaflugvallar um 98%.
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018, sjá bls. 30
Og harla ólíklegt er að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði og Ísafjarðarflugvallar yrði það sama.
Esja er í um tíu kílómetra fjarlægð frá bæði Hólmsheiði og Vatnsmýri.
Ísafjarðarflugvöllur er á landfyllingu úti í sjó við rætur brattrar fjallshlíðar og fjallið Kubbur (Kubbi) er nokkur hundruð metrum frá suðurenda flugbrautarinnar.
"Skutulsfjörðurinn er girtur bröttum fjöllum, sem eru nærri sjö hundruð metrar að hæð."
11.1.2008:
"Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær áskorun til samgönguyfirvalda um að leggja til fjármuni svo hægt verði að gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru til að Ísafjarðarflugvöllur geti á ný þjónað millilandaflugi."
"Nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar er um 98% og takmarkast flug frá honum einkum vegna hliðarvinds og skýjahæðar."
"Ef aðeins verður eftir ein flugbraut 2016 er öruggt að nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar snarminnkar og verður um 91%, eins og gert er grein fyrir í skýrslu samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins í janúar 2001.
Í skýrslu samráðsnefndar um úttekt á Reykjavíkurflugvelli, yfirliti um stöðu verkefnisins í maí 2006, er nýtingarhlutfallið fyrir eina braut talið vera innan við 80%."
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018, sjá bls. 31
Þorsteinn Briem, 21.3.2013 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.