Hefur alltaf blasað við.

"Þrjú tonn af sandi!" var sungið forðum en fyrr má nú rota en dauðrota þegar um er að ræða hálfa milljón tonn af sandi að meðaltali á ári eins og raunin er um Landeyjahöfn.  

Það eru minnst 50 ár síðan það lá ljóst fyrir, að þar sem aurugt vatn berst meðfram árbakka eða fjöru, þarf ekki annað en að byggja grjótgarða út í strauminn til þess að sandur safnast við þá þar sem garðarnir trufla strauminn.

Þetta hefur verið gert viða um land við árbakka og sama lögmál er talið getað stöðvað rof fjörunnar við Vík í Mýrdal.

Garðarnir, sem standa út úr Landeyjahöfn hafa augljóslega sömu áhrif og draga að sér sand þar eins og annars staðar við strendur og árbakka.

Sandburðurinn við Landeyjarfjöru var fyrirsjáanlega gríðarlega mikill. Ég minnist skipsstranda á fjörum þar sem skipið hefur grafist niður í sandinn á nokkrum áratugum. Þetta hefur alltaf blasað við.

Að sandmagnið skuli vera 18 sinnum meira og höfnin lokuð sex sinnum lengur en gert var ráð fyrir getur ekki aðeins skýrst af framburði í Eyjafjallajökulsgosinu, - til þess er þessi munur allt of mikill.

Enda var framburðurinn vegna gossins ekki mikið meira en magnið, sem búið er að moka út úr höfninni, og varla hefur mestallur framburður þess vegna gossins farið inn í höfnina, heldur dreifst víðar. 

En hvað sem um þetta má segja sitjum við uppi með þessa höfn og stóraukinn ferðamannastraumur og samsvarandi tekjur af honum minnka áfallið. Höfnin hefur valdið byltingu í samgöngum við Eyjar og á öllu svæðinu á mesta ferðamannatímanum og væri gaman að reikna út, hve mikill beinn ávinningur er af höfninni í þeim efnum.


mbl.is 20 Laugardalshallir af sandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tja, Ómar, - nú má ég til að koma með smá innlegg. (stórt)

"Það eru minnst 50 ár síðan það lá ljóst fyrir, að þar sem aurugt vatn berst meðfram árbakka eða fjöru, þarf ekki annað en að byggja grjótgarða út í strauminn til þess að sandur safnast við þá þar sem garðarnir trufla strauminn."

Ég hugsa að þarna séum við frekar að tala um nokkur þúsund ár. Og allmargar ár. Siglingar eiga sér langa sögu, og þar með hafnir, fljótsmynni, og mannsins augu á því sem gerist. Og þetta þekkir þú vinur, - sjá má hvernig hægt er að beisla sandburð líkt og bændur gerðu með Þverá, - þar voru náttúrukraftar beislaðir til þess að beinlínis moka sandi. Tókst vel, en engin stofnun stóð þó að því.

Svo hið síðasta. Hálf miljón tonn, - hvort er það í þyngd eða rúmmáli?
Sé það í þyngd, er það nær kvartmilljón tonn, þar sem eðlisþyngdin í okkar svarta sandi er nær 2 - 2.2 miðað við vatn.
Kvartmiljón er 250.000 tonn að rúmmáli, sem er á góðu máli 250.000 rúmmetrar.  Einn meter af sandi á 25 hektara, eða 10 metrar á 2.5 hektara.
Þetta er minna en ég bjóst við, en hitt má þó segja að annars staðar safnast sandur sem ekki er dælt, einfaldlega af því að hann er ekki fyrir. Mest sýndist mér af honum vera austan til, og þar væri kannski hægt að "láta" byggjast upp rif og kannski láta Dönsku hafnarmálastofnunina fylgjast með. Hollendingar eru þó þeir sem kunna e.t.v. best til verka við svona aðstæður.
Svo, að lokum, - oft er höfnin lokuð vegna ölduhæðar. 3m í fyrradag og þá síðustu ferð frestað, en flott í gær.
Tek svo undir með niðurlaginu, og með viðbót:
Það þarf endilega að halda uppi fluginu til Eyja áfram, og þá styttri leggina, - Bakki, Hvolsvöllur, Hella, - þar sem hægt er að sæta lagi, og er þá skyggni og vindur það sem máli skiptir, - aldan getur haft "lokað" við fullkomin flugskilyrði, eins og var í fyrradag. 

Jón Logi (IP-tala skráð) 22.3.2013 kl. 09:20

2 identicon

Hefði átt að moka höfnina inn í landið.

Böðvar Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.3.2013 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband