8.5.2013 | 11:17
"Lömuð önd."
Þótt formlega sé ekki hægt að sjá að svonefndar "starfsstjórnir" hafi minni völd en venjulegar ríkisstjórjnir hefur fyrir löngu myndast um það hefð í þingræðisþjóðfélögum að starfsstjórnir sinna aðeins óhjákvæmilegum embættisskyldum sínum en forðast að taka stefnumarkandi ákvarðanir eða ákvarðanir, sem geta beðið.
Stundum er það svo, að undir lok kjörtímabils eru sitjandi forsetar eða ráðherrar kallaðir "lame ducks" eða" lamaðar endur" þegar lýst er stöðu þeirra gagnvart valdi þeirra.
Þetta á til dæmis oft við í Bandaríkjunum.
Ýmis dæmi eru um það hér á landi að ráðherrar hafa freistast til að framkvæma hluti örfáum dögum fyrir kosningar, sem jafnvel hafa legið í þagnargildi, enda ætlunin sú.
Dæmi um það er frá aðdraganda kosninganna 2007. Þá héldu Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra blaðamannafund rúmum tveimur vikum fyrir kosningar og kynntu þann vilja sinn, ef þau yrðu áfram í embættum, að komið yrði á fyrirkomulagi þar sem alveg yrði tekið fyrir það að virkja á þeim stöðum á Íslandi sem væru með mest náttúruverðmæti, nema að undangenginni sérstakri yfirgripsmikilli og vandaðri meðferð og með sérstöku samþykki Alþingis.
Inni á lista yfir þessa staði voru svæði eins og Askja, Kverkfjöll, Torfajökulssvæðið, og sérstakt svæði sem þau gáfu heitið "Leirhnjúkur-Gjástykki".
Þetta síðasta var afar mikilvægt, því að þetta er áberandi landslagsheild Kröflueldanna 1975-84.
Því miður er ekkert tillit tekið til þessa í mati á umhverfisáhrifum stækkunar Kröflu og er það hneyksli.
Með frumkvæði sínu í þessu efni náði Framsókn sér í fylgi, sem annars hefði farið yfir á Íslandshreyfinguna. Tókst samt ekki að verjast tapi því að nógu mikið fór samt frá þeim.
Nokkrum dögum fyrir kosningar gaf iðnaðarráðherrann hins vegar leyfi til handa Landsvirkjun til að hefja tilraunaboranir í Gjástykki, en það þýðir oftast að fjandinn er laus, einkum á svæði eins og Gjástykki þar sem raskað er nýrunnu hrauni. Þetta vitnaðist ekki fyrr en eftir kosningar.
Mér þótti þetta afar miður, vegna þess að ég hef haft mikið álit á Jóni Sigurðssyni sem gegnum og góðum manni og hef þrátt fyrir þetta ekki skipt um skoðun í því efni, - öllum getur orðið á í hita leiks.
Þegar ég frétti þetta bloggaði ég um það og var svo heppinn að hitta Össur Skarphéðinsson, sem varð iðnaðarráðherra á eftir Jóni út undir vegg í Skaftafelli og gera honum grein fyrir því að Gjástykki væri ekki aðeins ígildi Öskju að náttúruverndargildi, heldur stæði það jafnvel Öskju framar, og að Össur vissi vel um gildi Öskju eftir að hafa verið í nefnd um Vatnajökulsþjóðgarð og farið í ferðir um það svæði.
Össur tók sig til og vann að því sjálfur og nánast einn í ráðuneytinu að ganga þannig frá þessu máli að ekki yrði farið til þeirra borana í Gjástykki, sem lagt hafði verið drög að fyrir kosningar. Tel ég að þetta verk Össurar verði honum til sóma meðan land byggist.
Ein af skýringunum á því hve illa gekk að koma stjórnarskrármálinu í gegn á Alþingi í vetur kann að vera sú að þáverandi meirihluti þingmanna hafi verið búinn að fá það á tilfinninguna að tapa stórt í kosningunum og vera að því leyti orðinn eins og "lömuð önd".
Enda höfðu stjórnarandstæðingar hótað því að snúa öllu til baka eftir kosningar ef / þegar þeir kæmust til valda.
Og skýringin á því af hverju 71. grein þingskapa var ekki beitt gegn taumlausu málþófi stjórnarandstöðunnar gæti verið sú, að ef það hefði verið gert, myndi næsta stjórn Sjalla og Framsóknar beita þeirri sömu grein gegn þingmönnum Samfylkingar og Vg.
Ef þetta er ástæðan, er svona ástand þegjandi samtryggingar kjörtímabil eftir kjörtímabil arfaslæmt, því að beiting málþófs keyrði um þverbak síðasta vetur og jafnvel fyrr á kjörtímabilinu.
Starfsstjórn má gera hvað sem er | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Starfsstjórn er það gjarnan kallað þegar ríkisstjórn hérlendis eða erlendis hefur beðist lausnar en forseti (eða annar sem fer með þjóðhöfðingjahlutverk) biður ríkisstjórnina að sitja áfram á meðan ný (þingræðis)stjórn er skipuð.
Slík stjórn er gjarnan talin hafa takmarkaðra umboð en ofangreindar stjórnir til veigamikilla ráðstafana."
Þjóðstjórn, starfsstjórn, utanþingsstjórn og fleiri hugtök - Gísli Tryggvason
Þorsteinn Briem, 8.5.2013 kl. 14:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.