Munurinn á Styrmi og Bjarna.

Skelfing er að heyra ungan stjórnmálaleiðtoga tala eins og gamlan afturhaldssegg um persónukjör, svo mikið afturhald, að það nær aftur fyrir 1851. 

Hann gefur frat í þann vilja, sem kom fram hjá Þjóðfundi, stjórnalagaráði og í þjóðaratkvæði síðastliðið haust að innleiða persónukjör í auknum mæli.

Þvert á móti telur hann það stóran galla persónukjörs, hve mörg atkvæði "falli dauð niður", og fyrst svo er, má álykta að honum þyki persónukjör hið versta óráð

Rökrétt væri því í framhaldinu að hann beiti sér fyrir því að leggja prófkjör niður hjá Sjálfstæðisflokknum.

Röksemdafærsla Bjarna er sú að það sé í góðu lagi að meira en 20 þúsund atkvæði detti dauð niður að óþörfu í Alþingiskosningum, og nefnir hann sérstaklega kjör til stjórnlagaráðs sem samanburðardæmi.

Þar er hins vegar ólíku saman að jafna. 

Í Alþingiskosningum hefur fjöldi framboða á landsvísu farið upp í kringum 10, en þingsætin eru sex sinnum fleiri, þannig að framboðið er meira en eftirspurnin og engin ástæða til þess að vera að skekkja það neitt.

Í stjórnlagaþingkosningunum voru frambjóðendur hins vegar 523 en 25 fengu mest fylgi og framboðið því margfalt meiri en eftirsurpnin. Hvernig getur útkoman í slíkum kosningum orðið önnur en sú að 25 verði kjörnir en 498 komist ekki að?

5% þröskuldurinn, sem Bjarni líkir við þetta, er því ekki sambærilegur. Hvaða önnur aðferð hefði getað tryggt önnur úrslit en að 498 kæmust ekki að?  Jú, sú aðferð, sem Bjarni virðist elska, að sérstök nefnd útvalinna hefði valdið fólk í ráðið.

5% þröskuldurinn í Alþingiskosningum jafngildir því að sett hefði sérregla í stjórnlagaþingkosningunum um eitthverjar sérstakar hömlur, sem hefðu skekkt hina lýðræðislegu aðferð sem notuð var.

Gagnrýni Bjarna á persónukjör kemur aftan úr forneskju miðað við þá umræðu og kröfu um aukið beint lýðræði, sem til dæmis Styrmir Gunnarsson, flokksbróðir Bjarna, hefur barist fyrir.

Munurinn á Styrmi og Bjarna er sá, að Styrmir er gamall maður með ferskar, nútímalegar hugmyndir.

Bjarni talar hins vegar eins og ungur maður með gömul og steinrunnin sjónarmið, svo mikið afturhald, að það nær aftur fyrir 1851. 

1851 voru nefnilega persónur í kjöri til Þjóðfundar í hverju kjördæmi en ekki sérútvalið fólk, fólk valið af uppstillingarnefndum, sem valdamenn höfðu puttann í.  

Draumur þeirra, sem ekki vilja persónukjör, er sá að ákveðin nefnd sjái til þess hverju sinni að það verði ekki fleiri í framboði en verða útvaldir. Það hefur nokkrum sinnum verið gert hjá Sjálfstæðismönnum fyrir kosningar í Reykjavík.   

Eða, eins og gert var að minnsta kosti tvívegis í prókjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, að þrátt fyrir prófkjör var sérstök uppstillinganefnd í náðinni hjá borgarstjóranum, sem hafði úrslitavald um að möndla með úrslit prófkjörsins að vild og gerði það auðvitað, færði suma fram og henti öðrum aftar, jafnvel um fjögur sæti.  


mbl.is Ekki ástæða til að endurskoða 5%-reglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Að sjálfsögðu á að koma einstaklingsframboðunum inn í kosningakerfið.þetta á að vera sjálfsagður valkostur fyrir fólk.Hef viðrað hugmynd varðandi þetta sem byggir á forkosningum.hægt er að nota þessa aðferð líka meðal "smáframboða" eins og ég var að stinga upp á við Ásthildi í Nýrri dögun.Það hefði orðið til þess að nokkrir þingmenn hefðu komist inn hjá þessum framboðum .Sjá bloggfærslu:KOMUM Á EINSTAKLINGSFRAMBOÐUM.

Jósef Smári Ásmundsson, 29.4.2013 kl. 13:55

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bjarni Benediktsson, núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, er 43ja ára gamall, fæddur 26. janúar 1970, og því miðaldra.

Afturhaldsseggir eru hins vegar ungir, miðaldra eða gamlir.

Styrmir Gunnarsson
er íhaldsmaður og á langflestum sviðum afturhaldsseggur.

Þorsteinn Briem, 29.4.2013 kl. 13:57

3 identicon

Þessar umræður um 5% regluna eru umræður um keisarans skegg; algert aukaatriði. Reglan er jú til komin vegna ójöfnuðar atkvæða milli kjördæma (þar sem t.d. um 1900 atkvæði eru að baki hverjum þingmanni í NV en um 4000 í SV). Eina leiðin til 100% jöfnuðar er að gera landið allt að einu kjördæmi.

Það verður nú sennilega seint. Ekki einu sinni stjórnlagaráð sá sér fært að mæla með því. Þó er smávegis von til þess síðar á öldinni ef landsbyggðarkjördæmin svonefndu halda áfram að renna saman í stærri og stærri kjördæmi.

En líklegast er það borin von að menn líti fyrst á sig sem Íslendinga áður en þeir kenna sig við átthagana. Það er líklegast undirrót kjördæmakerfisins og á sér aldalanga sögu. Með tilheyrandi poti, frændhygli og spillingu.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 29.4.2013 kl. 14:30

5 identicon

Ómar.

Þú veist það eftir veru þína í sjálfstæðisflokknum að þar snýst allt um völdu fjölskyldurnar !

Bjarni Benediktsson kemur einni slíkri og orð hanns eiga að vera tekin sem slík !

Annars er komið að því að landið verði gert að einu kjördæmi og allir hafi sama rétt !!!

JR (IP-tala skráð) 29.4.2013 kl. 21:47

6 identicon

Eiginhagsmunaseggir hafa verið alveg nógu margir á Alþingi hingað til

Það er mikið af ungu fólki  að byrja þar núna og ég treysti þeim öllum betur en þessum gömlu besservissum sem ekki náðu 5%- Kerfið virkar sjáið Píratana

Þetta unga fólk talar allt um samvinnu í stað þess að tönglast á sífelt hversu vondir hinir eru líkt og er eini málflutningur margar þeirra eldri

Grímur (IP-tala skráð) 29.4.2013 kl. 21:53

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tillaga stjórnlagaráðs er um kjördæmavarið landskjör, þ. e. að kjósendur hvar sem er á landinu geti valið frambjóðendur af eins mörgum listum og í eins mörgum kjördæmum og þá lystir. Hins vegar er sett regla um það að lágmarks tölu þingmanna úr hverju kjördæmi, að hún sé eins nálægt því að nálgast meðaltalið á bak við hvern þingmann á landinu öllu.

Sú mótbára, að þetta sé flókið, á enga stoð. Eftir sem áður getur kjósandi sett x við einn lista eins og hann hefur alltaf gert og látið öðrum kjósendum eftir að raða á listann. 

Ómar Ragnarsson, 29.4.2013 kl. 23:33

8 identicon

Mér hefur alltaf hugnast pesónukjör. Mér þykir væntum að heyra að það skulu hafa verið sveitungar langafa sem völdu hann Þjóðfundinn. Áfram Ómar.

Bergþóra Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.4.2013 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband