30.4.2013 | 08:44
Þátttaka græna fólksins í hátíðarhöldum 1. maí er óhjákvæmileg.
Þessa dagana eru þegar byrjaðar viðræður um stjórnarsamvinnu og innihald stjórnarsáttmála í einstökum málaflokkum. Einn þeirra málaflokka eru umhverfismál, sem nær ekkert fengust rædd í kosningabaráttunni og komandi ríkisstjórn hefur því ekki sams konar umboð frá kjósendum í þeim málum eins og þeim málum, sem voru nær eingöngu rædd alla kosningabaráttuna.
Þess vegna telja 15 umhverfis-og náttúruverndarsamtök það nauðsynlegt að hvetja nýkjörið Alþingi á jákvæðan hátt til góðra verka í umhverfismálum, íhuga þau vel og vanda til verka.
Við munum líka minna á að í nýjum skoðanakönnunum var góður meirihluti með því að verja Mývatn og yfir 60% þeirra, sem tóku þátt, voru andvígir nýjum álverum. Þessi mál þarf að kryfja til mergjar.
Það er tilviljun að eini dagurinn, sem í boði er til að gera þetta nógu tímanlega, er morgundagurinn, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, sem við virðum og styðjum á alla lund.
En það á ekki að vera vandamál ef rétt er að staðið. Í stað þess að ganga sérstaka göngu og keppa við kröfugöngu verkalýðsins sýnum við henni virðingu með vinsamlegri og jákvæðri stuðningsþátttöku.
Við viljum að engu leyti eigna okkur daginn eða draga athyglina frá honum og baráttumálum verkalýðsins, heldur viljum við þvert á móti með því að verða öftust í árlegri kröfugöngu leggja okkar af mörkum til þess að gera heildarþátttökuna og heildarstærð hennar sem stærsta og veg hennar sem mestan, - verða aftast til þess trana okkur ekki fram og nefnum okkar hluta göngunnar grænu gönguna.
Verðum meðal annars með spjöld sem styðja meginkröfur dagsins.
Við verðum með græna fána, en munum víkja af leið í stutta stund og setja þá niður í klukkustund fyrir framan Alþingishúsið í stuttri athöfn, sem á engan hátt á að trufla baráttufund á Ingólfstorgi.
Við erum flest eða höfum verið launþegar og munum því flest sameinast fundarmönnum á Ingólfstorgi án grænna fána til þess að gera fundinn sem stærstan og glæsilegastan á okkar hljóða hátt.
Það er áratuga hefð fyrir því að fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og ýmsir sérhópar, svo sem herstöðvaandstæðingar, femínistar o. s. frv. taki þátt í kröfugöngunni og leggi sitt af mörkum til að gera hana sem stærsta en hafi jafnframt uppi spjöld með sínum áhersluatriðum. Þegar femínistar fóru í gönguna 1970 vakti það litla hrifningu sumra, en þætti sjálfsagt nú.
Við leggjum áherslu á græna hagkerfið, sem var samþykkt einróma á síðasta þingi og er brýnt hagsmunamál fyrir launþega og alla landsmenn.
Við bendum á að hreint og heilnæmt vatn, loft og haf og aðgangur að einstæðri og óspilltri náttúru eru hluti af lífsgæðum og lífskjörum allra landsmanna og að þessi gæði draga stórvaxandi fjölda ferðamanna til landsins sem skapa þúsundir nýrra starfa ár hvert.
Við bendum líka á að í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem 64% þáttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu studdi, og yfir 80" studdu auðlindakaflann, er eitt af mikilvægustu grundvallarákvæðunum þetta: "Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Því ber öllum að virða hana og vernda".
Annað ákvæði snýr að því að landsnytjar hlíti lögmálum sjálfbærrar þróunar en ekki rányrkju sem bitni á komandi kynslóðum.
21. öldin færir öllu mannkyni viðfangsefni af áður óþekktri stærð sem varðar framtíð mannsins á jörðinni, á tímum þar sem að óbreyttu er stefnt að því í skammtímagræðgi að kippa fótunum að ganga svo á auðlindir jarðar á þann hátt sem bitna mun fyrst og mest á alþýðu allra landa um aldir.
Búist við umboði forsetans í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst mikil þörf á því að minna þjóð og þing á umhverfismálin og stöðuna í þeim efnum en ég verð nú eiginlega að taka undir með forystufólki verkalýðshreyfingarinnar; algjör óþarfi að nota 1.maí til þess.
Alveg sama þó þið hafið öll verið launþegar og verðið með einhver kröfuspjöld. Mér finnst eins og þið séuð að hengja ykkur utan í launafólk sem notar þennan dag fyrst og fremst til að krefjast betri launa og aðbúnaðs. Þetta fólk hugsar án efa um umhverfismál en þessi dagur er bara ætlaður í annað. Þið eruð eiginlega bara að nota launamenn og þann fjölda sem mætir í kröfugöngu til að vekja athygli á ykkar málefnum.
Óskiljanlegt af hverju þið fóruð ekki í þessa göngu á degi umhverfisins sem var núna 25. apríl ef ég man rétt. En úr því það var ekki þá finnst mér að þig eigið bara að gera þetta á laugardaginn eða sunnudaginn. Mér finnst ekki hægt að gera þetta í óþökk verkalýðshreyfingarinnar á þessum degi þeirra.
Soffía (IP-tala skráð) 30.4.2013 kl. 12:21
Við höfum fengið um það skilaboð frá fólki, sem verður framarlega í kröfugöngunni, að þetta sé ekki í óþökk þeirra, þannig að þetta er ekki einhlítt varðandi viðbrögðin þar á bæ. Á laugardaginn verður búið að ganga frá meginatriðum komandi stjórnarsáttmála þótt hann hafi ekki verið gerður opinber þá, og þá verður staðið frammi fyrir gerðum hlut.
Ómar Ragnarsson, 30.4.2013 kl. 13:42
Þetta hefur snúist í höndunum á ykkur. Þið vekið gremju með fólki, sem þessi dagur er tileinkaður sama hvað mistækir almannatenglar ykkar vilja meina. Þvergyrðingsháttur og frekja í tilsvörum ykkar taka svo enn fleiri lóð af vogarskálunum. Fólk hefur fangið nóg af spuna og áróðri. 1. MAÍ er frídagur verkamanna. Friðhelgur. Þetta er algerlega óforskammað stönt.
Jón Steinar Ragnarsson, 30.4.2013 kl. 14:41
Auðvitað er eitt atriðið í mannréttindabaráttunni að krefjast þess að við lifum í ómenguðu umhverfi. Gamaldagshugsun að aðeins eigi að krefjast nægs brauðs til daglegs viðurværis var auðvitað frumkrafan okkar en nú lifum við í svo margfalt flóknara samfélagi en áður var. Því miður eru til stjórnmálamenn sem finnst sjálfsagt að fórna náttúrunni til að byggja fleiri stíflur, virkjanir og álbræðslur þó vitað sé að þetta er hin versta blindgata.
Eg hyggst mæta í „Grænu gönguna“, 1. maí er ekki einkaeign einhvers þröngs hóps manna sem telja sig eiga allt og alla sem megi ráðskast með allt. Á síðustu misserum var allharkaleg „stjórnarandstaða“ gegn ríkisstjórninni af forseta ASÍ. Ríkisstjórnin vildi koma aðildarviðræðum við Evrópusambandið í kring enda er vitað að ekki er unnt að bæta hag heimilanna betur en með aðild að þessu ríkjasambandi. Við gætum meira að segja fækkað þingmönnum!
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 30.4.2013 kl. 17:00
Ómar. Ertu á prósentum hjá ASÍ, við að blekkja launafólk á Íslandi, til að ganga í ESB?
Veistu ekki að ef við förum í ESB, þá þarf ekki að virða launakjör og réttindi almennings?
Hvert ertu eiginlega kominn Ómar minn?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.4.2013 kl. 17:38
Anna Sigríður Guðmundsdóttir,
Ísland á aðild að Evrópska efnahagssvæðinu sem er sameiginlegur vinnumarkaður og hér á Íslandi gilda sömu lágmarkslaun fyrir alla, sama hvaðan þeir koma.
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 18:08
Íbúar á Evrópska efnahagssvæðinu geta starfað hvar sem er á svæðinu og það myndi ekkert breytast við aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Ekki heldur lágmarkslaun hér á Íslandi, sem gilda fyrir alla, sama hvaðan þeir koma.
4. gr. Starfskjör.
Þegar fyrirtæki sendir starfsmann hingað til lands í skilningi laga þessara gildir eftirfarandi löggjöf um starfskjör hans og reglur settar á grundvelli hennar, án tillits til erlendrar löggjafar sem að öðru leyti gildir um ráðningarsamband hans og hlutaðeigandi fyrirtækis:
1. Lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, 1. gr., með síðari breytingum, að því er varðar lágmarkslaun og aðra launaþætti, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarkshvíldartíma.
2. Lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
3. Lög nr. 30/1987, um orlof, með síðari breytingum.
4. Lög nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, 4. gr.
5. Lög nr. 60/1998, um loftferðir, VI. kafli.
6. Lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, 11., 29. og 30. gr.
7.Lög nr. 96/2000, nú Lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, auk annarra ákvæða um bann við mismunun.
Ákvæði 1. mgr. gildir með fyrirvara um betri starfskjör starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi við hlutaðeigandi fyrirtæki eða samkvæmt kjarasamningi eða löggjöf í því ríki þar sem hann starfar að jafnaði."
Lög nr. 45/2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 18:43
Eitt af skilyrðum Davíðs Oddssonar og Jóns Baldvins fyrir inngöngu okkar í EES var að Ísland yrði EKKI aðili að svonefndum „félagsmálapakka“. Þar eru ítarlegar reglur um félagslegt réttindi og mannréttindi sem íhaldinu taldi íslenskur almúgi ekki hafa neitt að gera með.
Rétt er að taka undir þau sjónarmið að með aðild okkar að EES þá erum við komin með aðra löppina inn í Evrópusambandið. Af hverju ekki að stíga með hina löppina líka en með þeim skilyrðum sem tryggja sem best sérstöðu okkar sem fámenn og afskekkt þjóð?
Guðjón Sigþór Jensson, 30.4.2013 kl. 19:11
Hvort ætlar Ísland að stíg skrefið áfram inn í verkamanna-þrælalaun framtíðarinnar, eða stíga skrefið afturábak út úr EES-stjórnsýslu-slysinu Evrópu-kúgaða?
Það er öllu verkafólki lífsnauðsynlegt að skilja, hvers konar kjör eru í boði fyrir verkafólkið innan ESB.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.4.2013 kl. 20:38
Meðallaun í 72 löndum - Ellefu Evrópusambandsríki fyrir ofan Ísland, þar á meðal Kýpur og Ítalía, en Spánn og Grikkland í næstu sætum
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 21:02
"Valio Ltd is a company owned by 18 Finnish dairy co-operatives whose procurement share of Finnish raw milk is around 86%.
Valio Group comprises 9 dairy co-operatives with around 9,000 milk producers, while the total number of milk producers in Finland is a little over 10,000."
[Valio Group greiddi hverjum mjólkurframleiðanda að meðaltali um 16 milljónir íslenskra króna árið 2010, miðað við 1. janúar 2010, og fyrirtækið er með um 90% finnskra mjólkurframleiðenda.]
"In 2010, Valio paid 40.9 euro cents per litre of raw milk [73,42 íslenskar krónur, miðað við 1. janúar 2010], which is 0.5 cents higher than in 2009."
[En hér á Íslandi var "afurðastöðvarverð mjólkur 1. nóv. 2008 - 31. jan. 2011: 71,13 kr/l."]
Valio Group key figures 2010 - All of Valio's profit goes to its milk producers
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 21:20
Steini Briem. Ertu virkilega ekki að hugsa um heildarhagsmuni almenns verkafólks innan EES, þegar þú ert að mæla með inngöngu íslendinga í ESB?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.4.2013 kl. 21:56
Þrátt fyrir allar niðurgreiðslurnar á landbúnaðarvörum hérlendis var hlutfallslegt matvælaverð hér hæst í Evrópu árið 2006, borið saman í evrum, eða 61% hærra en í Evrópusambandinu.
Hagstofa Íslands - Evrópskur verðsamanburður á mat, drykkjarvörum og tóbaki
Við kaupum hins vegar mat og drykkjarvörur hér á Íslandi í íslenskum krónum en ekki evrum og frá ársbyrjun 2006 til ársloka 2011 hækkaði hér vísitala neysluverðs, sem verðtrygging lána er miðuð við, úr 249,7 í 386 stig, eða 54,6%.
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 22:11
Húsnæðislán í Svíþjóð:
Handelsbanken - Aktuella boräntor
Á evrusvæðinu, þar sem verðbólgan hefur verið mun minni en hér á Íslandi, hafa vextir verið mun lægri en hérlendis.
Afborganir af 20 milljóna króna húsnæðisláni í íslenskum krónum til 20 ára eru um einni milljón króna hærri á ári en þær væru ef lánið væri tekið í evrum hjá frönskum banka.
Á 20 árum er lánið í íslenskum krónum rúmlega 19 milljónum króna dýrara en það franska.
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 22:17
"Engir tollar eru lagðir á þær vörur sem fluttar eru á milli landa innan Evrópusambandsins.
Gengi Ísland í Evrópusambandið yrðu tollar á vörur frá Evrópusambandsríkjum felldir niður en þaðan kemur ríflega helmingur alls innflutnings."
"Þannig eru lagðir 30% tollar á kjöt, mjólkurvörur og egg, 20% á sætabrauð og kex, 15% á fatnað og 7,5% á heimilistæki."
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 22:40
Þið ættuð að skammast ykkar Ómar að geta ekki látið 1 maí í friði.
Hreinn Sigurðsson, 1.5.2013 kl. 02:22
Hvað Hreinn á við minnir einna helst á viðhorf bókstafstrúarmanna sem sjá hvers konar breytingar af því illa. Auðvitað á 1.maí að vera alþjóðlegur baráttudagur ekki aðeins fyrir hinu daglegu brauði heldur mannréttindum almennt.
Egill Helgason bendir á að femínistar, samkynhneygðir, öryrkjar og ýmsir fleiri hafa komið í 1. maí gönguna og krafist aukinna mannréttinda.
Stjórnlagaráðið benti á í tillögum sínum að við eigum kröfu á að umhverfi okkar verði ekki spillt og að allir eigi þessi lífsskilyrði sameiginleg og að ekki eigi að spilla neinu að óþörfu.
Guðjón Sigþór Jensson, 1.5.2013 kl. 09:36
Guðjón 1 maí er baráttudagur verkalýðsins. Af hverju fóruð þið ekki bara í þessa göngu á degi umhverfisins sem mér sýnist hafa verið í síðustu viku. Mannréttindadagar eru 2 annars vegar mannréttindadagur Reykjavíkurborgar 16 maí og hinsvegar alþjóðlegur manréttindadagur í desember. Leyfið verkalýðshreyfingunni að eiga sinn dag þið getið bara notað einhvern af hinum sem ég taldi upp.
Hreinn Sigurðsson, 1.5.2013 kl. 22:24
Frumþarfir okkar er hið daglega brauð og húsaskjól. Síðan kemur aðgangur að menningu og öðrum þeim lystisemdum sem umhvefið okkar hefur upp á að bjóða. Á 19. öld upplifði verkalýður Evrópu allt þetta en velmegnuninni fylgdi annmarki: Kolaryk og mengun frá iðjuverunum dró úr lífsgleði fólksins, það þurfti að leggja betri gaum að nánasta umhverfi okkar.
Við lifum ekki einungis af stóriðju. Við gætum t.d. komið okkur upp umfangsmiklu skóglendi á Íslandi fyrir aðeins brot á þeim kostnaði sem fylgir stóriðjunni. Þessi græna stóriðja myndi gefa næstu kynslóðum aðgang að stórkostlegum náttúruauðlindum en lengi vel hefur um 10% af okkar innflutningi verið timbur og timburafurðir sem Hákon Bjarnason hvatti okkur þegar fyrir um 70-80 árum að leggja áherslu á. Því miður var boðskap hans tekið með tortryggni og allt að því háði sbr. það sem Helgi Sæmundsson lét hafa eftir sér í tímaritagrein fyrir rúmri hálfri öld og virðist enn í dag hafa áhrif! Því miður virðast margir vera veikir fyrir heimskunni og heimskuna er ekki hægt að lækna, fremur en aðrar meinsemdir sem fordóma og skrýtnar skoðanir.
Skógrækt myndi ekki skaða neinn nema öðru nær. Skotar stóðu frammi fyrir sama vandamáli í byrjun 20. aldar og Íslendingar að aðeins 1% lands var þakið skógi. Þessu ákváðu þeir að breyta að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni 1914-1918. Þei ákváðu að bæta landið og efla það að náttúrugæðum. Meðan við höfum náð að koma skógi upp í tæp 1,5% af yfirborði landsins þekja skoskir skógar nú um 20% af Skotalandi og eru skógarnir þeim mikilsverð náttúruauðlind og hafa haft jákvæð áhrif á atvinnuþróun í landinu sem við mættum taka okkur til fyrirmyndar. Svo virðist sem heimskan sé stærri þröskuldur og erfiðari en langir og kaldir vetur á Íslandi. En okkar skógar hafa sýnt og sannað að trén vaxa og dafna þrátt fyrir allt!
Guðjón Sigþór Jensson, 7.5.2013 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.