Af hverju eru Danir og Ungverjar með sérreglur "á gráu svæði"?

Danir og Ungverjar eru í ESB. Samt hafa Danir notið þeirrar undantekningar að útlendingar geti ekki keypt sumarhús þar eða jarðir þótt Danir megi gera slík kaup í öðrum ESB-löndum. 

Af hverju fengu Danir þessa undantekningu frá reglunni um gagnkvæman rétt þjóða ESB til eignakaupa í öðrum löndum bandalagsins?

Það hlýtur að vera vegna þess að stærðarmunurinn á málsaðilum er svo gríðarlegur, Danir aðeins innan við 2% af mannfjölda ESB.

Stærðar- og aðstöðumunurinn á Íslendingum og öðrum þjóðum sem eiga aðild að ESB og EES, er 15 falt meiri en munurinn á Dönum og ESB-þjóðunum.

Íslendingar, innan við 0,1% af mannfjöldanum á EES-svæðinu, munu aldrei eiga minnstu möguleika á að kaupa jafn stóran hlut af fasteignum og jörðum í ESB-löndum og þau geta keypt hér. Það ríkir ekkert jafnræði heldur stórfelldur aðstöðumunur og því út í hött að tala um jafnræði og gagnkvæmni. 

Margir höfðu áhyggjur af því þegar við gengum í EES að útlendingar myndu sópa til sín eignum hér á landi. Sem betur fer hefur það ekki gengið eftir ennþá, en það gæti breyst með breyttum aðstæðum, til dæmis vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu og siglingum.

Einar Þveræingur notaði þau rök gegn því að gefa Noregskonungi Grímsey, að enda þótt einhverjir teldu að sá konungar væri ágætasti maður, vissi engin hverja menn þeir hefðu að geyma sem kæmu á eftir honum.

Ungverjar fóru í fyrra af stað með reglur í ætt við það, sem Danir hafa sett. Ungverjaland er næstum eins stórt og Ísland en íbúarnir meira en 30 sinnum fleiri.

Af hverju eru Danir og Ungverjar með sérreglur "á gráu svæði"? Er þetta svæði svo "grátt" eftir allt?

Af hverju getum við ekki gert það sem Danir gera?

Með því að falla frá því að við höfum rétt á að gera eins og þeir er samningsaðstaða okkar í þessum efnum veikt í framtíðinni. 

Þess má geta í þessu sambandi að það var skúffufyrirtæki í Skotlandi, sem átti að reisa risaolíuhreinsistöð í Arnarfirði, þótt það væru Rússar sem í raun stóðu á bak við það. 

Það bendir til þess að þeir útlendingar utan EES sem ágirnast eignir og jarðir hér á landi, finni sér leið til að ráða yfir fyrirtækjum innan EES sem síðan annast kaupin. 

Mér sýnist, að í staðinn fyrir að standa vaktina varðandi eign Íslendinga yfir landinu og auðlindum þess, sé verið að draga úr henni með niðurfellingu reglugerðar um fasteignakaup útlendinga.  


mbl.is Nemur reglugerð Ögmundar úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðildarumsókn að Evrópusambandinu:

Landbúnaðarmál:


"Meirihlutinn telur eðlilegt að horft verði til þess hvort skynsamlegt geti verið að fara fram á takmarkanir á rétti þeirra sem ekki hafa lögheimili og fasta búsetu á landinu til að eignast fasteignir hér á landi með tilliti til þess að viðhalda búsetu í sveitum.

Bendir meirihlutinn hvað þetta varðar meðal annars á samsvarandi sérreglur Möltu og Danmerkur."

Þorsteinn Briem, 25.7.2013 kl. 19:45

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skýrsla Evrópunefndar lögð fram af Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í mars 2007, sjá bls. 77-79:

"Varanlegar undanþágur og sérlausnir:"

"Komi upp vandamál vegna ákveðinnar sérstöðu eða sérstakra aðstæðna í ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu er reynt að leysa málið með því að semja um tilteknar afmarkaðar sérlausnir.

Eitt þekktasta dæmið um slíka sérlausn er að finna í aðildarsamningi Danmerkur árið 1973 [fyrir fjórum áratugum] en samkvæmt henni mega Danir viðhalda löggjöf sinni um kaup á sumarhúsum í Danmörku.

Í þeirri löggjöf felst meðal annars að aðeins þeir sem búsettir hafa verið í Danmörku í að minnsta kosti fimm ár mega kaupa sumarhús í Danmörku en þó er hægt að sækja um undanþágu frá því skilyrði til dómsmálaráðherra Danmerkur."

"Ekki er hins vegar um að ræða undanþágu eða frávik frá banni við mismunum á grundvelli þjóðernis og íbúar annarra aðildarríkja sem uppfylla skilyrði um fimm ára búsetu geta því keypt sumarhús í Danmörku."

Í þessu tilviki "er í raun um að ræða frávik frá 56. grein stofnsáttmála Evrópusambandsins, sem bannar takmarkanir á frjálsu flæði fjármagns."

"Mikilvægt er að hafa í huga að aðildarsamningar að Evrópusambandinu hafa sömu stöðu og stofnsáttmálar sambandsins og því er ekki hægt að breyta ákvæðum þeirra, þar á meðal undanþágum eða sérákvæðum, sem þar er kveðið á um, nema með samþykki allra aðildarríkjanna [í þessu tilviki einnig Danmerkur]."

Þorsteinn Briem, 25.7.2013 kl. 20:08

3 identicon

Sæll Ómar. Held ég deili áhyggjum með þér. Það er næsta auðvelt að kaupa upp mikið af landi hér. Mér finnst prinsippmál að Íslendingar eigi Ísland. Fasteign er ekki sama og fasteign og er himinn og haf á milli þess að leyfa fólki að eiga íbúðir eða atvinnuhúsnæði og að leyfa eign eða afnotarétt til langs tíma á landi. kv

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 25.7.2013 kl. 20:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Malta samdi um svipaða sérlausn í aðildarsamningi sínum að Evrópusambandinu og samkvæmt bókun við aðildarsamningin má Malta viðhalda löggjöf sinni um kaup á húseignum á Möltu og takmarka heimildir þeirra sem ekki hafa búið á Möltu í að minnsta kosti fimm ár til að eignast fleiri en eina húseign á eyjunni.

Rökin fyrir þessari bókun eru meðal annars að á Möltu sé takmarkaður fjöldi húseigna og takmarkað landrými fyrir nýbyggingar og því sé nauðsynlegt að tryggja að nægilegt landrými sé til staðar fyrir búsetuþróun núverandi íbúa.

Í þessu tilviki er í raun einnig um að ræða frávik frá 56. grein stofnsáttmála Evrópusambandsins, sem bannar takmarkanir á frjálsu flæði fjármagns."

Þorsteinn Briem, 25.7.2013 kl. 20:31

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Ég er þannig þenkjandi, að finnast veraldlegar eignir ekki mikilvægastar. Ég skil alltaf betur og betur að ekki hafa allir eins verðmætamat og ég.

Eins og þú veist, þá eru eiturlyfjasalar og álíka hættulegir hvítflibba-heims-mafíukóngar, aðal stjórnendur banka/lífeyrissjóða á Íslandi og víðar á vesturlöndum.

Það er margt sem bendir til að nú eigi að herða á reglum ESB gagnvart Danmörku, vegna einhverra styrkja-reglugerðar-rugltúlkunar. Danir borga háa skatta (ca. 40%) til að standa undir sínu vel virka og lýðræðislega velferðarkerfi, og hafa þó lífvænleg nettó-laun eftir. Þó er Yfirstjórnin í ESB að kvarta yfir Danmörku?

Svo ætlar karlrembuliðið núna að koma Angelu Merkel út úr ESB-stjórnarklíkunni, með áróðri og fjölmiðlalygum, í sambandi við Snowden-málið! Merkel er eina konan, og heiðarlegasta manneskjan í þessari ESB-stjórn!

AGS/EES/ESB er að missa glans-grímuna, og byrja að sýna rétta andlit grimma og gráðuga heimsveldisins (Breska?).

Ég styð Danmörk, Þýskaland og aðrar þjóðir, í stríðinu við heimsveldið í píramída-toppnum.

Sannleiks-heildarmyndin er því miður ekki efst á baugi, hjá heimsveldis-herteknum vestrænum fjölmiðlum.

Svíþjóð verslar með hergögn, með stórgróða, sem ekki samræmist friðarhugsjónum ESB. Svíþjóð vill tilnefna Snowden sem friðar-nóbels-þega? Svíþjóð er ógn við öryggi Julían Assange?

Það er margt sem ekki passar, í fréttaflutningi opinberra vestrænna og heimsveldis-hertekinna fjölmiðla!

Við megum ekki sofna á gagnrýnivaktinni (rýna til gagns).

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.7.2013 kl. 21:02

6 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Danir sömdu um slíkar reglur innan ESB/EES/Norðurlandanna, en þær ná heilsárshúsa og sumarbústaða í Danmörku. Þessar reglur hafa komið til vegna ótta dana um að útlendingar mundu kaupa upp allt húsnæði í Danmörku, sá ótti var innistæðulaus og ekki byggður á neinum staðreyndum. Enda er farið að tala um það hérna í Danmörku að fella þessar reglur úr gildi. Þó er engin niðurstaða komin í það ennþá.

Það er nánar farið yfir þetta hérna.

http://www.norden.org/is/nordurloend-fyrir-thig/flytja-innan-eda-til-nordurlanda/flytja-til-danmerkur/husnaedi-i-danmoerku

Jón Frímann Jónsson, 25.7.2013 kl. 21:21

7 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er heill frumskogur af reglugerðum í EU og þessi mest opnu lönd eru með allskonar skatta lög sem þeir setja á kaupendur. Oftast er fasteignir hús og íbúðir en þeir sem vilja ættu að lesa þessa könnun sem var gerð. Sjá slóð

http://www.eui.eu/Documents/DepartmentsCentres/Law/ResearchTeaching/ResearchThemes/EuropeanPrivateLaw/RealPropertyProject/GeneralReport.pdf

Valdimar Samúelsson, 25.7.2013 kl. 22:20

8 identicon

Það er mikill munur á því hvort verið er að kaupa sumarbústað og lóðina líka eða bara sumarbústaðinn einan,nú held ég að Hanna Birna hafi hlaupið illilega á sig, því gífurlegt magn af skítugu fjármagni bíður þess út um allan heim að komast í öruggt skjól, og vona ég að þetta verði stoppað strax í fæðingu,það yrði aldeilis þokkalegt ef helstu bújarðir landsins verða keyptar fyrir skítugt fjámagn, svo fá þeir þetta með 50% afslætti eins og krónan stendur í dag.

Ef þetta gengur eftir verður þjóðin ekki sjálfbær um sínar brýnustu nauðþurftir,svo sem mjólk og kjöt.þetta verður að stoppa strax.

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 25.7.2013 kl. 22:30

9 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Gleymdi að minnast á að að bankarnir hafa sankað til sín stórum hluta af jörðum á Íslandi, ekki síður en íbúðum víðs vegar um landið. Það er skylda Íslands samkvæmt þessu ESB-reglugerðar-rugli að vera sjálfbær með matarbirgðir. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir þeirri reglu-kröfu?

Ekki get ég lifað heilbrigðu lífi á eintómu grasi/grænmeti, þótt sumir komist vel af á þannig fæðu. Það eru ekki allir eins. 

Enginn veit svo hverjir "eiga" bankana, sem hafa tekið sér það sem þeir vilja, án dóms og rétt-lætis.

Það er auðvelt að stela, ef lögin, fjármálaeftirlitið, ríkis-fjölmiðillinn og dómstólar hjálpa til við þjófnaðinn.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.7.2013 kl. 23:08

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ekki verið að tala um jarðir/lóðir, einungis húsnæði

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.7.2013 kl. 09:22

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jarðir eru að sjálfsögðu fasteignir, af fasteignum eru greidd fasteignagjöld og fasteignasalar selja jarðir.

"Fasteign merkir í lögum þessum afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt."

Jarðalög nr. 81/2004


Fasteignagjöld og fasteignamat bújarða


"1. gr. Enginn má öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á landi hér, þar á meðal veiðirétt, vatnsréttindi eða önnur fasteignaréttindi, hvort sem er fyrir frjálsa afhendingu eða nauðungarráðstöfun, hjúskap, erfðir eða afsal, nema þeim skilyrðum sé fullnægt sem nú skal greina:

1. Ef einstakur maður er þá skal hann vera íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi.
..."

Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966


Reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum, nr. 702/2002

Þorsteinn Briem, 26.7.2013 kl. 12:54

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Aðilar, sem njóta réttar hér á landi samkvæmt reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) um frjálsa för fólks, staðfesturétt, þjónustustarfsemi eða fjármagnsflutninga, geta öðlast heimild yfir fasteign hér á landi án leyfis dómsmálaráðherra, enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna,"

Reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum, nr. 702/2002


Á Evrópska efnahagssvæðinu eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein og í EFTA eru Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein.

Þorsteinn Briem, 26.7.2013 kl. 13:25

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í aðildarsamningi Íslands Evrópusambandinu gætu hins vegar verið takmarkanir á rétti þeirra sem ekki hafa lögheimili og fasta búsetu hér á Íslandi til að eignast fasteignir hérlendis, rétt eins og í aðildarsamningum Danmerkur og Möltu.

Og aðildarsamningar að Evrópusambandinu hafa sömu stöðu og stofnsáttmálar sambandsins og því er ekki hægt að breyta ákvæðum þeirra, þar á meðal sérákvæðum, sem þar er kveðið á um, nema með samþykki allra aðildarríkjanna, í þessu tilviki einnig Íslands.

Þorsteinn Briem, 26.7.2013 kl. 13:39

14 identicon

Varanlegar undanþágur eru í Danmörku (fólk með lögheimili utan Danmerkur fær ekki að kaupa sumarhús), á Möltu (takmörkun á rétti fólks sem ekki hefur lögheimili á Möltu til kaupa á fasteignum og landi) og á Álandseyjum (en þar er útlendingum - þeim sem ekki eru Svíar - mismunað). Undanþágur Ungverja renna út í maí á næsta ári.

Athugið líka að útlendingum er leyfilegt að kaupa sumarbústaði í Danmörku og fasteignir á Möltu, svo framarlega sem þeir eiga lögheimili í þessum löndum.

Ástæðan er allstaðar sú sama, óttinn - byggður á rökum - að ekki verði nóg af heppilegum sumarbústöðum / fasteignum handa heimamönnum, eða - í tilviki Álandseyja - að (sænska) menningin hverfi. Að því leyti hefur nafni rétt fyrir sér, þótt hann hafi rangt fyrir sér að ástæðan sé almennur mismunur á fjölmenni í löndunum miðað við ESB í heild.

Hvað Ísland varðar, þótt fámennt sé, hefur ekki verið sýnt fram á að þessi ótti eigi við rök að styðjast. Það hefur ekki borið á því að aðkomumenn sækist hér sérstaklega í land eða fasteignir, og heldur virðist engin sérstök hætta á að ekki verði til nægar lóðir/landbúnaðarland handa heimamönnum.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 26.7.2013 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband