13.5.2013 | 21:25
Mögnuð framvinda í lærdómsríkri stuttmynd.
Bulimia var orð sem ég hafði aldrei heyrt fyrr en í gærkvöldi.
Ég átti heldur ekki von á því að heyra þetta orð lengi vel þegar horft var á myndina "Þú verður að líta vel út" á stuttmyndahátíðinni í Bíó Paradís í gærkvöldi.
Þvert á móti blasti lengi við í myndinni aðdáunarverð kappsemi, agi, reglusemi, flókið, afar erfitt og hávísindalegt æfingaferli sem óhjákvæmilega liggur að baki því að ná toppárangri í flestum íþróttagreinum nú á tímum, - í þessu tilfelli hinnar mjög svo kröfuhörðu fitness eða líkamshreysti.
Svipaða mynd mætti vafalaust gera um poppguðinn Michael Jackson og æviferil hinnar frábæru söngkonu Caren Carpentier. Lengi vel blasti aðeins við hin ytri glansmynd af þeim, en ekki var skyggnst um að tjaldabaki.
Þess vegna held ég að hin 20 mínútna langa stuttmynd "Þú verður að líta vel út", sem frumsýnd var í Bíó Paradís í gærkvöldi, eigi erindi við almenning og þá einkum við ungt fólk, sem er að stíga fyrstu skref sín í lífsbaráttunni, sem oft byggist á því að ná langt á braut árangurs og frama á ýmsum sviðum.
Ég vil ekki fara nánar út í orðið bulimia af því að gildi myndarinnar, þar sem hugtakið kemur fyrir, byggist að mínu viti á því að ytri myndin, sem dvalið er við í upphafi, breytist smám saman, og að áhrif myndarinnar byggjast á þessari framvindu söguþráðarins, - það er ekki eitt dautt augnablik í henni.
Lærdómsríkast er, að aðstæðurnar, sem koma í ljós í myndinni, fara ekki í manngreinarálit hvað gáfur og andlegt atgervi varðar, heldur virðast eiga einna greiðasta leið að mjög greindu, hæfileikaríku og metnaðarfullu fólki, eins og Michael Jackson og Caren Carpentier eru glöggt dæmi um.
Af þessum sökum snertir myndin "Þú verður að líta vel út" áhorfendur mjög, vegna þess að sagan af Soffíu Dröfn Snæbjörnsdóttur verður ljóslifandi og grípandi í henni og gefur innsýn inn fyrir ytra borð heims glæsileikans, þar sem yfirleitt er ekki skyggnst á bak við tjöldin.
Soffía Dröfn sýnir mikinn kjark og styrk og á skilið að vera þakkað fyrir frammistöðu sína í þessari lærdómsríku og þörfu mynd, sem minnir um margt á "Blá naglann", - mynd sem gerð var um krabbamein í blöðruhálskirtli.
Það er kannski ekki tilviljun að viðfangsefnin séu af svipuðum toga, því að báðar myndirnar eru hluti af "heimilisiðnaðinum" sem Ingi R. Ingason nefnir stúss sitt og Ölmu Ómarsdóttur, konu sinnar, á sviði kvikmyndagerðar.
Á meðfylgjandi ljósmynd er Soffía Dröfn ásamt Ölmu, handritshöfundi og framleiðanda myndarinnar "Þú verður að líta vel út".
Jackson var sem beinagrind | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.