Ekki gefið stefnuljós í áratugi.

Niðurstaða skyndikönnunar lögreglu á stefnuljósanotkun kemur ekki á óvart. Svona hefur þetta verið í 60 ár.  

Ég á heima við Háaleitisbraut og hef átt heima með hléum við "botnlangann", sem ég bý við, í alls 30 ár. Það gerist minnst daglega og jafnvel oftar á dag að aka þarf úr þessum botnlanga út á Háaleitisbrautina og þá oftast til vinstri, sem þýðir það að það þarf að vera lag til þess á báðum akreinum, bæði til austurs og vesturs. 

Síðast, þegar kom niður botnlangann og varð að bíða við Háaleitisbrautina eftir því að færi gæfist á að beygja til vinstri, hefði það gefist fljótt og vel ef bílstjóri, sem kom úr austri, hefði nennt að gefa stefnuljós í tíma.

En hann gerði það ekki fyrr en hann var í þann veginn að taka beygjuna, svona eins og hann væri að gera þetta af frásagnargleði eftir á um þessa frábæru beygju sína.

Fyrir bragðið missti ég tækifærið sem annars hefði gefist til að komast út úr botnlanganum.

Ég fór að grafa niður í huga minn hvenær það hefði síðast gerst að bílstjóri hefði gefið stefnuljós í tíma á þessum stað.

En hvernig sem ég reyndi að grafa þetta upp, gat ég ekki munað eftir einu einasta skipti, sem nokkur bílstjóri hefði gert þetta.

Og það, sem fyndnast er, að þeir sem taka þessa beygju inn í botnlangann, komast ekki aðra leið til baka og verða þá sjálfir fyrir barðinu á öðrum bílstjórum, sem meina þeim að komast út á Háaleitisbrautina.

Þarna bölva því allir öllum en enginn gerir neitt til að breyta þessu.

Set síðan hér með mynd af nokkur hundruð metra langri biðröð bíla sem bíða í Síðumúla eftir því að komast í austur eða vestur eftir Fellsmúla.

IMG_8276

Í þessu ætlaði ég að beygja til hægri og áreiðanlega fyrir framan mig í röðinni.

En eins og sést planta bílstjórarnir, sem ætla til vinstri, bílum sínum þannig niður að þeir eru að hluta til á báðum akreinum og loka þannig leiðinni fyrir þeim, sem ætla að beygja til hægri.

Hægri beygjan er að sjálfsögðu miklu auðveldari og margfalt líklegra að komast þá leið en að beygja til vinstri þar sem báðar akreinar Fellsmúlans verða að vera auðar þegar ekið er inn á hann.

Þarna er búið að merkja tvær akreinar til þess að flýta fyrir umferðinni, sem auðvitað verður greiðari ef báðar akreinarnar eru notaðar og þar af leiðandi miklu styttri biðröð sem skiptir sér á tvær akreinar en ef allir hrúga sér yfir á aðra.

En myndin talar sínu máli. 

En í þessu tilfelli nægir bílstjórunum á vinstri akreininni ekki sín akrein, heldur telja sig þurfa hálfa hægri akreinina líka !

Í sumum öðrum tilfellum gætu þeir, sem eru á hægri akreininni smeygt sér framhjá, en þá erum við komin   að annarri takmörkun hæfileika íslenskra ökumanna, að hafa enga tilfinningu fyrir stærð bíls síns.

Það væri efni í annan pistil.  


mbl.is Einungis þriðjungur gaf stefnuljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ætíð hann á undan mér,
í umferðinni gleyminn,
enginn veit hvert ætlar sér,
allan á hann heiminn.

Þorsteinn Briem, 23.5.2013 kl. 21:22

2 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Eitt af því sem skellur framan í mann eins og kinnhestur, er umferðar-frekjan á Íslandi.

S.l. áratug hef ég átt fjölmargar skammtíma snertilendingar á landinu og fylgst náið með ökumönnunum í umferðinni. Því fylgir ákveðið kúltúrsjokk.

Þegar ég lendi í þvi að vera þvinguð út í móa, eða upp á stétt, þrátt fyrir að vera með stefnuljós til að komast inn á aðrein, finnur maður reiði-línið frussast um æðarnar. Það er eins og sumir ökumenn lendi aldrei í því að þurfa að skipta um akrein, eða komast inn á aðalbraut í þungri traffík. Hef stundum sagt í gríni að flottu umferðarmannvirkin á höfuðborgarsvæðinu eru annað hvort merki um að mannfjöldi er milljón, eða allir þurfa nánast einkaveg að keyra eftir.

Það verður langt í að hægt verði að leyfa hægri beygju á rauðu ljósi, eða 4 hliða stöðvunarskyldu, þar sem fyrstir koma, fyrstir fara reglan gildir til skiptis.

Það er eins og viðkunnalegasta fólk hreinlega umturnist undir stýri. Þetta er rannsóknarefni mannfræðinga.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 23.5.2013 kl. 23:20

3 identicon

Ég ákvað einn daginn að temja mér notkun stefnuljósa.  Má segja að ég hafi um lítið annað hugsað í akstri í 3-4 daga.  Þetta var fyrir rúmum 40 árum.  Síðan hef ég gefið stefnuljós, alltaf, án þess að þurfa að hugsa um það sérstaklega.  Það verður jafn sjálfvirkt og að beygja eða stíga á bremsu.  Ég stend mig að því stundum að gefa stefnuljós á bílastæðum!

Hitt er annað mál að mér leiðist að sjá bíla með stefnuljós á beygjuakreinum, þar sem aðeins er um eina akstursátt að ræða.

Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 23:50

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Íslenskir ökumenn:

Hjartveikir 10%,

heilabilaðir 15%,

heilalausir 20%,

gigtveikir 10%,

hafa aldrei fengið ökuskírteini 10%,

hafa misst ökuskírteinið 15%,

eru á Viagra í umferðinni 5%,

ölvaðir undir stýri 5%,

dópaðir undir stýri 5%,

í þokkalega góðu ástandi 5%.

Þorsteinn Briem, 24.5.2013 kl. 00:01

5 identicon

Þegar ég horfi á þessa mynd þá sé ég að það margborgar sig að fara Reyjarvikur rúntin á 44" jeppa frekar en yrais

Hjalti Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 01:11

6 identicon

Það eru til bílar með illa hönnuð stefnuljós sem ekki fara af þegar bílinn er réttur af og eru í ofanálag nánast hljóðlaus, þótt þau blikki í mælaborðinu. Ökumaðurinn skapar mikla hættu við næstu aðkomandi gatnamót, því sá sem bíður við gatnamótin telur að viðkomandi ætli að beigja og ekur fyrir hann.

Að sjálfsögðu er bílstjórinn sökudólgurinn.

Virða stefnuljós en ekki treysta þeim.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 12:13

7 identicon

,,Hann bróðir minn XXXXX, sem er búinn að vera leigubílstjóri í áratugi, segist aldrei nota stefnuljós.  Í fyrsta lagi þá eru perur í ljósin dýrar , í öðru lagi þá gefa stefnuljós engan rétt varðandi mál hjá tryggingarfélögum og þriðja lagi nota flestir stefnuljós til að segja manni hvað þeir eru búnir að gera."

Þetta sagði við mig kona , sem er í dag er komin á tíræðisaldur.

Er ekki eitthvað til í þessu hjá konunni ?

JR (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband