Gömul sannindi og allt of langvarandi vanræksla.

Tengd frétt á mbl.is um gildi þess að vegir séu ekki slysagildrur heldur hjálpi ökumönnum, felur í sér gömul sannindi. Hve oft hefur það ekki komið fyrir, því miður, að banaslys eða mjög alvarlegt slys hefur þurft til að ná fram úrbótum í vegakerfinu? 

Nokkur dæmi:  

Í kringum 1990 lá hringvegurinn um Hvalfjörð, þar sem oft urðu slys vegna legu vegarins og Hvalfjarðargöng enn ekki fyrirsjáanleg.

Nánast engin vegrið voru við veginn og þegar ég tók þetta fyrir í sjónvarpsfréttum var afsökunin sú, að vegurinn lægi þannig að það þyrfti tugi kílómetra af vegriðum ef ætti að girða fyrir banaslys af völdum útafaksturs og það væri alltof dýrt og ylli auk þess erfiðleikum við snjómokstur.

Svo vildi til að ég þekkti nokkuð vel til á leiðinni eftir þúsundir ferða um hana í 40 ár og hundruð flugferða.

Ég tók mig því til og fór í einn stuttan og ódýran flugtúr á TF-GIN og myndaði þá kafla, þar sem þyrfti vegrið og sýndi í sjónvarpsfrétt.

Þessir kaflar  reyndust vera 1,3 kílómetrar samtals en ekki tugir kílómetra. Því miður var ekki farið í það að setja þessi tiltölulega ódýru vegrið upp fyrr en hjón höfðu farist nálægt Brynjudal á aðeins 200 metra kafla þar sem vegrið hefðu bjargað lífi þeirra.

Í staðinn hafði bíllinn farið útaf, fram af sjávarhömrum og lent af miklu afli í sjónum.

Ég kom að slysstaðnum þegar líkin voru hífð öskublágrá og köld upp úr sjónum og það var nöturlegt að upplifa það.

Á núvirði er beint og ískalt fjárhagslegt tjón af banaslysi um 300 milljónir á mann, en þetta stutta vegrið hefði kostað aðeins nokkrar milljónir.

Á sínum tíma lá "gat" í gegnum eyju á Laugavegi gegnt stóru fyrirtæki og átti þetta gat að auðvelda akstur inn til fyrirtækisins þegar ekið var úr austurátt, vegna þess að annars þurftu bílar, sem komu úr þeirri átt, að aka um 100 metrum lengra og taka u-beygju á gatnamótum.

Árum saman var reynt að fá borgaryfirvöld til að loka þessu gati, þar sem árekstrar urðu og augljóst hættuástand ríkti, en það var ekki fyrr en banaslys varð þar sem því var loksins lokað.

Skortur á vegriði kostaði þrjú mannslíf í einu slysi fyrir nokkrum árum á Hafnarfjarðarvegi.

Fyrir 15 árum gerði ég, eftir ferðir um Bandaríkin og Norðurlönd, sjónvarpsfréttir um leiðbeinandi hraðamerkingar á vegum og grófar rákir við miðlínur og útlínur vega, sem vektu bílstjóra, sem dottuðu við stýrið svo að bíllinn færi að rása til.

Fyrra atriðinu var í fyrstu andmælt á þeim forsendum að það hvetti ökumenn til hraðaksturs að fá leiðbeiningar um það hvað lúmsk beygja framundan væri kröpp!  Betra væri að ökumenn væru því viðbúnir í hvert sinn sem þeir kæmu að illsjáanlegri beygju og færu löturhægt í gegnum þær allar.

Og síðan líka þetta gamla að "séríslenskar aðstæður" væru þannig að þessi erlendu fyrirbæri ættu ekki við á Íslandi.  

Ég sýndi þá sem dæmi beygjumerkingar án hraðatalna á veginum, sem þá lá um innanverðan Steingrímsfjörð. Þegar komið var frá Ísafirði fór maður á þeim tíma í gegnum nokkrar beygjur, þar sem örvar sýndu komandi beygju að vísu, en allar örvarnar voru eins og engin leið að sjá á þeim hve krappar beygjurnar væru.

Ég vissi að margir ökumenn höfðu lent í vandræðum þarna vegna þess að þegar þeir voru búnir að aka í gegnum nokkrar beygjur, sem í ljós kom að voru mjög aflíðandi og betri en búist var við, kom allt í einu ein miklu krappari beygja, og þar fóru margir flatt, - orðnir góðu vanir úr fyrri beygjunum.

Leiðbeinandi hraðamerki hefðu breytt þessu.

Eftir margra ára töf var síðan farið að setja þessi hraðamerki á vegi og hafa reynst vel, þótt sumir taki þau full bókstaflega við bestu aðstæður.

Enda er hugsunin á bak við þau sú, að það sé með samanburði á milli þeirra sem fólk geti nokkurn veginn áttað sig á því hve kröpp beygja er framundan, miðað við hinar.

Ég gæti látið staðsetningar staura og vegmerkja fylgja með en læt þetta nægja.


mbl.is Vegirnir verndi mistæka ökumenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Góður pistill. Margir staðir hafa vissulega verið lagaðir en þá kemur annað til sem þarf að huga að. „Cruse Control“ getur verið stórhættulegt í beygum og þær þurfa ekki að vera merkilegar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.4.2013 kl. 00:14

2 identicon

Verst hefur mér alltaf fundist árátta vegagerðarinnar og skipulagsaðila að gera vegi og götur að umferðarhindrunum - t.d. þjóðvegur eitt um Öxnadal liðast um eins og ormur sem gerir að ökumenn eru að taka töluverðan fjölda af algjörlega óþörfum beygjum plús að það lengir veginn töluvert að leggja hann í sikk-sakki.

Gulli (IP-tala skráð) 10.4.2013 kl. 07:48

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Um þetta gilda fleiri sjónarmið, Gulli. Röksemdafærslan fyrir því að hafa vegi ekki þráðbeina kílómetrum saman er sú, að það skapi tilbreytingarleysi við aksturinn sem auki hættuna á því að ökumenn dotti. Þetta sjónarmið hefur verið stutt með dæmum um vegakafla, þar sem slys af þessum völdum hafa reynst hærri en þar sem aflíðandi og langar beygjur eru á veginum. Alvarleg slys hafa til dæmis orðið á kaflanum langa og beina í Melasveit af þessum sökum, þeirra á meðal dauðaslys.

Ómar Ragnarsson, 10.4.2013 kl. 08:30

4 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Þetta er sannarlega þörf umræða og rétt ábending að Vegagerðin hefur verið haldin illskiljanlegri fóbíu gegn vegriðum. Annað atriði þarf líka að taka til umræðu: Lýsing með vegum og ljósastaura.

Hvað segir t.d. tölfræðin um ljósastaurana við Reykjanesbrautina? Þeir voru upphaflega kynntir til sögunnar sem öryggisstaurar, þ.e. sköpuðu aukið öryggi með lýsingu og ef ekið yrði á þá, myndu þeir hrökkva í sundur. Miklar efasemdir eru um gagnsemi lýsingarinnar og alveg öruggt að þeir hrökkva ekki í sundur þegar ekið er á þá, eins og hundruð tilvika eru til sanninda um. Þetta eru alræmdir slysavaldar.

Þórhallur Birgir Jósepsson, 10.4.2013 kl. 08:39

5 identicon

Já Ómar, ég heyrði það viðmið, ég held nú samt að þjóðvegir í fullri breidd og bólur eða riflun meðfram kantinum væru nú mun gáfulegri leið til að leysa það.

Gulli (IP-tala skráð) 10.4.2013 kl. 21:25

6 identicon

Góður pistill hjá þér, Ómar.

Eins og danir segja; "der skal lig paa bordet" sem útleggst "það þarf lík til" svo að eitthvað verði gert í málunum.

Borgari (IP-tala skráð) 11.4.2013 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband