Stórmenni þótt umdeild sé.

Margaret Thatcher var eitt af stórmennum Breta á síðustu öld, ekki ósvipað og Winston Churchill hafði verið á undan henni. Enginn forsætisráðherra Breta sat jafn lengi og hún og innanlands hafði hún meiri áhrif til breytinga en nokkur annar forsætisráðherra aldarinnar.

Sovéskur blaðamaður gaf henni heitið "Járnfrúin" sem festist við hana, enda konan með eindæmum stefnuföst og fylgin sér, klár og vinnusöm. Hún var fyrst kvenna til að gegna þessu embætti og hafði vafalaust hvetjandi áhrif á kynssystur sínar víða um lönd.

Og þá vaknar skemmtileg spurning: Hún kemst til valda 1979 og árið eftir býður Vigdís Finnbogadóttir sig fyrst kvenna fram til embættis forseta Íslands og verður fyrsta konan í heiminum til að vera kosin þjóðhöfðingi þjóðar sinnar. Skyldi kjarkur Thatchers hafa orðið hvatning fyrir Vígdísi?

Thatcher var rétta manneskjan á réttum tíma, þegar forystumenn í stjórnmálalífi Breta voru næsta litlausir og frekar ístöðulitlir.

Hún réðst ótrauð til atlögu við veldi staðnaða verkalýðsforingja, sem höfðu skekkt það jafnvægi í stjórn landsins sem þarf að ríkja. Það var ekki tilviljun að á áttunda áratugnum hrakaði helstu atvinnugreinum Breta og aldrei í sögu sinni framleiddur þeir til dæmis lélegri bíla.

Á þessum tíma var stundum talað um Bretland sem "the sick man of Europe". En það breyttist á valdatíma Thatchers.

Eins og Churchill fékk upp í hendurnar árás utan frá til að þjappa þjóðinni saman fékk Thatcher Falklandseyjadeiluna upp hendurnar.

Málstaður Breta var þó hvergi nærri jafn göfugur þá og þegar Hitler ógnaði heimsbyggðinni. Falklandseyjar nálægt ströndum annars lands hinum megin á hnettinum og nokkurs konar örlitlar leifar af fornu heimsveldi.

Bandaríkjamenn og aðrir vinir Breta réðu henni frá því að bregðast með beinu hervaldi við því að Argentínumenn tóku eyjarnar, sem augljóslega höfðu enga efnahagslega né hernaðarlega þýðingu fyrir Breta.

En Thatcher leit öðruvísi á málið, - vissi að yfirráð yfir Gíbraltar og Hong Kong gátu orðið í hættu ef gefið yrði eftir á Falklandseyjum.

Um alla þessa þrjá staði gilti að íbúar þeirra vildu ekki hafna yfirráðum Breta og það nýtti Thatcher sér auk þess sem hún skilgreindi árásaraðilann hiklaust sem "glæpahyski".

Thatcher hvikaði hvergi og vann sigur, að vísu ekki án dýrkeyptra mannfórna.

Bréfið sem hún skrifaði aðstandendum breskra hermanna sem fórust var magnað. Hún talaði eflaust frá hjartanu þegar hún sagðist sjálf vera móðir og geta ímyndað sér líðan þeirra, sem ættu um sárt að binda. Aðrir myndu kannski segja að þetta hafi sýnt hve slóttug hún gæti verið.

Thatcher var svo heppin að skoðanabróðir hennar í trú á frjálshyggju komst til valda í Bandaríkjunum og að þau voru mjög á sama róli í afstöðunni til síðustu tilraunar Sovétmanna til að rétta hlut sinn hernaðarlega og efnahagslega.

Mesta afrek Thatchers var vafalaust það að sveigja Verkamannaflokkinn til hægri og henni líkaði vel við Tony Blair þótt hún væri ævinlega í nöp við það sem henni fannst vefra of þýlynd afstaða Breta til Evrópusambandsins.

Sumir sérfræðingar í efnahagsmálum telja að Thatcher og Reagan hafi með því að gefa kapítalismanum sem allra mest frelsi og lausan tauminn án aðhalds hrundið af stað þeirri þróun sem olli kreppunni 2008 og tala um Reagan-Thatcher tímann frá 1980 til 2008.

Að því leyti er arfleifð Thatchers óræðari nú en hún var fyrir 2008 og líklegt að nokkur tími muni líða þar til endanlegur dómur sögunnar yfir henni og Reagan liggi fyrir.

Stefnufesta, dugnaður og sannfæring voru helstu kostir Járnfrúarinnar en jafnframt helstu gallar hennar, því að henni hætti til að tala eins og "besservisser" niður til annarra, stundum á hrokafullan hátt, og þá alveg jafnt samstarfsmanna sinna sem annarra. Þegar gert var samsæri gegn henni var ástæðan meðal annars sú sem felst í gamla máltækinu að dramb sé falli næst.  


mbl.is Margir minnast Járnfrúarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Heldur þykir mér ólíklegt að Vigdís Finnbogadóttir hafi boðið sig fram og verið kosin í forsetakosningunum 1980 vegna Margrétar Thatcher en þá kaus ég Vigdísi.

"Eftir haustið 1979, þegar Vigdís ákvað að hætta sem leikhússtjóri, var framtíð hennar óráðin.

Þann 1. janúar 1980 tilkynnti þáverandi forseti, Kristján Eldjárn, að komandi ár væri hans síðasta í embætti og kom sú yfirlýsing þjóðinni ekki á óvart.

Vigdís var vissulega glæsileg kona sem var vel að sér í tungumálum, örugg menntakona og sjálfstæð.


Hún var þekkt í sjónvarpi og menningarlífi, hafði margt til brunns að bera og vegna þessa var skorað á hana sem forsetaframbjóðanda í Dagblaðinu 15. janúar."

Vigdís Finnbogadóttir

Þorsteinn Briem, 8.4.2013 kl. 19:38

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Alveg rétt sem þú segir, Steini, en samt segir Jóhanna Sigurðardóttir í viðtali, að vegsemd og kjarkur Thatchers hafi verið hvatning fyrir konur um allan heim.

Ómar Ragnarsson, 9.4.2013 kl. 20:40

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jóhanna Sigurðardóttir segir einnig:

"Slíkt er mikilvægt til að breyta hugsunarhætti kynslóðanna, nákvæmlega eins og við sáum hér á Íslandi þegar kona varð fyrst forseti."

Mér þykir nú líklegra að Sigríður Eiríksdóttir, móðir Vigdísar Finnbogadóttur, hafi verið henni fyrirmynd en Margrét Thatcher.

"Sigríður Eiríksdóttir (1894-1986) var hjúkrunarfræðingur og formaður Hjúkrunarfélags Íslands, eins og félagið hét þá, um 36 ára skeið (1924-1960).

Sigríður var mikill félagsmálafrömuður sem lét til sín taka bæði innanlands og utan.

Foreldrar Vigdísar voru meðal stofnenda Krabbameinsfélags Íslands árið 1949 en Vigdís hefur verið verndari félagsins frá 1986."

Vigdís Finnbogadóttir - Æska og nám

Þorsteinn Briem, 9.4.2013 kl. 22:40

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Home of Paul and Clara Jobs, on Crist Drive in Los Altos, California. Steve Jobs formed Apple Computer in its garage with Steve Wozniak and Ronald Wayne in 1976. Wayne stayed only a short time leaving Jobs and Wozniak as the primary co-founders of the company.
Home of Paul and Clara Jobs, on Crist Drive in Los Altos, California. Steve Jobs formed Apple Computer in its garage with Steve Wozniak and Ronald Wayne in 1976.

Þorsteinn Briem, 18.4.2013 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband