14.5.2013 | 15:21
Aftur til 1979 ?
Árið 1942 skall á óðaverðbólga, hin mesta í sögu þjóðarinnar til þess tíma, vegna þenslunnar af stríðsgróðanum. Þott verðbólgan væri oftast minni eftir það var hún það mikil Í næstu fjóra áratugi á eftir, að í gangi eitt mesta þjóðfélagsóréttlæti sögunnar, sem fólst í því að þeir sem gátu komist í það að skulda sem allra mest, græddu því meir á því sem skuldirnar voru meiri.
Á þeim tíma sem ég og mín kynslóð var að eignast þak yfir höfuðið fengum þau okkar, sem mest tókst að skulda, allt að 40% af þessari fjárfestingu gefins.
Að sama skapi töpuðu sparifjáreigendur, oft líknarsjóðir og eigendur lífeyrissparnaðar. l
Sams konar ástand nú myndi þýða að skuldarar græddu mörg hundruð milljarða, jafnvel þúsundir milljarða á kostnað sparifjáreigenda.
Það hlálega við þessi ár var það, að í gildi voru svonefnd okurlög, sem bönnuðu hærri vexti en bankarnir greiddu, og voru svonefndur "okurlánarar" illa þokkaðir og hundeltir.
Að vísu voru vextir þeirra oft réttnefndir okurvextir, en það komu líka tímabil þegar þeir voru í raun fullkomlega eðliegir og sanngjarnir.
Margir virðast búnir að gleyma að það var í þessu ástandi 1979, sem verðtrygging lána var tekin upp, og að það var ekki fyrr en eftir Þjóðarsáttarsamningana 1990 sem verðbólgan fór fyrst að hjaðna og eðlilegra ástand að skapast.
Verðtryggingin var og hefur því miður alltaf verið afleiðing af því, að við ráðum ekki við verðbólguna.
Enginn talar hins vegar um "forsendubrest" þegar sparifjáreigendur eru ekki aðeins rændir eðlilegri rentu af fjármunum sínum, heldur beinlínis féflettir hvað höfuðstólinn varðar.
Þessi mál verða aldrei í lagi fyrr en verðbólgan minnkar og ástin á skuldum og skuldurum, sem bitnar á sparifjáreigendum, víkur fyrir svipuðu ástandi og er hjá flestum öðrum þjóðum.
Gengur mjög á sparifé | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Verðtryggingin er reyndar meginorsökin fyrir verðbólgu á Ísandi. Ósjálfbær rökvilla sem gerir ekkert nema velta áhættu á milli aðila og bítur á endanum í skottið á sér, eins og fréttin ber með sér, en hún fjallar um sparifjárbruna undanfarinna missera.
Hvernig gat það eiginlega gerst þrátt fyrir "skothelda" verðtryggingu sparifjár?
Svarið liggur í því að fólk tók þetta sparifé út til að greiða af stökkbreyttum lánum.
Þannig má segja að spariféð hafi í þetta sinn brunnið upp á verðtryggingarbáli.
Þeir sem hafa þegar innleyst hagnað af þessari vitleysu eru hinsvegar bankarnir.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.5.2013 kl. 19:22
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru því mjög háir, 14,25%, til að fá Íslendinga til að leggja fyrir og reyna að minnka hér kaup- og byggingaæðið, viðskiptahallann við útlönd og eftirspurnarverðbólguna.
Og útlendingar keyptu mikið af Jöklabréfum, sem hækkaði gengi íslensku krónunnar enn frekar.
Jöklabréf
En eftir gjaldþrot íslensku bankanna haustið 2008 var hér mikil verðbólga vegna gengishruns íslensku krónunnar, þar sem mun fleiri krónur þurfti nú til að kaupa erlendar vörur og aðföng en árið 2006.
Þorsteinn Briem, 14.5.2013 kl. 19:47
Katrín Ólafsdóttir lektor í hagfræði - Viðskiptablaðið 26. apríl 2007:
"Á árunum 2004 og 2005 var hagvöxtur hér á landi yfir 7% tvö ár í röð. Samkvæmt mati Seðlabankans var slaki í þjóðarbúskapnum á árinu 2003 og framleiðsla því undir framleiðslugetu.
Uppbygging á þessum árum var mikil og aukning fólksfjölda hröð. Því er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir að hagkerfið myndi þola hagvöxt umfram 3%, allavega um tíma.
Þróunin var hins vegar sú að strax á árinu 2004 var slakinn horfinn og gott betur. Því leiddi megnið af 7% hagvextinum á árinu 2005 til aukningar á þenslu.
Þarna var því um að ræða hagvöxt umfram framleiðslugetu, sem er því ekki vöxtur til frambúðar.
Afleiðingin af þessu hagvaxtartímabili blasir við í dag þar sem viðskiptahalli hefur aldrei í sögu þjóðarinnar verið hærri og mælist fjórðungur af landsframleiðslu og verðbólga nálgast 8%, að undanskilinni skattalækkun.
Atvinnuleysi mælist varla. Þvert á móti hefur innflutningur vinnuafls aldrei verið meiri. Með öðrum orðum, ójafnvægið í þjóðarbúskapnum er gífurlegt. Öllum ætti að vera ljóst að þetta ástand stenst ekki til frambúðar."
Þorsteinn Briem, 14.5.2013 kl. 19:51
Hér á Íslandi var einnig mikil verðbólga áður en víðtæk verðtrygging var tekin hér upp árið 1979.
Verðbólga hér á Íslandi á árunum 1940-2008
Lagðar voru töluverðar fjárhæðir inn á reikning minn hjá Sparisjóði Svarfdæla á áttunda áratugnum áður en verðtrygging var tekin hér upp en ég tók aldrei út af reikningnum, sem nú er nær einskis virði.
Þeir sem fengu lán hjá sparisjóðnum á þessum tíma fengu hins vegar stóran hluta ókeypis af þeim peningum sem ég átti á þessum reikningi.
Þessir peningar fóru því meðal annars í að kaupa húsnæði á Dalvík, sem ég hef aldrei átt nokkuð í, en liggja ekki hjá Sparisjóði Svarfdæla.
Þegar vextir eru neikvæðir, lægri en verðbólgan, hættir fólk almennt að leggja fyrir, eins og á áttunda áratugnum, og leggur peningana eins fljótt og það getur í steinsteypu.
Þeir einu sem þá eiga peninga í banka eru börn og gamalmenni.
Og íbúðarkaupendur eru þá snöggir að eignast þá peninga, sem þeir hafa aldrei átt sjálfir, með því að fá lán í banka eða sparisjóði og greiða þá ekki að fullu til baka, rétt eins og þegar ég var barn á áttunda áratugnum.
Peningar eru hins vegar eign, rétt eins og steinsteypa, og þjófnaður á hvoru tveggja varðar við lög.
72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir."
Stjórnarskrá Íslands
Þorsteinn Briem, 14.5.2013 kl. 20:56
Vandamálið er sú sjálfvirka peningaprentun sem felst í verðtryggingunni og líka sú ósjálfvirka sem felst í óheftu frelsi bankanna til að gefa út skuldabréf sem vísa hvert á annað.
Peningar eru eign, sem ekki má taka af neinum segirðu. Segðu það við verðbólguna sem tekur ekki peninga af fólki, en þynnir út hverja krónu þannig að í raun verða þær færri.
Þá segirðu eflaust, til þess er verðtryggingin, að bæta upp þessa rýrnun. Þá tekur verðbólgan bara til við að þynna út verðtryggðu krónurnar næst.
Verðtryggingin er því gagnslaus vernd gegn verðbólgu. Verðmætin í samfélaginu aukast ekki við það að fjölga peningaseðlum. Eina sem gerist þá er að alvöru verðmæti kosta bara meira en áður. Fjöldi fólks (og hrægamma) sitja samt uppi með innistæðulausa peningaseðla og vilja skiljanlega fá eitthvað fyrir þá.
Theódór Norðkvist, 15.5.2013 kl. 03:29
Theódór Norðkvist,
Þú getur að sjálfsögðu kallað þá sem fengið hafa eignir ókeypis hér á Íslandi með löglegum hætti hrægamma ef þú vilt, til að mynda þá sem fengu peninga að láni á áttunda áratugnum og greiddu þá engan veginn að fullu til baka.
Ég var ekki skyldugur þá til að eiga peninga í Sparisjóði Svarfdæla en það var nú ekki ætlast til að ég tæki þá strax út og keypti fyrir þá sælgæti.
Og þú heldur náttúrlega að húsnæði hérlendis, til að mynda á Dalvík, hafi almennt ekkert hækkað í verði frá áttunda áratugnum.
Þú ert væntanlega tilbúinn að lána mér eina milljón króna í eitt ár, ég greiði þér sömu upphæð til baka að ári liðnu, eða jafnvel einungis 900 þúsund krónur ,og þú takir áhættuna af því að ég greiði þér ekkert af upphæðinni til baka.
Ætli þú vildir ekki að ég greiddi þér eina milljón króna til baka ásamt raunvöxtum, vöxtum umfram verðbólgu á þessu eina ári sem þú lánaðir mér peningana.
En þú gætir að sjálfsögðu látið þessa einu milljón króna rýrna að verðgildi í bankahólfi sem næmi verðbólgunni á þessu eina ári, ef þú endilega vilt.
Þeir sem eiga peninga vilja að sjálfsögðu fá einhvern arð af þeirri eign, rétt eins og sá sem leigir út íbúðarhúsnæði sem er í hans eigu vill að sjálfsögðu fá leigu fyrir húsnæðið allan tímann sem hann leigir það út.
Og væntanlega hækkar hann leiguna á ársfresti, að minnsta kosti sem nemur verðbólgunni á hverju ári fyrir sig.
Þorsteinn Briem, 15.5.2013 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.