1.8.2013 | 11:19
Ekkert verra en hjá mörgum Íslendingum.
Nú hneykslast margir í tilefni af misskilningi erlendra ferðamanna vegna íslenskra örnefna, sem veldur því að þeir eru ekki á þeim slóðum sem þeir halda. Í umræddu tilefni rugluðu útlendingarnir sama Grænalóni að Fjallabaki og Grænalóni við Skeiðarárjökul.
Þarna er kastað úr stóru glerhúsi, því að jafnvel íslenskir fjölmiðlamenn eru stundum ekkert betri.
Og nýlega greint frá því að Íslendingar hafi farið upp í Borgarfjörð til þess að leita að tónlistarhátíðinni Bræðslunni, sem haldin er hinum megin á landinu.
Nýlega sýndi íslenskur fjölmiðill á korti, að Landmannalaugar væru undir Eyjafjöllum, en á mili Skóga og Eyjafjalla eru Eyjafjallajökull, Goðaland, Þórsmörk, Almenningar, Emstrur, Syðri-Fjallabaksleið og Torfajökulssvæðið!
Þegar leitað var að Íslendingum og þeir fundust látnir á meðan á gosinu í Fimmvörðuhálsi stóð, greindu fjölmiðlar frá því að þeir væru í grennd við gosið.
Hið rétta var að á milli þeirra og leitarsvæðisins að þeim annars vegar og gossins hins vegar voru Goðaland, Þórsmörk og Almenningar og fólksins var leitað og það fundið á Syðri-Fjallabaksleið, víðsfjarri gosinu.
Dæmin eru ótal mörg og fjölmiðlarnir rugla léttilega nöfnum á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess, alveg við bæjardyrnar.
Sandskeið er fært upp í Svínahraun og Hellisheiði er á Reykjanesi.
Því er það nærtækara að krefjast fyrst betri þekkingar okkar Íslendinga sjáfra á landi okkar í stað þess að einblína á vanþekkingu útlendinga.
Voru við annað Grænalón | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Svo er það spurningin hvort að misskilningurinn í staðsetningunni sé frá ferðamönnunum kominn eða frá starfsmanni neyðarlínunnar því að það er einnig þekkt. T.d. ef menn segðust vera 2 km sunnan við Grænavatn, þá er líklegt að menn leituðu á Reykjanesi en ekki sunnan við Mývatn.
Sigurdur Erlingsson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.