8.4.2013 | 11:39
Eyjabakkar, Echo Park Íslands.
Tvö örnefni, sem byrja á stafnum E, léku svipað hlutverk í náttúruverndarbaráttunni í Bandaríkjunum og Íslandi. Vestra var það upp úr 1960 og á Íslandi 40 árum síðar.
Í Bandaríkjunum stóð til að virkja í Echo Park og við Glen Canyon. Náttúruverndarfólk þekkti Echopark vel, enda er það svæði ekki langt frá Los Angeles, en það þekkti ekki Glen Canyon þá, og þegar tvísýnt var að baráttan ynnist fyrir bæði svæðin og gæti jafnvel tapast alveg, varð útkoman sú að þyrma Echo Park en gefa Glen Canyon eftir, en þar var margfalt meiri orku að fá.
Þegar farið var að virkja við Glen Canyon komst náttúruverndarfólk að því að það hafði gert herfileg mistök, fórnað gersamlega einstöku svæði en bjargað svæði, sem átti sér marga ofjarla annars staðar.
David Brower, forystumaður náttúruverndarfólks í Bandaríkjunum, varð svo hugsjúkur út af þessu, að hann íhugaði alvarlega sjálfsmorð og var á tímabili í nokkurs konar gjörgæslu vina sinna.
Frá þessu er sagt í bókinni Cadillac desert eftir Mark Reisner, sem bókagagnrýnendur í Bandaríkjunum sögðu að ætti að vera skyldulesning.
Á Íslandi var barist hart fyrir Eyjabökkum, enda þekkti náttúruverndarfólk þá sæmilega vel. En ætlun stóriðjusinna var alltaf að taka allt svæðið norðan Vatnajökuls inn í 1300 megavatta virkjun og gera mörg lón út um allt hálendið.
Úrslitin urðu þau að Eyjabökkum var þyrmt en þrefalt stærri virkjun Kárahnjúka leyfð, enda þekktu afar fáir það svæði og raunar mun þjóðin aldrei fá að kynnast hverju var fórnað þar fyrr en / ef að heimildamyndin Örkin verður sýnd.
Eins og Echo Park átti sér ofjarla og Glen Canyon var einstakt, áttu Eyjabakkrar sér ofjarla í Þjórsárverum og Hjalladalur og snilldarverk Brúarjökuls frá jökli til sjávar áttu sér enga hliðstæðu.
Virkjanafíklar fengu meira að segja í sinn hlut meiri orku með nýrri tilhögun en þeir hefðu fengið með því að sökkva bæði Eyjabökkum og Hjalladal. Það sýnir að tillit til náttúrunnar var víðs fjarri hjá þeim, aðalatriðið að sökkva sem mestu.
Fórnað var margfalt meiri verðmætum með Kárahnjúkavirkjun en ef Eyjabökkum hefði verið sökkt, auk þess sem stórfelld umhverfisspjöll hafa síðan verið unnin á svæðinu við Eyjabakka.
Kárahnjúkavirkjun er líka að flestu leyti miklu verri framkvæmd en Glen Canyon virkjunin.
Það er til marks um þekkingu fólks á öræfunum norðaustan Vatnajökuls að Eyjabakkar og sérstæðasta og fallegasta svæðið þar, eru lengst í fjarska á myndinni sem valin er á mbl.is. til að sýna, um hvað sé að ræða. Fórum við RAXi þó saman í flugferð til að taka mynd af Eyjabökkum.
Siv Friðleifsdóttir kom aldrei á Eyjabakka heldur dæmdi þá á svipaðan hátt og maður stæði á Kjalarnesi og legði dóm á Elliðaárdal.
Og Davíð Oddsson sagði, að þetta gæti ekki verið merkilegt svæði, því að hann og allir aðrir héldu að Eyjabakkar væri gata í Breiðholtinu!
Það var ekki fyrr en myndir fóru að birtast af þeim í sjónvarpi að allt varð vitlaust og þess var krafist að ég yrði rekinn fyrir þær.
Nú, þegar Eyjabakkar eru komnir á Ramsarskrá, tek ég ofan fyrir því hugrakka og fórnfósa baráttufólki sem tókst að bjarga Eyjabökkum og gekk svo nærri sér, að segja má að náttúruverndarhreyfingin og hafi legið örmagna og skuldum vafin eftir, að minnsta kosti Ólafur F. Magnússon.
En jafnframt græt ég hin hörmulegu örlög miklu stærra og enn merkilegra svæðis, sem fóru í úlfsgin valdhafa og hagsmunaaðila með fúlgur fjár og yfirburði í mannafla og nýttu sér aðstöðumuninn í kjölfar Eyjabakkadeilunnar.
Þeir ætluðu sér allan tímann að taka allt þetta svæði og eru enn að í því skyni að ná Kverká og virkja í Jökulsá á Fjöllum.
Eyjabakkar á votlendisskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Árans sauður er hún Siv,
öllu fögru drekkir,
úr Halldórs síðu hún er rif,
hana Skrattinn þekkir.
Þorsteinn Briem, 8.4.2013 kl. 14:27
Ansi stór er álverskór,
aldrei mjór er sá Halldór,
drýgir hór í Framsókn flór,
fýsnin fór með Guðlaug Þór.
Þorsteinn Briem, 8.4.2013 kl. 15:08
Ómar, - skúbbaðu nú blessaðri myndinni af.
Vanti þig aðstoð við eitthvað tos, þá eru mínar hendur lausar til brúks.
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.4.2013 kl. 18:01
Það eru þrjár myndir á undan henni í forgangsröðinni vegna þess að þessar myndir eru um brýn verkefni í núinu en Örkin er því miður sagnfræði.
Ómar Ragnarsson, 8.4.2013 kl. 18:48
Legg ég þér lið ef vantar. 3 myndir....hva ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 8.4.2013 kl. 21:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.