14.4.2013 | 23:06
Höfnin of frek? 83% þjóðarinnar líka of frek?
Sú var tíðin að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík skynjuðu og skildu þann uppruna og hlutverk borgarinnar að vaxa og dafna á forsendum þess að vera helsta miðstöð samgangna og þjóðustu sem höfuðborg og stóðu vörð um þetta hlutverk.
Þeir sáu að forsenda tilvistar borgarinnar frá upphafi hafði verið hve vel hún lægi á krossgötum samgangna, sem þá voru við gömlu Reykjavíkurhöfn þar sem sjóleiðin frá útlöndum og ofan af Akranesi og Borgarnesi mætti landleiðinni austur fyrir fjall og suður með sjó.
Nú hafa stærstu krossgötur landsins hins vegar færst austur að Elliðaám, en þetta virðast borgarfulltrúar Sjalla alls ekki skilja, haldur tönnlast á að miðja borgarinnar sé enn í Kvosinni og hafa nú tekið að sér forystu andstöðunnar við flugvöllinn ef marka má útspil þeirra varðandi flugvöllinn, sem þeir segja vera og "frekan" til rýmis.
Flugvallarsvæðið er um 7% af svæðinu vestan Elliðaáa eða álíka stórt svæði og Reykjavíkurhöfn tekur.
Nú má búast við að næsta skref hjá Sjallafulltrúunum verði að leggja höfnina niður af því að hún sé "of frek í umhverfi sínu" og að betra sé að reisa íbúðabyggð þar í staðinn.
Miklabrautin ein er hálfdrættingur á við flugvöllinn í "frekju" og verður kannski þar næsta verkefni að leggja hana niður.
Síðan vill svo til að 83% tóku afstöðu með flugvellinum í síðustu skoðanakönnun um hann og greinilegt að Sjallafulltrúarnir telja það fólk "of frekt í umhverfi sínu."
Æ, hvaða vesen er það að allt þetta fólk skuli hafa svona óæskilega skoðun og vera svona frekt.
Flugvöllurinn of frekur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú er ég ekki að skilja enda röksemdafærslan ansi gloppótt. Eins og ég skil þessa afstöðu Gísla Marteins, þá er hann að vekja athygli á að öryggissvæði við flugvöllinn eru ekki virt. Enda myndu þau kalla á meira landsvæði undir flugvallarsvæðið. Varla ertu á móti sem mestu öryggi Ómar? Og ef það þarf að stækka svæðið upp í miðja Öskjuhlíð með skógarhöggi þá er mál að finna þessum velli annan stað í borgarlandinu. Bessastaðanes er besti kosturinn
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.4.2013 kl. 23:28
Borgum og ríkjum er stjórnað samkvæmt kosningum en ekki skoðanakönnunum.
Og nú er verið að þétta byggðina vestan Kringlumýrarbrautar með því að skipuleggja til dæmis byggð við Gömlu höfnina í Reykjavík.
Verðmætasta byggingarlandið í Reykjavík, 135 hektarar innan girðingar flugvallarins á Vatnsmýrarsvæðinu, töldu Samtök um betri byggð árið 2001 að væri að minnsta kosti fjörutíu milljarða króna virði, eða 80 milljarðar króna á núvirði.
Kostnaður við flugvöll á Hólmsheiði var áætlaður árið 2006 um tíu milljarðar króna, eða 15 milljarðar króna á núvirði.
Og þennan kostnað fengi ríkið greiddan að fullu og miklu meira til með sölu til Reykjavíkurborgar á því landi sem ríkið á nú á Vatnsmýrarsvæðinu.
16.2.2012:
Reykjavíkurborg á, ásamt einkaaðilum, 87 hektara af 150 á Vatnsmýrarsvæðinu (58%), að sögn Gísla Marteins Baldurssonar.
Ríkið gæti því fengið um 37 milljarða króna með sölu á 63 hekturum (42%) á flugvallarsvæðinu til Reykjavíkurborgar, eða 22 milljörðum króna meira en flugvöllur á Hólmsheiði myndi kosta, samkvæmt ofangreindum tölum.
Reykjavíkurborg og einkaaðilar eiga meirihlutann af Vatnsmýrarsvæðinu - Kort
Flugvöllur á Hólmsheiði yrði í einungis 15 kílómetra fjarlægð frá Lækjartorgi og áætlaður ferðatími þangað frá flugvellinum er 15 mínútur, samkvæmt skýrslu frá september 2006 um framtíðarflugvallarstæði í Reykjavík.
Lóðir á Vatnsmýrarsvæðinu yrðu mun dýrari en á Hólmsheiði en það skilur Ómar Ragnarsson engan veginn.
16.6.2012:
"Sérbýli sem kostar 40 milljónir í Hvarfahverfi [í Kópavogi] myndi kosta 65,6 milljónir [64% meira] ef það væri í Þingholtunum.
Íbúð í fjölbýli sem í Hvörfum væri metin á 19,8 milljónir kostaði 29,4 milljónir í Þingholtunum, sem er dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu."
Þingholtin eru dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 00:46
Í fréttum Stöðvar 2 um daginn var greint frá þeirri hugmynd minni að breyta flugvellinum, en aðalatriðið í henni var að lengja flugbrautina til vesturs um autt svæði út í Skerjafjörð, gera hana að aðalbraut vallarins og setja Suðurgötuna í stokk undir brautina.
Þar með myndi vandamálið með Öskjuhlíðartrén hverfa.
Ég er búinn að fara vettvangsferð um þennan skóg. Hann er 900 metra langur og um er að ræða aðeins lítinn hluta hans, nógu breiða ræmu til þess að flugvél sleppi þar í gegn við verstu aðstæður.
Jafnvel þótt skógurinn yrði ekki snertur er alls ekki um að ræða um það að brautin verði ónothæf, þótt trén séu þarna ósnert, heldur mun ítrasta notagildi brautarinnar minnka við flugtak til austurs, þ. e. stærstu flugvélarnar fullhlaðnar ekki komast með fullu öryggi yfir Hlíðarfótinn og því nauðsynlegt að hafa þær léttari. (Miðað er við það að annar hreyfillinn af tveimur bili á versta stað í flugtakinu).
Það er rétt hjá Gísla að báðir flugturnarnir, sá eldri og sá yngri, eru aðeins of háir og of nálægt N-S-brautinni til að standast ítrustu kröfur í blindaðflugi á þá braut. Gamli flugturninn þrengir að akstursbraut við hann, en umferð stórra flugvéla um hana er svo lítil að það skiptir ekki máli.
Þetta mál, sem Gísli Marteinn blæs upp, kemur "plássfrekju" flugvallarins ekkert við heldur um að ræða "innanhússvandamál" á flugvallarsvæðinu sjálfu, sem hægt væri að leysa með því að lækka nýrri flugturninn um eina hæð og færa þann gamla til um 30 metra.
Hér er að mínum dómi gert allt of mikið úr því hve mikils virði það sé að snerta ekki við mjög litlum hluta skógar, sem þar að auki er hægt að stækka til beggja handa ef menn telja há tré á 1-2 hekturum vera svo mikils virði að leggja eigi flugvöllinn niður.
Ég bendi á, að út frá sjónarmiðum náttúruverndar er það mjög umdeilanlegt að gróðursetja þarna erlend barrtré í stað birkiskógarins, sem þarna var vafalaust þegar Ingólfur Arnarson nam land.
Þegar Sundahöfn var gerð var eyðilagt afar fallegt svæði, svonefndir Vatnagarðar, sem margir fyrri tíma málara máluðu myndir af án þess að nokkur risi þessum fallega stað til varnar.
Og í stað þess að hafa röð húsa við Kleppsveg gisna og húsin hærri, var útsýnið af götunni yfir Sundin og Kollafjörð kyrfilega eyðilagt með því að byggja samfellda húsaröð sem eyðilagði þetta fallega útsýni alveg.
Þegar ég spurðist fyrir um þetta var svarið að koma þyrfti í veg fyrir að bílstjórar færu að góna út yfir Sundin. Fráleit rök, því að þetta útsýni væri fyrst og fremst dýrmætt fyrir ferðafólk í rútum þar sem er aðeins einn bílstjóri en 50-70 farþegar.
Með sömu rökum yrði nauðsynlegt að byrgja fyrir útsýni frá öllum fallegustu ferðaleiðum landsins svo að menn færu ekki að góna á Snæfellsjökul, Heklu, Eyjafjallajökul og fleiri fjöll á fjölförnustu þjóðvegum landsins.
Ómar Ragnarsson, 15.4.2013 kl. 01:11
"Kauptilboð vegna lóða sunnan Sléttuvegar í Fossvogi voru í gær [sex mánuðum eftir gjaldþrot íslensku bankanna] opnuð eftir að tilboðsfrestur rann út að viðstöddum áhugasömum bjóðendum.
Samtals bárust 1.609 tilboð frá 167 bjóðendum.
Hæsta tilboð í byggingarétt á lóð fyrir fjölbýlishús með 28 íbúðum var 369,6 milljónir króna [um 445 milljónir króna á núvirði].
Hæsta tilboð í byggingarétt tvíbýlishúss var 42,3 milljónir króna [um 51 milljón króna á núvirði] og hæsta tilboð í byggingarétt keðjuhúss (pr. íbúð) var 34,070 milljónir króna [um 41 milljón króna á núvirði]."
Reykjavíkurborg í maí 2009 - Hæsta tilboð í byggingarétt á lóð fyrir fjölbýlishús með 28 íbúðum í Fossvogi um 370 milljónir króna
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 01:35
Flugsvið Landhelgisgæslunnar yrði á innanlandsflugvellinum á Hólmsheiði og hægt að flytja sjúklinga þaðan með þyrlu Gæslunnar á þyrlupall Landspítalans við Hringbraut, ef á þyrfti að halda.
Það tæki um þrjár mínútur, jafn langan tíma og nú tekur að flytja sjúklinga með sjúkrabíl frá flugvellinum á Vatnsmýrarsvæðinu að Landspítalanum við Hringbraut.
Og í langflestum tilfellum eru sjúklingar fluttir með sjúkrabíl á öllu höfuðborgarsvæðinu.
Þar að auki eru sjúklingar á Suðurlandi og Vesturlandi nú þegar fluttir á Landspítalann með þyrlum.
Og í fjölmörgum tilfellum eru sjúklingar á öðrum landsvæðum einnig fluttir þangað með þyrlum, auk þeirra sem sóttir eru af hafinu allt í kringum landið í alls kyns veðrum.
Isavia hélt því fram 21. mars síðastliðinn að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 93%?!
Á árunum 2002-2004 var nýtingarhlutfall Ísafjarðarflugtvallar um 93% en Reykjavíkurflugvallar OG Vestmannaeyjaflugvallar um 98%.
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018, bls. 30
"Á Stórhöfða [í Vestmannaeyjum] hefur frá árinu 1921 verið mönnuð veðurathugunarstöð, sem er fræg fyrir að hafa mælt einn mesta vindhraða sem mælst hefur á norðurhveli jarðar."
Og harla ólíklegt er að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði og Ísafjarðarflugvallar yrði það sama.
Esja er í um tíu kílómetra fjarlægð frá bæði Hólmsheiði og Vatnsmýri.
Og toppur Úlfarsfells er einungis 295 metrum yfir sjávarmáli.
Þrívíddarmynd af Úlfarsfelli
Ísafjarðarflugvöllur er á landfyllingu úti í sjó við rætur brattrar fjallshlíðar og fjallið Kubbur (Kubbi) er nokkur hundruð metrum frá suðurenda flugbrautarinnar.
"Skutulsfjörðurinn er girtur bröttum fjöllum, sem eru nærri sjö hundruð metrar að hæð."
11.1.2008:
"Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær áskorun til samgönguyfirvalda um að leggja til fjármuni svo hægt verði að gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru til að Ísafjarðarflugvöllur geti á ný þjónað millilandaflugi."
"Nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar er um 98% og takmarkast flug frá honum einkum vegna hliðarvinds og skýjahæðar."
"Ef aðeins verður eftir ein flugbraut 2016 er öruggt að nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar snarminnkar og verður um 91%, eins og gert er grein fyrir í skýrslu samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins í janúar 2001.
Í skýrslu samráðsnefndar um úttekt á Reykjavíkurflugvelli, yfirliti um stöðu verkefnisins í maí 2006, er nýtingarhlutfallið fyrir eina braut talið vera innan við 80%."
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018, bls. 31
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 02:54
Á Vatnsmýrarsvæðinu er flugvélaeldsneyti geymt í tönkum og fjöldinn allur af flugvélum tekur þar eldsneyti.
Og væntanlega er meiri slysa- og mengunarhætta af flugvallarstarfsemi en íbúðabyggð.
Staðsetning eldsneytistanka á Reykjavíkurflugvelli, sjá bls. 91
11.3.1986:
"Segja má að kraftaverk hafi átt sér stað í gær, þegar Fokkervél með 41 farþega missti afl á öðrum hreyfli og hætt var við flugtak.
Flugvélin fór fram af flugbrautinni út á Suðurgötuna, sem liggur við vesturenda brautarinnar, og stöðvaðist á miðri götunni."
Fokkervél fór út á miðja Suðurgötuna
3.8.1988:
"Þrír menn fórust er kanadísk tveggja hreyfla ferjuflugvél fórst skömmu fyrir lendingu á Reykjavíkurflugvelli skömmu fyrir klukkan 17 í gær.
Flugvélin stakkst á nefið á milli brautarenda og Hringbrautar og sprakk strax í loft upp."
Flugvél stakkst á nefið og sprakk í loft upp steinsnar frá Hringbrautinni
16.10.1990:
"Ekkert hefur enn komið fram við rannsókn á flaki flugvélarinnar sem hrapaði í Skerjafjörð síðastliðinn laugardag.
Flugmaðurinn lést í slysinu. Hann var reyndur flugmaður, með 400 flugstundir að baki."
Flugvél hrapaði í Skerjafjörð
23.4.1997:
"Mikil mildi þykir að enginn skyldi slasast þegar tveggja hreyfla flugvél brotlenti við Reykjavíkurflugvöll í gær, rétt við Suðurgötu.
Bílar höfðu örskömmu áður ekið um götuna."
Brotlenti við Suðurgötuna
9.8.2000:
"Eins hreyfils flugvél af gerðinni Cessna hrapaði í Skerjafjörð, rétt vestan við Nauthólsvík, á mánudagskvöld."
Flugvél hrapaði í sjóinn rétt vestan við Nauthólsvík
Austur-vesturbraut yrði aðalbrautin á Hólmsheiði og blindaðflug mögulegt úr báðum áttum.
Hljóðspor næði hvergi inn yfir þétta byggð og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) komust að þeirri niðurstöðu í nýlegri skýrslu að afrennsli frá Hólmsheiði ógni ekki brunnsvæðum eða nágrenni vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins.
Og í nýrri skýrslu Veðurstofu Íslands, sem byggð er á veðurfarsmælingum á sex og hálfs árs tímabili, segir að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 97%.
Og nýtingarhlutfall flugvallarins í Vatnsmýri er heldur ekki 100%.
Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar, sjá mynd á bls. 47
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 09:45
Maður veit nú bara varla hvar á að byrja, en læt hér nokkuð gossa:
"Á Vatnsmýrarsvæðinu er flugvélaeldsneyti geymt í tönkum og fjöldinn allur af flugvélum tekur þar eldsneyti."
Ég veit ekki betur en að eldsneyti sé yfirleitt geymt í tönkum, t.d. á bensínstöðvum út um allar koppa grundir. Ekki veit ég heldur betur en að allt eftirlit sem tengist flugvélum sé strangara en annað. Og sé verið að vísa til slysahættu má nefna að blossamarkið á 95 oktana bensíni er lægra en á bæði kerosen og avgasi. Sé hins vegar verið að vísa til jarðvegsmengunar mögulegrar, þá væri gaman að heyra önnur dæmi en um þá velþekktu mengun sem fylgir í kring um dælutanka bensínstöðva.
"Og væntanlega er meiri slysa- og mengunarhætta af flugvallarstarfsemi en íbúðabyggð"
Skýring? Íbúðarbyggð felur í sér umferð, og það er ekki flugumferðin sem kemur loftmengun í Reykjavík yfir heilbrigðismörk.
"Flugmaðurinn lést í slysinu. Hann var reyndur flugmaður, með 400 flugstundir að baki"
400 tímar er svona...svolítið. Ekki grænjaxl. Ætli Ómar kallinn sé ekki nær svona 8.000, flest í stuttum sprettum. Einkaflugmannspróf er a.m.k. 60. En...allir geta krassað, lent í bílslysi, og skip sökkva enn.
"Flugsvið Landhelgisgæslunnar yrði á innanlandsflugvellinum á Hólmsheiði og hægt að flytja sjúklinga þaðan með þyrlu Gæslunnar á þyrlupall Landspítalans við Hringbraut, ef á þyrfti að halda."
Jáájáa....og svo ódýrt og áreiðanlegt. Alveg eins og þegar fæðingardeildin í Vestmannaeyjum var lögð niður til sparnaðar. Þyrlan var enga stund að spæna það upp.
Veruleikaskyn?
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 10:16
Menn láta alltaf eins og að bensín muni hverfa og flug yfir byggð muni hverfa ef flugvöllurinn verður fluttur upp á Hólmsheiði. Aðalaðflugið þar verður yfir Vogahverfið og Ártúnshverfið og rétt framhjá Grafarholtshverfinu, sem verður í næsta nágrenni flugvallarins.
Aðflugið að þeirri flugbraut Reykjavíkurflugvallar, sem vindur stendur langoftast á, liggur yfir sjó í aðra áttina og yfir autt svæði í Fossvogsdal á hina, og með því að lengja þá flugbraut svo að hún verði jafnlöng eða lengri en norður-suður-brautin hverfur flug á n-s-brautina að mestu.
Ómar Ragnarsson, 15.4.2013 kl. 11:55
Á Vatnsmýrarsvæðinu hefur flugvélaeldsneyti verið geymt í tönkum nálægt byggðinni.
Staðsetning eldsneytistanka á Reykjavíkurflugvelli, sjá bls. 91
Við nýjan flugvöll á Hólmsheiði yrði að sjálfsögðu gengið frá eldneytistönkum fyrir flugvélar eins vel og hægt er og eldsneytistankarnir hafðir eins langt frá íbúðabyggð og mögulegt er.
Ný bensínstöð við Hringbraut, skammt frá Tjörninni, var opnuð í ársbyrjun 2007 og þá kom fram að "vegna nálægðar við viðkvæm svæði lúti frágangur stöðvarinnar ströngustu umhverfisskilyrðum um slíkan rekstur á landinu til þessa."
Að sjálfsögðu er það hið versta mál þegar litlar flugvélar hrapa í sjóinn nálægt byggðinni í Reykjavík en enn verra væri það ef þær hrapa niður í íbúðabyggð, hvað þá þétta íbúðabyggð.
En í kringum flugvöllinn á Vatnsmýrarsvæðinu flýgur fjöldinn allur af einkaflugvélum og litlar flugvélar hafa hrapað mjög nálægt flugvellinum, eins og ofangreind dæmi sanna.
"Á Hólmsheiði er nægt rými fyrir alhliða innanlandsflugvöll, kennsluflug, einkaflug og flugsvið Landhelgisgæslunnar."
Hagsmunaaðilar, til að mynda Ómar Ragnarsson, ráða því ekki hvort Reykjavíkurflugvöllur verður færður, heldur viðkomandi stjórnvöld, rétt eins og sjómenn ráða því ekki sjálfir hversu mikill heildaraflakvótinn er á hverju fiskveiðiári.
Og í mörgum tilfellum hafa þeir allt aðra skoðun á því en viðkomandi stjórnvöld.
Þar að auki hafa Reykvíkingar nú þegar gengið til kosninga varðandi það hvort Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera áfram á Vatnsmýrarsvæðinu.
Og kosningar um sama mál eru ekki endurteknar þar til "rétt" niðurstaða fæst í þeim fyrir Ómar Ragnarsson eða einhvern annan.
Auk þess var aðalskipulag Reykjavíkur fyrir 2001-2024 samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur 18. apríl 2002, afgreitt af Skipulagsstofnun til staðfestingar umhverfisráðherra 19. desember 2002 og staðfest af umhverfisráðherra 20. desember 2002.
Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024
Og ef einhverjir halda að kaldara sé og meiri snjór á Hólmsheiði á veturna en á fjöldanum öllum af flugvöllum í Norður-Evrópu og Norður-Ameríku hafa þeir augljóslega ekki rétt fyrir sér.
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 12:37
"Hagsmunaaðilar, til að mynda Ómar Ragnarsson, ráða því ekki hvort Reykjavíkurflugvöllur verður færður, heldur viðkomandi stjórnvöld, rétt eins og sjómenn ráða því ekki sjálfir hversu mikill heildaraflakvótinn er á hverju fiskveiðiári."
Hvaða helv. píp er þetta? Lestu upphaf greinarinnar Mr. Briem.
"Síðan vill svo til að 83% tóku afstöðu með flugvellinum í síðustu skoðanakönnun um hann"
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 17:40
11.7.2012:
"Reykjavíkurborg fer með skipulagsvald á flugvallarsvæðinu og það verður innanríkisráðherra að virða eins og aðrir."
Þetta segir formaður borgarráðs sem telur að áætlanir um íbúðabyggð í Vatnsmýrinni standist og flugvöllurinn verði farinn þaðan árið 2024."
Segir innanríkisráðherra þurfa að virða skipulagsvald Reykjavíkur
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 17:49
78. gr. Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.
Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir."
Stjórnarskrá Íslands
Þorsteinn Briem, 15.4.2013 kl. 17:54
Um 1000 manns nota innanlandsflugið á dag að meðaltali. Þar af koma 70% eða 700 af landsbyggðinni og þá eru bæði komu- og brottfararfarþegar taldir.
Samkvæmt heimildum eiga 57% þessara farþega erindi vestan Reykjanesbrautar eða m.ö.o. á staði þar sem það gæti mögulega skipt máli hvar flugvöllurinn er nákvæmlega staðsettur. Ef við reiknum út þennan fjölda þá eru þetta tæplega 400 manns á dag, og ég endurtek, þegar bæði komu- og brottfarafarþegar eru taldir.
Ef við teljum bara þá sem eiga erindi vestan Kringlumýrarbrautar, sem verður að teljast eðlilegra, þá erum við að tala um 182 manns! Sem sagt í mesta lagi um 90 manns, að meðaltali, leggur af stað á dag með innanlandsfluginu með það fyrir augum að sinna erindum sínum í miðborginn "þar sem allar helstu stjórnsýslu- og þjónustustofnanir landsins eru" eins og menn endurtaka sí og æ.
Vegna þessa fámenna hóps á að stöðva eðlilega þróun byggðar í Reykjavík og gera höfuðborgina minna skilvirka til mikils tjóns fyrir alla, líka þá sem koma frá landsbyggðinni og eru miklu fleiri en bara þeir sem nota innanlandsflugið! Er þetta nú ekki ansi langt gengið í að fórna hagsmunum margra fyrir hagsmuni fárra? Hvar eru þingmenn reykvíkinga eiginlega að hugsa þegar kjördæmapotarar landsbyggðarinnar fara á kreik og vilja öllu ráða um þessi mál?
Allar tölur í þessum útreikningum eru teknar úr KPMG skýrslunni sem nokkur sveitarfélög lét gera fyrir stuttu.
Fyrir áhugasama sjá http://www.facebook.com/SamtokUmBetriByggdBb?fref=ts
Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 18:52
Haltu bara áfram, Anna, að reikna þig niður í lægri og lægri tölur varðandi flugvöllinn.
90 manns á dag komast fyrir í tveimur Fokker F50 flugvélum, önnur fyrir hádegi og hin eftir hádegi.
Nú skal ég gefa þér reikningsdæmi þar sem þú gætir brillerað með sömu bullkúnstunum:
83% vildu í síðustu skoðanakönnun hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er. Það samsvarar um 160 þúsund manns, sem voru að þínum dómi að þjóna 90 manns á dag!
Reiknaðu nú þessa 160 þúsund líka niður í 90. Þú ferð létt með það, eða er það ekki?
Ómar Ragnarsson, 15.4.2013 kl. 19:46
Ómar, ég hélt að þú værir málsvari málefnalegrar umræðu sem byggist á rökum en ekki tilvitnun í skoðanakönnun sem gerð var af fjölmiðlum í einkaeign. En ef við höldum okkur við efni færslunnar þá spyr ég: Trúir þú þessum niðurstöðum hjá mér hér að ofan? Svo í framhaldi af því: Ef svarið er nei, hvað er þá rangt við tölurnar, ef svarið er já, af hverju er staðsetning innanlandsflugsins þá svona mikilvægt?
Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 21:13
Sæll Ómar.
Ég er einn af þeim sem vill fá innanlandsflugið til Keflavíkur. Ég tel það einfaldlega ekki sniðugt að hafa flugvöll í miðbæ Reykjavíkur af augljósum öryggisástæðum. Ætli það þurfi vél að fara niður á Lækjatorgi áður en flugvöllurinn yrði færður? Mér finnst einfaldlega svona starfsemi eins og flugvöllurinn er eigi heima í jaðri byggðar.
Við Íslendingar virðumst ekki alveg vera nógu sniðugir í skipulagi og það eru mörg dæmi um slíkt. T.d. má spyrja sig hvort það sé í alvöru sniðugt að hafa bensínstöð við annan brautarendann. Finnst það frekar skrítið.
Ég myndi vilja fá flugvöllinn til Keflavíkur og bæta samgöngur á milli Kef og Umferðarmiðstöðvarinnar.
Ef maður ætlar að taka öryggisumræðinum, þá finnst mér líka algjört grundvallaratriði að fara með olíubyrgðarstöðina út fyrir bæinn. Ef slys yrði þar, væri stór hluti Vesturbæjar, Miðbærinn og Seltjarnarnes í mikilli hættu vegna mengunnar og slíkt. Svo ekki sé minnst á umferð olíuflutningabílanna gegnum miðbæinn.
Gaupi (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 23:15
Reykjavík er þar sem hún er af því að hún er "það" sem hún er. Gleymið ekki því.
Það er hægt að gera flottasta flugvöll landsins á Rangárvöllum, og færa þjónustumiðjuna þangað. Ef vill.
Og Gaupi, - öruggast væri að færa allar bensínstöðvar höfuðborgarsvæðisins vel út fyrir alla íbúðarbyggð, t.a.m. upp á Hólmsheiði, enda allir örugglega að átta sig á því að blikkbeljur landsmanna bæði súpa og hafa um sig í næstu grennd margfalt það magn af eldfimu & mengandi eldsneyti sem allt flug landsmanna (þ.m.t. millilandaflug) hefur til brúks.
Sjálfur hef ég þurft að taka flug til keflavíkur frá Akureyri (veðurskilyrði), - lengingin á ferðatíma til Reykjavíkur var upp á ca 90 mínútur. meira en tvöföldun. Það var þrátt fyrir það að flogið var á 737 frá Akureyri, og ekki voru hnökrar átengingu við rútu. En sem betur fer þurfti ég ekki að mæta á bráðamóttöku eða bankafund.
Og Anna, - farðu bara á textavarpið og reyndu að finna út að það er líka millilandaflug í gegn um Reykjavíkurflugvöll auk fjölda áfangastaða um landið, reyndu svo að finna út að flest sjúkraflug eru EKKI með þyrlu, kannski kemst þú að því í grúskinu að það er flugnám í gangi þarna, e.t.v. hnýtur þú um það að þarna er í gangi einkaflug, en minna um einkaþotur. Good luck.
Jón Logi (IP-tala skráð) 16.4.2013 kl. 11:34
Jón Logi, hvað ertu að bulla?? Fær allar bensínstöðvar hvað....Hver er að tala um það.
Þú hlýtur að sjá mun á bensínstöð og olíubyrgðarstöð með allri traffík og hugsanlegri mengunarhættu sem hlýst af því? Ekki bulla svona. Þetta er eins og að segja að ég sé á móti bensínstöðvum eða bensíni eða eitthvað rugl. Auðvitað er fáránlegt að hafa svona starfsemi í miðbæ Rvk. Meira að segja þú hlýtur að sjá það.
Ef flugið yrði flutt til Keflavíkur yrði að sjálfsögðu byggð innanlandsterminal og samgöngur bættar svo það tæki einmitt ekki 90 mínútum lengur að komast í bæinn.
Varðandi bráðamóttöku, þá eru þeir sem eru í bráðri lífshættu, eftir bílslys eða eitthvað slíkt, sóttir með þyrlu og lent beint fyrir utan bráðamóttökuna. Svo þeir nota ekki flugvöllinn.
Gaupi (IP-tala skráð) 16.4.2013 kl. 21:35
"Og Anna, - farðu bara á textavarpið og reyndu að finna út að það er líka millilandaflug í gegn um Reykjavíkurflugvöll auk fjölda áfangastaða um landið, "
Millilandaflugið til Færeyja og Grænlands getur bara farið til Keflavikur eins og annað millilandaflug. Auk þess las ég um daginn að Færeyjingar væru að hugsa um að flytja sitt flug til keflavíkur til að tengjast betur öðru millilandaflugi. Þeir móðguðust víst líka af því að þeir fengu ekki að lenda þotum þarna eins og ISAVIA hafði víst lofað þeim.
"reyndu svo að finna út að flest sjúkraflug eru EKKI með þyrlu, " Hef ég haldið því fram einhvers staðar?
"kannski kemst þú að því í grúskinu að það er flugnám í gangi þarna, e.t.v. hnýtur þú um það að þarna er í gangi einkaflug, en minna um einkaþotur. " Kennslu- og einkaflug á ekkert heima þarna enda á það að vera farið fyrir löngu skv. samningum. Annars hef ég mjög gott yfirlit ufir það sem gerist á þessum velli. Menn virðast nú fara ansi frjálslega með öryggisreglur í sambandi við einka- og kennsluflugið á þarna.
Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 16.4.2013 kl. 21:40
Gaupi, - ég var einfaldlega að benda á það, að það eru bensíntankar með miklu magni eldsneytis út um allt. Það virðist bara ekki mega að hluti þess sé á flugvélar.
Ómar og fleir fljúga reyndar að hluta á bílabensíni.
Og Anna:
" Menn virðast nú fara ansi frjálslega með öryggisreglur í sambandi við einka- og kennsluflugið á þarna"
Virðast og virðast. Þetta er náttúrulega aðdróttun og umdeilanleg, og mér virðist þetta bara ekki vera svona!!!
Hef svo ekkert heyrt um að kennslu og einkaflug sé bannað þarna, það kemur á óvart. Kannski væri bara alfarið best að hætta að stunda flug yfirleitt.
By the way, - sjúkraflug á landinu skipta hundruðm árlega. Ekki farin að nauðsynjalausu, og þetta eru altso sjúkraflug á flugvélum.
Jón Logi (IP-tala skráð) 18.4.2013 kl. 17:22
Jón, þú getur fundið bókun vegna Reykjavíkurflugvallar á slóðinni hér að neðana
https://drive.google.com/?tab=wo&authuser=0#folders/0ByopfbA5u99mTUtoa1RYRHhtUTQ
Varðandi öryggið þá viðurkenni ég að ég þekki ekki reglurnar nákvæmlega. Hins vegar sé ég flugvélar vippa sér yfir HR bygginguna strax eftir flutak og ég efast um að það megi samkvæmt regum. Samkvæmt bókunini sem nefnd er hér að ofan átti einmitt að setja upp myndavéar til að tryggja að öryggis sé gætt. Það var hins vegar aldrei gert eftir því sem égbest veit. Ef þú veist betur, máttu gjarnan leiðrétta það og upplýsa hvar þær eru staðsettar.
Anna Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 22.4.2013 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.