"Ófeigur gengur aftur."

Í kvikmyndinni "Ófeigur gengur aftur" gengur hvorki né rekur fyrir ung hjón að stjórna lífi sínu vegna þess að vofa Ófeigs, látins föður konunnar, fæst ekki til að víkja af vettvangi, heldur tekur stjórnina og vill hafa allt eftir sínu höfði.

Ástandið á Alþingi hefur síðustu árin um margt líkst þessu.

Ófeigur að þessu sinni er ríkisstjórnin og hagsmunahóparnir sem hún límdi saman, sem sat í slímsetu í tólf ár frá 1995 til 2007 og setti þjóðfélagið um borð í hraðlest stóriðju, bankabólu, margföldunar skulda og græðgisbrjálæðis sem kollsteypti þjóðfélaginu í Hruni fram af hengiflugi.

Rannsókn hefur leitt í ljós að haustið 2006 var hryggjarstykkið í þessum Ófeigi íslenskra stjórnmála síðan 1933, einkavinavæddda bankakerfið hátimbraða, þegar við dauðans dyr, þótt það hrykki ekki endanlega upp af fyrr en haustið 2008.

Draugur Ófeigs hefur hins vegar verið iðinn við kolann í stjórnarandstöðunni gegn nýrri stjórnarskrá, nýjum auðlindakafla, fiskveiðistjórnarfrumvarpi o. s. frv. og lagt dauða hönd málþófs á hvert það mál, sem hægt var að tefja.

Líkt og í kvikmyndinni fyrrnefndu hefur þessi ódrepandi Ófeigur hamast við að stöðva allt það, sem gæti haggað við hagsmunum forréttindahópanna sem náðu svo vel saman í faðmlagi Davíðs og Halldórs.

Tákngervingurinn var og er kannski ennþá Finnur Ingólfsson, vofan menn rekast enn á þegar kannaður er bakgrunnur margs þess sem er í gangi hjá Ófeigi.

Munurinn á Ófeigi í kvikmyndinni og Ófeigi íslenskra stjórnmála er hins vegar sá, að kvikmyndin er vel gerð, hugljúf og skemmtileg, en hinn pólitíski Ófeigur, sem fyrst fór á kreik 1933, hefur á síðustu árum orðið óþolandi hvimleiður.

Það mátti kannski þola hann lifandi í stjórnarsamstarfi undir forystu Denna fyrst eftir 1983, þegar ekki varð hjá því komist að taka erfiðar ákvarðanir eftir óstjórn áranna á undan, en á köflum síðustu misseri hefur hann líkst dauðum brennuvarg sem gengur aftur eftir að hafa drepist í stórbruna sem hann kveikti og reynir síðan að trufla slökkvistarfið sem allra mest. 

Kvikmyndin "Ófeigur gengur aftur" fær fjórar stjörnur í umsögn í Mogganum,Smile, - en í samræmi við eðli og gerð drauga og þeirrar Ófeigs-afturgöngu, sem hefur djöflast á Alþingi síðustu árin, ætti umsögn um þann pólistíksa draug að verða mældur í hauskúpum! Alien     

Í sjónvarpsumræðu talsmanna flokkanna sást samsvörun með skattastefnu þessara Ófeigs-flokka sem á hliðstæður í samræmdri afstöðu þeirra til flestra annarra mála sem nefnd voru hér að framan og verður viðfangsefni Ófeigs til að drepa, þegar hann verður lífgaður endanlega við í stjórn þessara tveggja flokka eftir kosningar að öllu óbreyttu.

Ófeigi nægir að fá 43-44% fylgi í kosningunum til að ná meirihluta þingmanna ef öll "litlu framboðin lenda undir 5% atkvæðaþröskuldinum, og reynslan af Ófeigs-ríkisstjórnum þessara tveggja flokka í 80 ár sýnir að því þrengri, stærri og samtvinnaðri sem hagsmunir bakhjarla þessara flokka eru, því pottþéttara verður það að þeir muni fallast í faðma eftir kosningar eins og svo ótal sinnum áður.

Það gerðu þeir í ríkisstjórnunum 1933, 1939, 1947, 1950, 1953, 1974, 1983, 1987, 1995, 1999 og 2003.  

Þá skiptir ekki öllu málin hvor flokkurinn er stærri en hinn eða hvor leiðir stjórnina. Í samstjórnum þessara flokka fer það eftir hentugleikum, hvor þeirra er með stjórnarforystu, - helmingaskiptareglan er fyrir öllu; -  bandaríska orðtakið "I scratch your back and you scratch mine" er það sem skiptir máli.

Framsóknarmenn voru með forsætisráðuneytið og stjórnarforystu í stjórnunum 1933, 1939, 1950, 1983 og 2005, en Sjálfstæðismenn 1953, 1974 og 1995.

Það er hugsanlega stutt í það að maður sé ekki lengur að tala um draug, heldur að tala um næstu ríkisstjórn þegar Ófeigur verður ekki bara afturganga heldur sprellifandi að nýju.

Já, eftir 80 ára sögu þessa tvíhöfða draugs á það enn við að "Ófeigur gengur aftur."      


mbl.is Kosningabaráttan framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru í ríkisstjórn 1932-1934 (ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar).

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum 1939-1941 (þriðja ráðuneyti Hermanns Jónassonar).

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum 1941-1942 (fjórða ráðuneyti Hermanns Jónassonar).

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum 1947-1949 (ráðuneyti Stefáns Jóhanns Stefánssonar).

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru í ríkisstjórn með Alþýðuflokknum 1987-1988 (ráðuneyti Þorsteins Pálssonar).

Alþingi - Ráðuneyti

Þorsteinn Briem, 3.4.2013 kl. 02:55

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru nú með samanlagt um 50% fylgi, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Capacent Gallup.

Píratar (4,4%) og Lýðræðisvaktin (3,1%) gætu allt eins fengið 5% fylgi, samanlagt 10%.

Og samkvæmt þessari skoðanakönnun er fylgi Sjálfstæðisflokksins nú komið niður fyrir það fylgi sem hann fékk í síðustu alþingiskosningum.

Þá fékk flokkurinn um 13% minna fylgi en í kosningunum 2007, missti níu þingmenn og hefur aldrei fengið minna kjörfylgi í sögu sinni.


Þar að auki missti Frjálslyndi flokkurinn alla sína fjóra þingmenn í síðustu alþingiskosningum.

Fylgið er að færast að miðjunni til Framsóknarflokksins og Bjartrar framtíðar.


Og þessir flokkar gætu allt eins myndað ríkisstjórn með Samfylkingunni.

Mun betra fyrir Framsóknarflokkinn en að vera í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, sem fengi enn minna fylgi nú en í kosningunum 2009.

Og að öllum líkindum einnig betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

2.4.2013 (í gær):

Framsóknarflokkurinn með mest fylgi

Þorsteinn Briem, 3.4.2013 kl. 05:52

3 identicon

Dósentinn Birgir Þór fær hálfan milljarð afskrifaðar. Ef við hefðum ekki DV, vissum við ekkert um þetta, leyndó. Ekki myndi Mogginn eða Fréttablaðið birta slíkt.

En eiga svona braskarar eitthvað erindi við æðstu menntastofnun landsins?

„No free lunch“, segir Hannes Hólmsteinn og einnig þessi Birgir Þór. Mikið til í því, en hver borgar „lunch“ Birgis og hans kellu?

Þið megið aðeins geta einu sinni.

 

Þetta sýnir mæta vel hvað var í gangi hjá sjallabjálfunum fyrir hrunið. Verða ríkur, ógeðslega ríkur með tómu braski og fjárhættuspili. Bjari Ben og hans fjölskylda var á bólakafi í sama ósómanum.  Það er svo gaman að vera ríkur, grilla og græða.

Framtak einstaklingsins er þetta kallað í Valhöll.  Svo furða menn sig á litlu fylgu FLokksins.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.4.2013 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband