9.4.2013 | 09:28
Algeng umkvörtunarefni og afsökun.
Það er algengt umkvörtunarefni úti á landi að ferðaþjónustufyrirtæki "fyrir sunnan" raki til sín mestöllum gróða af ferðamennsku hinum megin á landinu.
Rétt eins og að útilokað sé að standa að neinu slíku heima í héraði þar sem náttúruperlunar þó eru.
Í framhaldinu er þetta notað sem afsökun og brýn ástæða fyrir því að "efla atvinnulíf" á viðkomandi svæði með því að koma á fót stóriðju og virkja á þeim svæðum þar sem landslag og náttúruperlur eru hvað sérstæðastar.
Því er oft bætt við að það sé alveg eins gott að breyta þessum svæðum í virkjanasvæði, ýmist með borholum, gufuleiðslum, vegum, háspennulínum, stöðvarhúsum og skiljuhúsum eða að reisa stíflur sem sökkva heilu dölunum og þurrka upp fossa, vegna þess að annars muni átroðingur ferðamanna hvort eð er eyðileggja svæðin.
Þá fyrst, eftir að allt hafi verið virkjað sundur og saman, verði hægt að fá peninga til að bæta aðgengi á þessum svæðum.
Þegar ég kynnti mér þjóðgarða í Bandaríkjunum og gerð ferðamannavega og uppbyggingu ferðaþjóniustu þar reyndi ég að rökstyðja það, af hverju ekki væri hægt að gera þetta eins á Íslandi.
"Séríslenskar aðstæður" réðu því að útilokað væri að opna landið fyrir ferðamenn og búa þannig um hnúta að þeir skemmdu ekki landið með átroðning, heldur yrði fyrst að gera helstu náttúruundrasvæðin að virkjanasvæðum til þess að hægt væri að "bæta aðgengi".
Eftir að hafa reynt að halda þessu fram nokkrum sinnum gafst ég upp við það. Það var horft á mann með undrunar- og hneykslunarsvip og manni sagt, að það væri bráðum hálf öld síðan svona löguðu hefði síðast verið haldið fram í Bandaríkjunum og væri með ólíkindum að svona umræða lifði góðu lífi í landi mínu.
Það grátlega við þennan hugsunarhátt á Íslandi er að í heila öld hefur fólk verið vanið við það að þingmenn eigi að koma "að sunnan" til að afhenda stóriðjufyrirtækin og "stuðla að atvinnuuppbyggingu" og þingmenn hafa í bráðum heila öld alið á þessum hugsunarhætti, þar sem markvisst er unnið að því að drepa niður allt frumkvæði og hugmyndir heimamanna um skaplegri uppbyggingu í héraði þeirra án þeirra hrikalegu náttúrufórna, sem stóriðjutrúin hefur innrætt þjóðinni.
Umhverfi Goðafoss ber merki eftir átroðning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hér á Íslandi er löng hefð fyrir viðskiptum við glæpamenn, til að mynda stóð íslensk saltsíld út úr eyrunum á sovésku og austur-þýsku nomenklatúrunni áratugum saman.
Fjöldinn allur af íslenskum sjávarbyggðum lifði á þessum viðskiptum og Akureyri var iðnaðarbær sem byggðist á viðskiptum við Sovétríkin, rétt eins og Álafoss í Mosfellssveit.
Íslendingar voru jafn háðir viðskiptum við lönd austan Járntjalds og Finnar voru áratugum saman.
Eftir að Sovétríkin hrundu hafa Finnar framleitt farsíma eins og þeim væri borgað fyrir það.
Íslendingar eru hins vegar margir hverjir enn í Nokia-gúmmístígvélunum en Rússar kaupa nú finnska farsíma.
Í staðinn fyrir frystan þorsk og karfa, hundrað þúsund tunnur af saltsíld og hundrað þúsund trefla árlega til Sovétríkjanna fengum við Íslendingar bíla og stál, svo og olíu frá sovésku borginni Batumi.
Keflavík byggðist á hinn bóginn á ótta Bandaríkjanna við Sovétríkin, sem skapaði mörg störf á Suðurnesjum.
Og ótti Breta við Þýskaland nasismans reif Íslendinga upp úr örbirgðinni, þó ekki gúmmístígvélunum.
Þorsteinn Briem, 9.4.2013 kl. 16:04
Saga frá Moskvu 2006: Íslenskur útrásarvíkingur kemur inn á hótel og þegar hann er að opna herbergið, kemur miðaldra en þó ótrúlega ungleg og glæsileg kona þar að og gefur sterklega til kynna að með því að bjóða sér inn í herbergið geti ungi útrásarvíkingurinn átt í vændum dýrðarstund.
Hann færist ákveðið undan og þegar hún skynjar tregðu hans, verður hún undrandi og spyr hvaðan hann sé.
Hann segist vera frá Íslandi.
Þá færist ljómi yfir andlit þeirra rússnesku þegar hún segir: "Yes! Síldarútvegsnefnd!"
Ómar Ragnarsson, 9.4.2013 kl. 20:38
Þeir hafa sjálfsagt verið á góðum dagpeningum á þessum eilífu samningafundum sínum þar eystra.
Þorsteinn Briem, 9.4.2013 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.