30.6.2013 | 15:02
"Vespa" er vörumerki. Frekar "skutla".
Íslendingar hafa löngum verið iðnir við það að nefna nýja hluti sama nafni og fyrsti framleiðandinn, sem tókst að koma þeim á markað hér á landi.
Þannig var dýptarmælir kallaður Asdik í mörg ár eftir að hann kom til landsins, og enn í dag er eimir af því frá árdögum Sjónvarpsins þegar myndbandstæki voru kölluð ampex og meira að segja myndbandsdeildin líka !
Þá og nú er þetta til dæmis enn sprellifandi þegar talað er um hann "Ella á Ampex."
Þegar framleiðandinn Vespa á Ítalíu fór að fjöldaframleiða nýja tegund lítilla vélhjóla eftir stríð tóku Íslendingar strax upp heitið vespa um fyrirbærið.
Hjólin eru í stuttu máli öðruvísi en venjuleg vélhjól að því leyti, að í stað þess að hreyfillinn sé í miðju hjólsins á milli fram- og afturhjóls, er hreyfillinn alveg upp við afturhjólið, beintengdur í það og fjaðrar meira að segja upp og niður með hjólinu.
Við það skapast þægilegt opið rými fyrir fætur ökumannsins sem þar að auki verða í góðu skjóli á bak við hlíf aftan við framhjólið.
Í nágrannalöndum okkar er þetta fyrirbæri kallað "scooter" eða "roller." Eðilegt heiti hér á landi væri "skutla."
Vespa er vörumerki og á tímabili var meira að segja framleiddur fjögurra hjóla smábíll undir heitinu Vespa 400.
"Skutlurnar" hafa þróast í ýmsar áttir síðustu árin og til dæmis er til fyrirbærið "sofascooter", þ. e. "lúxus-skutla" eða "sofaskutla", þar sem skutlan er orðin að eðalfarartæki með öllum hugsanlegum þægindum.
Þar trónir efst Suzuki Burgman 650, sem er eitt af þessum draumhjólum, sem ég geymi á bak við eyrað, næstum 300 kílóa glæsifarartæki, eins og sést hér myndinni.
Á markaðnum eru enn hjól með vörumerkið "Vespa" og því skondið að öll önnur hjól, sem framleidd eru af öðrum verksmiðjum hafi þetta heiti hér á landi, skuli bera þetta nafn, svona álíka og að allir bílar væru kallaðir "ford" af því að Ford T var fyrsti bílinn, sem ruddi bílum braut hér á landi.
"Skutla" og "Sófaskutla", lægju beinast við ef miðað er við erlendu heitin "scooter" og "sofascooter".
Biðlistar eftir rafmagnsvespum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mörlandanna mörg er synd,
með mögrum skvísum gutla,
en æðisleg er Inga Lind,
algjör sófaskutla.
Þorsteinn Briem, 30.6.2013 kl. 15:37
Þetta er líka algengt í Ensku, þar sem ryksuga er enn oft kölluð ´hoover´í Englandi, og ákveðnar matvinnsluvélar eru enn kallaðar "magimix". En Íslendingar eru þekktir fyrir góð nýyrði og ég er mjög stoltur af því. Mér líkar "skutla" fyrir scooter.
Axel Guðmundsson (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 15:43
Eðlilegt heiti er bara vespa. Er eitthvað að því nafni? Sem þýðir geitungur á ítölsku
Gunnar (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 15:46
Nafnið vespa er flott, hljómar vel í íslensku máli.
Átti svona apparat í fáein ár þegar ég var í læri í Þýskalandi.
Hinsvegar engin "skutla", fremur "trunta".
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 17:00
Hjá okkur krökkunum voru létt bifhjól alltaf kölluð skellinöðrur til aðgreiningar frá mótorhjólum
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.6.2013 kl. 17:31
Mér er sama hvað fyrirbærið heitir - en það þarf að setja á það bjöllur. Og skylda ökumanninn til þess að nota þær!
Þessi farartæki laumast hljóðlaus aftan að gangandi vegfarendum á gangstéttum, sem eiga sér ekki ills von og aðeins tilviljun hvort viðkomandi er nógu sprækur til þess að hoppa undan og nógu getspakur til þess að hoppa í rétta átt.
Reyndar ætti bjölluskyldan að gilda um reiðhjól líka.
Kolbrún Hilmars, 30.6.2013 kl. 19:05
30.6.2013 (í dag):
Rafmagnsvespur verða skráningarskyldar
Þorsteinn Briem, 30.6.2013 kl. 20:36
Pepsí er kallað Kók hérna. Eins og allir kóladrykkir.
Sum orð eru bara svo heppilega til þess að stela og nota á allt svipað.
Ásgrímur Hartmannsson, 30.6.2013 kl. 22:48
Sammála þér Ómar - og þetta hefur lengi pirrað mig. Þegar menn eru að auglýsa vespur til sölu og svo kemur í ljós þegar betur er að gáð að það er alls ekki um þessa Ítölsku gæðavöru að ræða heldur eitthvað Kínverskt apparat. Sem er örugglega fínt, en það er bara ekki Vespa! Skutla er fínt nafn yfir þessa "scooter-a" og væri gott ef það festist.
Og Ásgrímur, það að kalla Pepsi Kók er svo ég viti ekkert sérlega útbreitt. Það er hinsvegar reyndar alvega óþolandi algengt þegar maður pantar Kók á veitingahúsum að manni sé afhent Pepsi. Það er bara eins og ef þú pantaðir Ballantines og fengir Jim Beam - þetta bara er ekki sami hluturinn.
Jón Kjartan Ingólfsson (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 01:05
Eins og bent hefur verið á í athugasemdum hér að ofan er það ekkert séríslenskt fyrirbæri að vörumerki verða að samheitum fyrir einhverja vöru, gott dæmi sem nefnt var er "hoover" en þau eru mýmörg fleiri, má nefna "aspirine" "xerox" "kleenex" "heroin" og jafnvel "vespa" sums staðar - fleiri dæmi hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Generic_trademark
Björn Thorarensen (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 02:23
Husqvarna framleiddi líka létt bifhjól áþekk Vespunni fyrir rúmlega 40 árum. En að allt öðru en þó vespu, las (sennilega ) blaðagrein fyrir nokkrum árum um konur sem kallaðar eru vespur ( eða svo vildi greinarhöfundur kalla þær uppá íslensku ), fyrir einhvern lífsstíl. Wesps eða wasp man ekki.
eyjaskeggi (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 08:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.