24.5.2013 | 10:40
Sérstaklega áberandi á beygjuljósum.
Það getur svo sem komið fyrir flesta að vera ekki nógu vakandi við umferðarljós og gera einhver mistök. En hins vegar er það greinilegt að íslenskir ökumenn eru áberandi slæmir í þessu efni á sumum gatnamótum þegar þeir aka yfir á beygjuljósi.
Ég hef um áraraðir þurft að fara um gatnamót Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar og gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla þar sem þetta er sérstaklega áberandi.
Þar hrúgast upp séríslensk vandamál hvað varðar greiða og örugga umferð.
Í fyrsta lagi áberandi seinagangur við að koma sér af stað þegar grænt ljós kemur. Þá má oft sjá allt að 20-30 metra bil á milli bíla sem fara yfir á beygjuljósi og að fyrstu bílarnir drattast ekki af stað, af því að þeir hugsa bara um sjálfa sig en ekki þá næstu á eftir.
Þetta er fyndið, því að á næstu gatnamótum gætu þeir lent í því að vera aftar í röðinni vegna þess að aðrir frekjuhundar fyrir framan þá standi í vegi fyrir því að þeir komist yfir. Og þá bölva þeir náttúrulega hinum ! Þetta er fyndið í aðra röndina, svona nánast samtök um það að gera sem flestum lífið leitt sitt á hvað !
Og stundum komast bara einn eða tveir bílar yfir, vegna þess að bílar sem koma frá hlið og beygja, halda áfram að fara yfir eftir rautt ljós er komið þar og stela þar með tíma frá bílunum á hinu ljósinu.
Sem sagt: Menn drullast ekki af stað fyrr en eftir dúk og disk eða halda áfram að fara yfir eftir að komið er rautt ljós. Og allir bölva öllum en halda þessari vitleysu samt áfram áratug eftir áratug.
Og síðan er áberandi að þegar mjög mikið álag er á gatnamótum halda menn samt áfram að hrúga sér inn á þau, þótt það blasi við að þeir festist þar og loki fyrir alla umferð um þau úr báðum áttum.
Í Bandaríkjunum er þetta algerlega bannað og liggur sekt við. Ég tel líklegt að aldrei hafi verið sektað fyrir svona framkomu hér á landi og að þetta muni halda áfram að gilda hér eins og margir aðrir ósiðir tillitslausra ökumanna, samanber myndina í pistlinum hér á undan.
P. S.
Set hér inn tvær ljósmyndir frá því síðdegis í dag.
Ökumaður, sem er á einum af minnstu og meðfærilegustu bílum sem völ er á, telur sig eiga heimtingu á að taka tvö bílastæði og leggja bílnum þannig að helmingur er í öðru stæðinu og hinn helmingurinn í hinu.
Sést vel á neðri myndinni hvernig mörk bílastæðanna eru undir miðjum bílnum.
Varaði sig ekki á því, ef með þessu var verið að meina öðrum aðgangi, að ég er á eina bílnum í flotanum, sem kemst af með hálft stæði.
Ökumenn virði rauða ljósið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hangsið það er hugarfarið,
í Hafnfirðinga það er barið,
ekkert er nú í þá varið,
aldrei taka þeir af skarið.
Þorsteinn Briem, 24.5.2013 kl. 15:40
Margir Íslendingar leggja of seint af stað á þann stað sem þeir ætla sér og keyra þangað eins og brjálæðingar.
Hinir dóla sér á bílnum margir hverjir eins hægt og þeir mögulega geta, skoða í búðarglugga og stansa jafnvel til að spjalla við þá sem þeir þekkja á gangstéttunum, til að mynda á Laugaveginum.
Umferðarmenning skiptir einnig máli á gangstéttum og í verslunum.
Flestir eru með stórar innkaupakerrur í matvöruverslunum og margir þeirra breiða úr sér sem mest þeir mega í miðjum gangveginum, þannig að illmögulegt er að komast framhjá þeim.
Og kerrurnar eru þar jafnvel enn á meðan þetta fólk, sem hugsar eingöngu um sjálft sig, sækir vörur í næstu hillu eða kæliborð.
Þeir sem eru með barnavagna halda sig einnig margir hverjir á miðri gangstéttinni, eins og þeir séu lafhræddir við að detta út af henni með vagninn.
Þorsteinn Briem, 24.5.2013 kl. 17:55
Vísa til P. S. sem ég bætti við pistilinn í kvöld með myndum af dæmigerðu tillitsleysi bílstjóra í umsetnu bílastæði fyrir utan stofnanir og fyrirtæki í Hamraborg í Kópavogi.
Ómar Ragnarsson, 24.5.2013 kl. 21:48
Bíllinn hægra megin á myndinni, er að bakka og beygja út úr sínu stæði þegar myndin er tekin og er því nær Yarisnum en hann hafði verið þegar ég kom á vettvang og "tróð mér með frekju" inn í hálfa stæðið yst.
Ómar Ragnarsson, 24.5.2013 kl. 21:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.