2.5.2013 | 20:30
Launsátur og blekkingar, skuggahliðar netfrelsisins.
Netheimar, nethagkerfi og netlýðræði eru meðal þeirra nýyrða, sem hafa skapast með netbyltingunni.
Net- og samskiptabyltingin hefur þegar skapað nýjar aðstæður víða um heim, og vafasamt má til dæmis telja að lýðræðisvorið í Arabalöndunum hefði skollið á með byltingu í Egyptalandi og Túnis og borgarastyrjöld í Sýrlandi.
Þessi bylting og frelsið og möguleikarnir, sem hún hefur leitt af sér, er fyrirbæri sem afar mikilvægt er að vernda og þróa til góðs vegar. Þess vegna eru setningar um það í frumvarpi stjórnlagaráðs, sem tryggja eiga að þar ríki nauðsynlegt frelsi og gagnsæi.
En netbyltingin á sér líka skuggahliðar eins og sést á þeim lágkúrulegu skrifum, sem nú hafa réttilega vakið óróa í netheimum. Því miður er þetta ekki einsdæmi. Óprúttnir aðilar komast því miður upp með það að vega úr launsátri í skjóli nafnleyndar eða sigla jafnvel undir fölsku flaggi.
Nafnleynd kann að eiga rétt á sér í afmörkuðum tilfellum í fjölmiðlum, og nafnlausar forystugreinar og pistlagreinar í blöðunum hafa verið við lýði í minnsta kosti 90 ár. Má þar nefna höfunda eins og "Hannes á horninu", "Velvakanda" og "Reykjavíkurbréf" auk nafnlausra leiðaraskrifa.
Komið geta upp tilfelli þar sem upplýsingar, sem eiga erindi til almennings, verða að njóta nafnleyndar, því að öðru kosti þori viðkomandi ekki að láta þær koma fram. Þetta þekkja flestir blaðamenn, sem hafa verið einhvern tíma í því starfi. Í hugann kemur "Litli Landssímamaðurinn."
En hvimleitt er þegar lúalegar, harkalegar, ósanngjarnar og jafnvel upplognar árásir eru gerðar úr slíku launsátri, að ekki sé minnst á þann ódrengskap að gera þær undir fölsku flaggi.
Fordæma árásir á Sigmund Davíð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.