2.5.2013 | 00:31
Græðum meira á því að selja "hreint loft" og "endurnýjanlega orku."
Hvað er verið að fjargviðrast yfir því þótt þúsundir vinnustunda og tugir, ef ekki hundruð milljóna króna fari í súginn vegna brennisteinsmengunar í lofti? Hvað er verið að fjargviðrast yfir því þótt engin lausn muni finnast fyrr en í fyrsta lagi eftir 2020 ef hún finnst þá nokkurn tíma?
Hvað er verið að barma sér yfir því þótt loftið á höfuðborgarsvæðinu standist ekki kröfur Kaliforníu mánuðum saman á ári og öndunarfærasjúklingar þjáist. Þeir geta bara flutt eitthvað annað.
Hver hefur áhyggjur af því að nú eigi að bæta hressilega í og þekja Reykjanesskagann með fleiri svona virkjunum, sem endast aðeins í nokkra áratugi ?
Hvað er verið að fjargviðrast yfir því að Orkuveita Reykjavíkur sé og verði áfram kúpunni?
Þetta kemur okkur ekki við, - börn okkar og barnabörn leysa þetta auðveldlega, borga brúsann, finna orku í staðinn og leysa mengunarvandann. Þau eru ekki of góð til þess. Hvers vegna skyldum við vera að gera eitthvað fyrir yngstu börnin og ófæddu börnin? Ekki hafa þau gert neitt fyrir okkur.
Við græðum nefnilega miklu meira á því að fjölga ferðamönnum um ca 200.000 á hverju ári með því að auglýsa "hreina" og "endurnýjanlega orku" og "óspillta náttúru sem er einstæð í öllum heiminum."
Hver þarf að vita að þetta er allt saman lygi, - að við séum að selja svikna vöru? Ljúgum bara þeim mun meira að okkur sjálfum og öllum heiminum. Annars komum við ekki "hjólum atvinnulífsins af stað".
Þjóðfundirnir tveir lögðu áherslu á heiðarleika, réttlæti, gegnsæi og ábyrgð. En Davíð segir að þessir fundir hafi verið einhver mesta vitleysa, sem framkvæmd hafi verið, jafnvel þótt Bjarni Ben og hans eigin flokksmenn á þingi hafi átt þessa arfavitlausu hugmynd.
Mengun í Reykjavík er dýrt spaug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
22.3.2013:
Orkuveita Reykjavíkur tapaði 2,3 milljörðum króna árið 2012
Þorsteinn Briem, 2.5.2013 kl. 00:39
Norðurál: "Álver í Helguvík þarf 625 MW þegar það er komið í fulla stærð."
Háhitasvæði á Reykjanesskaga:
Eldvörp 50 MW,
Sveifluháls 50 MW,
Gráuhnúkar 45 MW,
Hverahlíð 90 MW,
Meitillinn 45 MW,
Sandfell 50 MW,
Reykjanes 50 MW,
Stóra-Sandvík 50 MW.
Samtals 430 MW.
En engan veginn víst að hægt verði að fullnýta allar þessar átta virkjanir, enda þótt þær hafi verið samþykktar á Alþingi.
Og hvað þá að álver í Helguvík geti fengið raforku frá þeim mjög fljótlega.
Þorsteinn Briem, 2.5.2013 kl. 00:45
Um þrjú þúsund störf voru þá í tengdum greinum, til dæmis smásölu, afþreyingu, verslun, menningu, tómstundum og þjónustu tengdri farþegaflutningum.
Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010
Þar að auki er ferðaþjónusta í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.
Stóriðja er hins vegar einungis á örfáum stöðum á landinu.
7.3.2012:
"Þrjú álver eru rekin á Íslandi og hjá þeim starfa um tvö þúsund manns en þegar bætt er við þeim sem tengjast álverunum teljast um 4.800 starfa í áliðnaði og tengdum greinum.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Samtök álframleiðenda."
Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni hérlendis var um 8.400 árið 2007 og ef þeim störfum hefur fjölgað frá þeim tíma um 6,8% á ári að meðaltali, líkt og erlendum ferðamönnum fjölgaði hér á síðasta áratug, voru þessi störf um tólf þúsund í fyrra, um þrisvar sinnum fleiri en í álverunum hér og tengdum greinum.
Erlendum ferðamönnum hefur hins vegar fjölgað mun meira en um 6,8% á ári að meðaltali hér á Íslandi síðastliðin fimm ár.
Þorsteinn Briem, 2.5.2013 kl. 00:55
Góð grein. Við Íslendingar getum því miður ekki lengur státað af hreinu lofti. Hrein skítafýla í Reykjavík í austanátt, vegna baneitraðs brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun og ef það er rok, fyllist loftið af ösku frá gosinu í Eyjafjallajökli.
Stefán Niclas Stefánsson (IP-tala skráð) 2.5.2013 kl. 05:43
Það á kanski að fara að vilja þeirra sem vilja engar jarðvarmavirkjanir og loka orkuverinu í Svartsengi, og þar með Bláa lóninu, þess staðar á Íslandi sem flestir ferðamenn fara til sem koma til landsins.Nei það verður ekki.Þeir sjö þingmenn sem búa á Suðurnesjum og íbúar þar munu aldrei samþykkja það.Skítafílan í R.Vík. er ekki á Suðurnesjum.Kanski ræður hugarfarið einhverju.
Sigurgeir Jónsson, 2.5.2013 kl. 06:36
Það er klárt mál að þessi atriði verður að taka með í reikninginn þegar virkjanir fara í umhverfismat. Einnig þurfa "meðvirkir" pólitíkusar (sem ætla að skauta létt í gegnum umhverfismatið) að hafa í huga að það kemur að því að menn fara að setja fram skaðabótakröfur sem verða þá aukinn kostnaður við virkjunina.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.5.2013 kl. 08:17
Ég geri ekki kröfu um að loka virkjuninni í Svartsengi. Ég geri kröfu um að fundið sé út, hve vægilega megi fara í sakirnar við það að pumpa upp orkunni til þess að orkan endurnýi sig sjálf í stað þess að sýna slíka græðgi, að allt svæðið og Bláa lónið lika, verði orðið kalt og ónýt eftir aðeins 30 ár.
Ómar Ragnarsson, 2.5.2013 kl. 08:30
Tæpur helmingurinn af þeirri orku, sem þú tínir saman, Steini, er á vegum OR, sem hefur ákveðið, að vegna tapreksturs og slæmrar stöðu OR, verði ekki virkjað þar á þessum áratug.
Ómar Ragnarsson, 2.5.2013 kl. 13:42
Síðan má bæta því við að ætli menn að mergsjúga sameiginlegt orkuhólf Svartsengis og Eldvarpa, er líka verið að taka varmann frá húsahitun á Suðurnesjum.
Ómar Ragnarsson, 2.5.2013 kl. 13:43
Það þarf því að slátra nokkrum fossum til að tína saman wöttin í álbræðsluna. Gaman gaman.
Lítið mun verða um útflutning í gegn um kapal, þar sem sýnt er að þegar álinu er hálf-fullnægt er lítið eftir til að dreifa. Væri það þó betri kostur en bræðslan, þar sem orkusalan er (enn) í þjóðareigu, og arðsemin þar margföld m.v. ál.
Og hvað þá með framtíðar-orkuþörf Íslendinga sjálfra? Rafbílastraumur til dæmis?
Ljóta bullið allt saman.
Jón Logi (IP-tala skráð) 2.5.2013 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.