Friðsæld í Fossvogsdal - Kjarval í kyrrðinni!

Nú eru nokkrir áratugir síðan til stóð að gera hraðbraut eftir endilöngum Fossvogsdal og eftir strönd Fossvogs um Hlíðarfót niður í Vatnsmýri.

Rökin voru alveg þau sömu og nú eru notuð um nýja hraðbraut um Gálgahraun út á Álftanes, að tryggja hraða og vaxandi umferð í gegnum Reykjavík. 

Gegn þessu reis fólk sem taldi æskilegra að rjúfa ekki friðsæld Fossvogsdals og sunnanverðrar Öskjuhlíðar og einnig nauðsynlegt að varðveita einstæðar jarðminjar, svonefnd Fossvogslög, sem eru á strönd Fossvogs. 

Þetta var sem sé; " Friðsæld í Fossvogsdal"  - gegn  - "hávaði á hundrað". 

Í dag myndi engum detta í hug að orða það að fara út í þessa framkvæmd nú þótt forsvarsmönnum hennar fyndist ekkert athugavert við hana á sínum tíma. 

Í Gálgahrauni snýst málið um "Kjarval í kyrrðinni" - gegn - "allir á áttatíu.

Því fólki fjölgar hratt sem hefur uppgötvað töfra svæðisins fyrir holla og gefandi útivist í einstaklega fallegu hrauni, þar sem bæði er að finna slóðir Kjarvals og hraunmyndanirnar sem hann málaði í kyrrðinni og upplifa það sama og meistarinn, -  og einnig stíginn sem farinn var forðum út á Álftanes, stundum þrammaður af sakamönnum, samanber heitið Gálgahraun.

Jarðýtufíklarnir, sem þrá að láta skattborgarana borga fyrir þau umhverfisspjöll, sem fyrirhuguð eru, hundsa tillögur um að lagfæra veginn í núverandi vegarstæði, en það er vel hægt á miklu ódýrari hátt en að gera ótal slaufur og mislæg gatnamót, einfaldlega með því að breikka veginn og gera tvö hringtorg. 

Ástmenn ýtunnar gefa sér þær forsendur að umferðin á dag muni vaxa úr 5800 bílum upp í 20 þúsund. 

Ég rökræddi þetta mál við talsmann framkvæmda í flugstöð Flugfélags Íslands fyrir nokkrum dögum. 

Hann sagði að alltof seinlegt yrði að fara þarna í gegn á endurbættum vegi vegna minni ökuhraða. 

Þegar ég sagði að erfitt væri að sjá hve miklu munaði á 70 km harða og 50 km hraða, sagði hann að það þýddi ekkert að hafa 50 km hraða, - menn myndu ekki fara eftir því. 

Þar skaut hann sig í fótinn, nýbúinn að segja að hvað lítill ökuhraði gæti orðið þarna. 

Kyrrð er ein af auðlindum hins magnaða Gálgahrauns. Ég uppgötvaði ekki til fulls hvað hröð umferð þungra 2007 jeppa er hávær fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar ég fór norður í Langadal til þess að taka það uipp, hvernig fuglarnir þögnuðu við sólmyrkvann, sem þá kom þar. 

Það var eftirminnilegasta minning mín frá sólmyrkvanum 1954, þegar fuglasöngurinn þagnaði við það að sólin myrkvaðist. 

En ferð mín misheppnaðist hvað þetta varðaði, vegna þess að dekkjahávaðinn miklu hraðari umferðar en 1954 yfirgnæfði allan fuglasöng. 

 


mbl.is Forsendur nýs Álftanesvegar verði kannaðar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Einfaldasta leiðin til að draga úr aukinni umferð á höfuðborgarsvæðinu er að koma í veg fyrir aukna fjölgun íbúa þar,til að mynda með því að hætta að úthluta lóðum undir íbúðarhúsnæði.Íbúafjöldinn á höfuðborgarsvæðinu er þegar orðinn of mikill, miðað við íbúafjölda á landinu öllu.Höfuðborgarsvæðið mun ekki geta framfleitt sér.

Sigurgeir Jónsson, 22.4.2013 kl. 20:59

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útflutningstekjur eru ekkert síður skapaðar á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi en á landsbyggðinni.

Reykjanesskaginn, Landnám Ingólfs Arnarsonar, er einungis 1% af Íslandi og telst nú varla til landsbyggðarinnar, enda er Keflavíkurflugvöllur langstærsti millilandaflugvöllur okkar Íslendinga.

Og það væri nú harla einkennilegt ef menn héldu því fram að litlar eða engar útflutningstekjur séu skapaðar í París, höfuðborg Frakklands, mestu ferðamannaborg heimsins.

Við Íslendingar lifum sem betur fer á fleiru en útflutningi sjávarafurða, sem eru þar í þriðja sæti.

Í fyrsta sæti er útflutningur á þjónustu
og í öðru sæti útflutningur á iðnaðarvörum.

Útflutningur á sjávarafurðum var hér 28,2% af útflutningi vöru og þjónustu árið 2009 en 55,6% árið 1994, samkvæmt Landssambandi íslenskra útvegsmanna (LÍÚ):

Hlutfall sjávarafurða af útflutningi 1994-2009


Árið 2009 voru 62% af heildarfjölda hótelrúma hérlendis frá Kjalarnesi til Hafnarfjarðar en þá bjuggu þar 63% landsmanna.

Fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands er Hallgrímskirkja í Reykjavík
og aðrir vinsælir ferðamannastaðir í Landnámi Ingólfs eru til að mynda Bláa lónið og Þingvellir.

Til landsins kemur nú árlega rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna, um 1.800 manns á dag að meðaltali.

Þeir gista langflestir á höfuðborgarsvæðinu
og kaupa þar á ári hverju vörur og þjónustu fyrir marga milljarða króna, sem skilar bæði borgarsjóði og ríkissjóði miklum skatttekjum.

Þar að auki fara erlendir ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá Gömlu höfninni í Reykjavík.

Þar er langmestum botnfiskafla landað hérlendis
og jafnvel öllum heiminum, um 87 þúsund tonnum árið 2008, um tvisvar sinnum meira en í Grindavík og Vestmannaeyjum, fimm sinnum meira en á Akureyri og fjórum sinnum meira en í Hafnarfirði.

Og
bestu fiskimið okkar Íslendinga eru í Faxaflóa.

Við gömlu höfnina eru til dæmis fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækin Grandi og Fiskkaup, Lýsi og CCP sem selur útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hérlendis laun og launatengd gjöld.

Landsvirkjun
, og þar með Kárahnjúkavirkjun, er í eigu ríkisins, allra Íslendinga.

Og
meirihluti Íslendinga býr á höfuðborgarsvæðinu.

Þar að auki má nefna til dæmis Nesjavallavirkjun, sem framleiðir 120 MW af rafmagni og 300 MW varmaorku, en uppsett afl vatnsaflsstöðvanna þriggja í Soginu er samtals 90 MW.

Íslenskir bændur fá gríðarlega styrki frá íslenska ríkinu til að framleiða mjólk og lambakjöt
og þeir sem greiða hér tekjuskatt búa langflestir á höfuðborgarsvæðinu.

Auk þess eru hafnir og vegir hérlendis greiddir af skattgreiðendum.

Ekkert íslenskt lambakjöt og mjólk yrði framleidd ef engir væru neytendurnir og þeir búa langflestir á höfuðborgarsvæðinu.

Þar að auki er fjöldinn allur af útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum, verksmiðjum og öðrum útflutningsfyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu, til að mynda Marel, CCP, Hampiðjan, Grandi, Actavis, Lýsi, Ístex, Össur hf. og álverið í Straumsvík.

Þorsteinn Briem, 22.4.2013 kl. 22:07

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Og steini.br.er í Kaplaskjólinu og mælir þar götuna.

Sigurgeir Jónsson, 23.4.2013 kl. 08:21

4 identicon

Það hlýtur þá að kæta þig Sigurgeir að þessari stefnu hefur verið framfylgt í Reykjavík í mörg ár enda eru það nágrannasveitarfélögin sem "blása út".

En...í máli þínu kemur fram algengur misskilningur landsbyggðarfólks um meint mikilvægi sitt. Þá er gjarnan ruglað saman innflutningstekjum og landsframleiðslu. Staðreyndin er nefnilega sú að við lifum af landsframleiðslunni og skerfur höfuðborgarsvæðisins til landsframleiðslunnar er hlutfallslega hærri en landsbyggðarinnar. So sorry...

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 23.4.2013 kl. 08:28

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þjóð sem þarf að flytja inn daglegar neysluvörur lifir ekki á landsframleiðsluhugtakinu.Landsframleiðsluhugtakið er mælieining á allt sem gert er,þar með talið að vinna við eftirlit hjá ríkinu.So sorry.

Sigurgeir Jónsson, 23.4.2013 kl. 09:15

6 identicon

Steini. Veistu hve Nesjavallavirkjun endist lengi með þessum afköstum?. Fyrir nokkru var metið að hún yrði komin niður í 1/3 árið 2036 og ekki er slakað á. Raforkuna átti ekki að nota nema sem afgangsorku frá hitaveitumnni í upphafi.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 23.4.2013 kl. 09:45

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hef aldrei búið í Kaplaskjólinu. Hins vegar fór ég einu sinni heim með mjólkurfræðingi, menntuðum í Danmörku, og hún bjó í Kaplaskjólinu.

Þorsteinn Briem, 23.4.2013 kl. 10:25

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

þetta eru ranghugmyndir og ekkert anna,Fossvoogsbraut átti að leggja og er hægt ennþá.eeki er komið svona fram við aðra sem þurfa og verða að hlusta á umferð,er flugvélin þín Ómar hljóðlaus!!þú ert bar komin með þetta á heilan sem annað að friða allt nema sjáflfan þig,þú er verri en þeir vrrestu!!!! í þessu,þetta er ísland sem þú átt ekki nema 1:323Þus!!!!!

Haraldur Haraldsson, 23.4.2013 kl. 10:35

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Á meðal þess sem hefur þróast í krafti hitaveitunnar á síðustu árum er öflug sundlaugamenning og snjóbræðsla í götum.

Á upphafsárunum var ábatinn veigameiri í ýmsu tilliti. Þannig fór tíðni skráðra kvefpesta í Reykjavík úr 22 á hverja 100 íbúa árið 1937 niður í fjórar árið 1948.

Er það að verulegu leyti rakið til bættrar húshitunar. Fylgikvilli var þó sá að kjallarar húsa í borginni urðu svo heitir að ekki var hægt að geyma þar lengur kartöflur.

Voru kartöflugeymslurnar við Ártúnsbrekkuna þá byggðar og standa þær enn, þó þær þjóni öðrum tilgangi."

Hitaveita Reykjavíkur 80 ára - Orkuveita Reykjavíkur

Þorsteinn Briem, 23.4.2013 kl. 10:40

10 identicon

Í allri umræðu um Gálgahraunið hef ég oft sgt og skrifað, hvar er allt fólkið sem harðast barðist gegn Kárahnjúkum og allir stjórnmálamennirnir sem að þeirri baráttu komu? Eru þau öll fallin frá, duað og grafin? Allavega heyrist ekkert frá "háttvirtum" umhverfisráðherra, hún er líklega of upptekin við framboðasmál til að láta þessa hraunspyldu hafa áhrif á sig.Þetta baráttu fólk ætti að skammast til að skoða heimahaga sína og sjá hve mikilvægt Gálgahraunið er. Heiðmörk er fögur og framhald hennar er Hafnarfjarðar hraun milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar, sem Garðabær hefur hirt um og er þeim til heiðurs,svo kemur að enda hraunrennslisins til sjávar í Gálgahrauni. Þetta ættu Garðbæingar (bæjarstjórn) að sjá sér sóma í að vernda sem mest og best.

Kjartan (IP-tala skráð) 23.4.2013 kl. 10:55

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hávaði úf flugvélinni minni hefur ekki angrað höfuðborgarbúa í þau þrjú ár sem hún hefur verið á Hvolsvelli, Haraldur.

Ómar Ragnarsson, 23.4.2013 kl. 11:35

12 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Kaplaskjólið er ekki langt frá Sörlaskjólinu þar sem steini.br.býr.

Sigurgeir Jónsson, 23.4.2013 kl. 15:03

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Takk fyrir þessar upplýsingar, Sigurgeir Jónsson.

Þorsteinn Briem, 23.4.2013 kl. 15:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband