29.5.2013 | 09:07
Tvíþætt misrétti kynslóðanna og þöggun.
Rányrkja felur í sér misrétti kynslóðanna. Ein eða örfáar kynslóðir taka sér það vald að klára auðlindir svo að kynslóðirnar, sem á eftir koma, njóti einskis af þeim og standi jafnvel frammi fyrir stórfelldum óförum og vá vegna græðgi og siðleysi fyrri kynslóða.
Þetta er að gerast nú og í stað þess að Íslendingar séu til fyrirmyndar í auðlindanýtingu og auglýsi það óspart um allan heim að við séum það, gerum við í raun þveröfugt í stórum hluta orkunýtingar okkar og ætlum að bæta í með vinnslu olíu á Drekasvæðinu.
Samgöngutæki okkar eru þau mest mengandi í Evrópu. Við erum sóðar í þeim efnum og fleirum.
Olíuöldin hefur þegar náð hámarki, af því að héðan af verður æ dýrara og erfiðara að finna og vinna olíu, og eru hugmyndir um að vinna olíu á meira en þúsund metra dýpi á Drekasvæðinu gott dæmi um það.
Í ofanálag mun áframhaldandi og jafnvel vaxandi notkun olíu auka enn á misrétti kynslóðanna, vegna þess að komandi kynslóðir munu þá þurfa að fást við stórfelldari loftslagsvá og umhverfisvanda en dunið hefur yfir heimsbyggðina síðustu árþúsundin.
Til þyrfti að vera embætti umboðsmanns komandi kynslóða, sem hefði það hlutverk að tryggja hlut þeirra.
Væri svo, myndi hann beita sér fyrir því að frestað yrði að vinna olíu á Drekasvæðinu, ef hún er á annað borð vinnanleg, eða að minnsta kosti að gera áætlun um að dreifa vinnslu hennar yfir á minnst 200 ár, en það var viðmið "frumstæðra" indíánaþjóðflokka í Ameríku varðandi góðyrkju og sjálfbæra þróun í stað rányrkju.
Athyglisvert er, að á tveimur ráðstefnum í röð hafa ráðamenn kosið að svara ekki fyrirspurnum okkar Ara Trausta Guðmundssonar eða að svara þeim út í hött.
Mín fyrirspurn var varðandi það, hvort við Íslendingar skulduðum ekki sjálfum okkur og umheiminum það að sjá svo um að vera raunverulega í fararbroddi við að nýta "endurnýjanlegar orkulindir"í stað þess að fela hinn óþægilega sannleika, og spurning Ara Trausta á ráðstefnunni í gær var í raun um það sama, en um annað svið orkunýtingar.
Það er umhugsunarefni fyrir fleiri en okkur, að spurningar okkar, sem eru grundvallarspurningar á heimsvísu, teljist ekki svaraverðar.
Í gangi er síbylja rangra fullyrðinga og þöggun varðandi annað en það, sem passar fyrir þessa síbylju. Sömuleiðis þöggun gagnvart þeim sem spyrja óþægilegra spurninga.
Íslendingar hætti við olíuleit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála hverju orði Ómar, verst að þeir sem ráða vilja ekki taka á vandanum; "embætti umboðsmanns komandi kynslóða" það ætti að vinna í því að slíkt embætti verði til! Kær kveðja Katrín
Katrín Matthíasdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2013 kl. 09:29
Sæll.
Hvenær ætla umhverfisverndarsinnar að átta sig á því að sólin veldur auknum hita? Eru menn ekki enn búnir að fá veður af nýjustu skýrslu SÞ?
Helgi (IP-tala skráð) 29.5.2013 kl. 10:11
"Koldíoxíð dreifist jafnt um allan lofthjúpinn, sama hvar upptökin eru.
Borkjarnar úr Grænlandsjökli hafa loftbólur sem geta sagt sögu andrúmsloftsins langt aftur í tímann og styrkur koldíoxíðs, sem var um 280 ppm fyrir iðnvæðingu, er nú um 390 ppm.
Aðrar náttúrulegar gróðurhúsalofttegundir, svo sem díköfnunarefnisoxíð (N2O) og metan (CH4), eru einnig að aukast af mannavöldum, hið fyrra vegna dreifingar á áburði og framleiðslu saltpéturssýru en hið síðara kemur frá jórturdýrum, sorphaugum, viðarkyndingu og vinnslu jarðgass og kola."
Um gróðurhúsalofttegundirnar - Veðurstofa Íslands
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 10:18
Vísindavefurinn:
"Vitað var að CO2 er mikilvirk gróðurhúsalofttegund og því þótti ástæða til að fylgjast með styrk þess í lofthjúpnum."
"Frá upphafi iðnbyltingar (um 1750) hefur hlýnað á jörðinni og á síðustu 100 árum er hlýnun við yfirborð rúmlega 0,7°C."
"Á norðurhveli færðist vorbráðnun fram um nærri tvær vikur á tímabilinu 1972 til 2000 og snjór nær nú mestri útbreiðslu í janúar í stað febrúar áður."
"Hörfun jökla frá 19. öld er víðtæk og nær jafnt til fjalljökla á norður- og suðurhveli, sem og í hitabeltinu."
"Hafís á norðurhveli hefur minnkað, sérstaklega sumarísinn í Norður-Íshafi, sem hefur minnkað um 7,4% á áratug."
"Mælingar sýna merkjanlega hlýnun sjávar á tímabilinu 1961 til 2003 og að varmainnihald efstu 700 metra heimshafanna hefur aukist frá miðjum 6. áratug síðustu aldar."
"Aukning á styrk CO2 í lofthjúpnum leiðir til aukinnar upptöku hafsins, sem sýrir hafið og það hefur súrnað um 0,1 pH stig að meðaltali frá upphafi iðnbyltingar."
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 10:23
Nú þarf öfgaliðið að fá sér græna búninga og græn gleraugu, og mæta svo fyrir framan Umhverfisráðuneytið.Það verður gaman að sjá.
Sigurgeir Jónsson, 29.5.2013 kl. 10:44
Þetta er sem sagt samkvæmt kenningum austfirskra leigubílstjóra:
29.11.2012:
"Alþjóðaveðurfræðistofnunin hefur sent frá sér fréttatilkynningu ásamt 14 blaðsíðna yfirliti yfir veðurfar á heimsvísu það sem af er þessu ári (2012).":
"The years 2001-2011 were all among the warmest on record, and, according to the World Meteorological Organization, the first ten months indicate that 2012 will most likely be no exception despite the cooling influence of La Niña early in the year."
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 10:45
"Vindgangur stafar af því að bakteríur í ristlinum sundra ómeltanlegum kolvetnum og mynda um leið vetni og koltvíildi.
Gastegundirnar berast síðan út um endaþarmsopið sem prump.
Í um þriðjungi manna myndast einnig metan en ekki er vitað af hverju það myndast í sumum [til að mynda Davíð Oddssyni] en öðrum ekki."
Vísindavefurinn - Af hverju er lykt af prumpi Sjálfstæðisflokksins?
"Í Bretlandi eru heildaráhrif á loftslagið eftir gróðurhúsalofttegundum nokkurn veginn á þessa leið: koldíoxíð (86%), metan (7%), nituroxíð (6%) og lofttegundir frá kælitækjum (1%)."
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 10:51
Allt er vænt,sem vel er grænt.Slagorð Framsóknarflokksin allt frá stofnun 1916.
Sigurgeir Jónsson, 29.5.2013 kl. 10:57
Brímakettir leysa vind í Sörlaskjólinu.Og Breim þeirra blandast prumphljóðunum.
Sigurgeir Jónsson, 29.5.2013 kl. 11:00
Hér er verið að ræða um mjög örar loftslagsbreytingar af mannavöldum en ekki náttúrulegar breytingar.
Vísindavefurinn:
"Síðan 1958 hefur styrkur koltvíoxíðs í andrúmsloftinu verið mældur á eyjunni Mauna Loa í Kyrrahafi og er mynd af niðurstöðunum aðgengileg á vefnum.
Myndin sýnir vel hina stöðugu aukningu koltvíoxíðsstyrksins."
"Regnskógareyðing er í öðru sæti, á eftir notkun jarðefnaeldsneytis, yfir það sem veldur mestri koltvíildismengun á jörðinni.
Skógareyðing á einum degi losar meira koltvíildi út í andrúmsloftið en tugþúsundir flugvéla sem fljúga milli Bandaríkjanna og Evrópu."
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 11:04
Ég tek undir orð Ómars.
Það er frekar óhugnalegt að fylgjast með umræðunni og æðinu sem er að renna á þjóðina - það vilja allir hagnast á olíunni - og jafnvel fólk sem maður hefur talið skynsamt fær olíuglampa í augun. Á Norður- og Austurlandi fer fram einhvers konar barátta um það hver fái þann heiður að fá að þjónusta olíuiðnaðinum - mjög fáir spyrja spurninga og lítil svör fást.
Ég tel að þeir sem sjá þetta sem raunhæfan kost verði að horfa fram hjá nokkrum mikilvægum atriðum (þ.e. stinga höfðinu djúpt ofan í olíusandinn):
1. Óljóst er hvort nokkurn tíman verði vinnanleg olía á þessu svæði. Fræðilega er þetta vissulega áhugavert, en ég tel þetta samt vera peningasóun, bæði að rannsaka og að byggja upp þjónustusvæði.
2. Bruni jarðefnaeldsneytis úr þeim olíulindum sem þekktar eru á jörðinni og tiltölulega auðvelt er að nálgast, er mun meira en loftslag jarðar ræður við.
3. Í þeirri niðursveiflu sem notkun jarðefnaeldsneytis verður óhjákvæmilega þegar fram líða stundir, þá mun það vart svara kostnaði að vinna olíu við jafn erfiðar aðstæður og eru á Drekasvæðinu.
4. Olíuvinnsla á svona djúpu vatni á svona hættulegu svæði er í hróplegri mótsögn við verndun hafsvæða og norðurslóða og ekki áhættunnar virði - við erum að tala um svæði þar sem myrkur er hálft árið, hversu erfitt verður að hindra olíuslys ef eitthvað fer úrskeiðis (eins og gerist reglulega)?
5. Mikil umferð olíuskipa myndi síðan alvarlega ógna lífríki við Íslandsstrendur.
Höskuldur Búi Jónsson, 29.5.2013 kl. 11:07
Olía er unnin á norðurströnd Alaska sem er á svipaðri breidd og svæðin eru á við austur Grænland og Drekasvæðið.Að vísu er sú olía unnin á landi.Að halda að íslendingar geti bjargað heiminum með því að berjast gegn notkun olíu í heiminum er hreint rugl,og líkist helst stórmennskubrjálæði.En olían klárast einhvern tíma það er engin spurning.Og hún á eftir að hækka.Og hvað skyldu þá margir ferðamenn koma til íslands.Og að halda því fram að ekki sé hægt að sigla olíuskipum á norðurslóðum vegna hættu fyrir lífríkið er rugl.Hægt er að hafa eftirlit með hafís á þann hátt að engin hætta stafi af honum fyrir siglingar.Og sigling þeirra fer fram á opnu hafi.Á þröngum siglingaleiðum Asíu þar sem verið er jafnvel að sigla innan eyja og skerja er miklu meiri hætta fyrir lífríkið.
Sigurgeir Jónsson, 29.5.2013 kl. 12:18
16.5.2013:
"Niðurstöður nýrrar könnunar á þúsundum rannsókna sem gerðar voru á árunum 1991-2011 sýna yfirgnæfandi og vaxandi samstöðu meðal vísindamanna um að mannkynið beri langmesta ábyrgð á hlýnun jarðar.
Rúmlega 97% rannsókna á tímabilinu komust að þessari niðurstöðu."
"Vísindamenn frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada skoðuðu yfir fjögur þúsund vísindarannsóknir sem gerðar höfðu verið 1991-2011, þar sem afstaða var tekin til þess hvort að mannkynið bæri ábyrgð á hnatthlýnun.
Rúmlega tíu þúsund vísindamenn voru skrifaðir fyrir rannsóknunum.
Niðurstöðurnar voru skýrar, yfir 97% sögðu að hnatthlýnun væri af mannavöldum.
Þá fór fjölda þeirra, sem töldu aðrar útskýringar líklegri, fækkandi eftir því sem leið á tímabilið sem var til skoðunar."
Nær allir vísindamenn sammála um orsakir hnatthlýnunar
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 12:43
"Ísland gegn olíu" er álíka galið og "Ísland fyrir heimsfriði".
Græn-jaxlar gera sér ekki grein fyrir að meginþorri véla (skip, flugvélar, bílar) ganga á olíu.
Á máski næst að berjast fyrir því að siglingar verði lagðar af, svo og flug?
Óskar Guðmundsson, 29.5.2013 kl. 12:52
Vélar geta sem sagt ekki gengið fyrir neinu öðru en jarðefnaeldsneyti?!
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 13:02
Hvert einasta 300 þúsund manna samfélag í heiminum getur sagt að það sé galið að það geti eitt og sér haft nein áhrif sem máli skipti á nýtingu jarðefnaeldsneytis. Og þar með sé komin röksemdin fyrir því að enginn geri neitt.
Við Íslendingar höfum þá sérstöðu að geta knúið bæði bíla og skip með öðrum orkugjöfum en olíu en hvergi gengur hægar að breyta því en hér, enda hamast gegn því.
Ómar Ragnarsson, 29.5.2013 kl. 13:40
Hinn óþægilegi sannleikur er að ekkert hefur hlýnað síðustu 10-15 ár þrátt fyrir vaxandi magn koldíoxíðs í andrúmslofti. Náttúran neitar einfaldlega að fara eftir kenningum um hlýnun af mannavöldum. Keisarinn er ekki í neinum fötum.
Finnur Hrafn Jónsson, 29.5.2013 kl. 18:05
Veðurstofa Íslands 2008 - Hnattrænar breytingar loftslags og áhrif þeirra hér á Íslandi, bls. 17
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 18:28
"Árið [2012] var mjög hlýtt, sérstaklega um landið vestanvert.
Ekkert lát virðist vera á hlýindunum miklu sem hófust skömmu fyrir aldamót."
"Í Reykjavík er árið það sautjánda í óslitinni röð ára þar sem árshitinn er yfir meðallagi og það fjórtánda á Akureyri.
Meðalhitinn í Reykjavík var 5,5 stig og er það um 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og í meðallagi sé miðað við árin 2001 til 2010."
Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig, sem er 1,1 stigi ofan meðallags.
Tíðarfar hér á Íslandi árið 2012 - Trausti Jónsson veðurfræðingur
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 18:34
"Trausti Jónsson, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofu Íslands, segir að í grunninn hafi hlýindin síðastliðin 15 ár haldið áfram.
Norðanáttin sem leikið hafi suma landshluta grátt í vetur hafi verið hlýrri en venjulega og þar af leiðandi úrkomusamari.
Í rauninni megi því segja að hlýindin hafi orsakað snjóþyngslin fyrir norðan og austan, eins undarlega og það kunni að hljóma.
"Norðanáttin er samt aldrei hlý, hún er kaldasta áttin, en hefur verið hlýrri en venjulega og óvenjulega ríkjandi," segir Trausti.
Þar sem snjóþyngslin hafi verið mikil bráðni snjórinn hægt, þrátt fyrir að farið sé að hlýna.
Á meðan tún séu ennþá hvít endurkastist sólarljósið af þeim og snjórinn bráðni því síður en um leið og fari að glitta í jörð gangi bráðnunin hraðar fyrir sig."
Hlýindi valda snjóþyngslum
Þorsteinn Briem, 29.5.2013 kl. 18:42
Menn þurfa ekki að hafa áhyggjur. Aðstæður á svæðinu og engin olía sér til þess. Guði sé lof.
Jónas (IP-tala skráð) 29.5.2013 kl. 19:36
Ef ég man rétt urðu sænskir bændir fúlir á sínum tíma þegar þeim var bent á að sænskar kýr losuðu meiri gróðurhúsalofttegundir (metan) en allt sænska innanlandsflugið.
Jón (IP-tala skráð) 29.5.2013 kl. 21:46
Sumir halda að þeir séu merkilegri en aðrir. Hér er maður sem hefur alla sína tíð verið notandi olíuafurða, ekki bara sem venjulegur neytandi, heldur hafði hann það áhugamál á sínum tíma að keppa í akstursíþróttum. Ekki nóg með að hann væri þar með orðinn neytandi olíuafurða langt umfram grunnþörf og langt umfram meðaljónin, heldur hefur hann líka í áratugi þvælst um hvippin og hvappin á sinni einkaflugvél. Maðurinn er semsagt stórnotandi olíuafurða og hefur verið það í áratugi.
Nú er þessi maður á móti því að íslendingar bori eftir og hugsanlega selji olíu sjálfum sér til hagsbóta. Ef þetta er ekki hræsni þá veit ég ekki hvað hræsni er. Einnig hefur þessi maður verið mótfallin nánast allri framleiðslu á vistvænni orku, hvort sem er með vatnsafli eða jarðvarma. Þetta er orðið mikið meira en hræsni, þetta er ótrúleg ósvífni.
Sá aðili sem neytir olíuafurða en er á móti því að íslendingar bori eftir og selji olíu er það ekki vegna umhverfisverndar, það eru allt aðrar hvatir þar að baki. Sá aðili dæmir sjálfan sig úr leik í umræðunni um orkuframleiðslu og náttúruvernd og verður að teljast í besta falli óttalegur þöngulhaus.
Bjarni (IP-tala skráð) 30.5.2013 kl. 00:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.