Hvenær þrýtur langlundargeðið ?

Flugdólgurinn, sem kostaði Icelandair hundruð þúsunda og fjölda farþega mikið ónæði og vandræði, hlýtur að hafa verið óvenju illvígur. 

Þá ályktun dreg ég af því að mér hefur lengi fundist með ólíkindum hvílíkt langlundargeð áhafnir og farþegar íslenskra flugvéla hafa sýnt ölvuðu fólki í flugvélum.

Sú var tíðin að reykingar voru leyfðar í flugferðum og að það hefði þótt agalegt að banna þær.

Nú eru þær að sjálfsögðu bannaðar og engum dettur í hug að taka þær upp aftur.

Fyrir nokkrum árum var ég á leið til Íslands í sex klukkustunda flugi. Þegar þotan var komin vel á veg byrjaði einn ölvaður farþegi að abbast upp á mig með leiðinda röfli og pexi og fann mér flest til foráttu og atyrti mig fyrir flest sem ég væri að gera svona almennt.

Hann espaðist við það þegar ég benti honum á að hann væri að valda konu minni og öðru fólki, sem sæti mér næst ónæði að ósekju.

Smám saman kom upp ástand, sem var illleysanlegt vegna þess hvað flugvélin var komin langt áleiðis og þess, að maðurinn virtist verða ölvaðri og meira uppáþrengjandi eftir því sem á leið, kannski vegna langvarandi þjórs og vöku fyrir flugferðina.

Engin leið var að koma tauti við þennan mann og nú voru góð ráð dýr, því að komin var nótt og farþegar vildu hvílast við deyfð ljós.

Að lokum fannst sú lausn, að ég færði mig í autt sæti fremst í almenna farþegarýminu. Maðurinn elti mig þá þangað og lá yfir mér alla leiðina heim og úthúðaði mér og var mér til sem mestra leiðinda stanslaust.

Fann nýtt tilefni með því að þylja í sífellu: "Voða ertu merkilegur með þig. Geturðu ekki setið innan um annað fólk?  Hver þykistu eiginlega vera? Andskotans merkikertu ertu! Ertu of merkilegur til að tala við mig? Þú ert ömurlegur!" O. s. frv...  

En á meðan voru farþegarnir fyrir aftan nokkurn veginn í meira friði en áður.

Þótt sífellt væri verið að sussa á manninn, lækkaði hann róminn að vísu tímabundið en varð þeim mun orðljótari í návíginu sem hann var við mig.  

Þessu var ekki hægt að breyta, því að annars hefði ónæðið af dólginum bitnað á mun fleirum en mér. 

Sumir virðast vera þeirrar gerðar, að þeir þola ekki að fara í gegnum flugstöð án þess að detta í það.

Mætti kalla það "Leifstöðvar-heilkennið."  

Í gamla daga var þetta kallað "Ártúnsbrekkuheilkennið";  notað yfir menn sem stóðust það ekki að aka upp Ártúnsbrekku nema detta í það.

Hversu oft í gegnum tíðina hefur leiðinda ölvun ekki verið til ama um borð í flugvélum?  

Nú kann vel að vera að flugfélögin græði á því að selja venjulegu fólkim sen kann að fara með vín, áfenga drykki  um borð í flugvélum.

Í gamla daga minnir mig að tóbaksvörur hafi verið til sölu líka.  

En hvenær þrýtur þetta langlundargeð, sem enn ríkir gagnvart ölvuðu fólki í flugvélum?

Hvenær mun það þykja jafn sjálfsagt að úthýsa ölvun og áfengi úr flugvélum eins og reykingum?

Það myndi einfalda málið mikið, því að ef einhver kæmi inn í dyrnar við brottför undir áhrifum, myndi honum snúið við hið snarasta, rétt eins og hverjum þeim sem kæmi reykjandi inn.  


mbl.is Þurfti að snúa við vegna flugdólgs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Omar , svona fyllidelar eru að brjóta allar reglur með því að drekka eigið áfengi sem er bannað. Flugfreyjurnar bera ekki vín í fólk sem er til vandræða. Svona mann á að taipa í sæti. Það er eki hægt að bjóða upp á svona sniðugheit

Halldór Jónsson, 31.7.2013 kl. 23:48

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Langlundargeðið varðandi flugdólga er löngu þrotið, eins og þessi frétt og margar aðrar undanfarin ár sýna fram á.

Ekki er hægt að láta örfáa menn stjórna lífi fjöldans.

Og engin ástæða til að banna sölu á áfengi í flugvélum frekar en annars staðar.

Þorsteinn Briem, 1.8.2013 kl. 00:15

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þar að auki eiga flugdólgar að greiða allan kostnað sem af þeim hlýst, sem getur verið gríðarlegur.

Þorsteinn Briem, 1.8.2013 kl. 00:21

4 identicon

Ég er nokkuð viss um að bannað sé að fljúga með - taka með ofurölvi farþega í flug.
Það er einfaldlega öryggisatriði - rétt eins og höltum, bakveikum, gömlum, börnum eða öðrum "ekki fullfærum" er ekki leyft að sitja við neyðarútgang; þeir yrðu til trafala í neyðarástandi!!!

Ath. reglur CASA (Civil Aviation Safety Authority):

Útdráttur úr:  http://www.casa.gov.au/scripts/nc.dll?WCMS:STANDARD::pc=PC_91478

"Passengers should be aware that boarding an aircraft when drunk is against the law and may result in them being denied boarding.

...

  Many airlines specify rules and conditions of boarding on the back of the boarding pass.

Cabin crew have the authority to restrain drunk or violent passengers."

___

Hefði gjarnan ekki viljað vita þetta - en var einu sinni í flugvél sem var "kyrrsett" í rúmar 3 klukkustundir - Ekki fékkst leyfi til flugtaks vegna þess að "of margir voru of drukknir" skv. alþjóðlegum öryggisreglum.
Ég var með smákrakka - þurftum öll að sitja allan tímann í vélinni - loftræsting sett á fullt og vatni haldið að farþegunum ... gjörsamlega ÓÞOLANDI

Eygló (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 00:59

5 identicon

Þetta mun viðgangst í lofti, á legi og landi

svo lengi sem sumir telja það afsökun á sinni framkomu og annarra

að hafa BARA verið fullur

Grímur (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 01:03

6 Smámynd: Tryggvi Hübner

Steini er með þetta, það á að senda reikninginn á flugdólgana. Skv. mínum heimildum eyðir svona þota tonni af eldsneyti á 3-4 fyrstu mínútum í flugtaki. 40 mínútna flug fram og til baka er því allnokkur kostnaður, auk annars kostnaðar og allra þeirra óþæginda sem maðurinn veldur mörgum. Samfélagið er meðvirkt með brennivínsberserkjum og metur það honum í hag að hann var fullur og lítur á það sem málsbætur. Svo fær hann tiltal og flugbann í nokkrar vikur ...

Tryggvi Hübner, 1.8.2013 kl. 01:28

7 identicon

Hvenær verður farið að tala um "leigubíladólga?" Og annað vantar ekki alveg kvenkynsorð á þetta? Hvernig orðar maður "flugdólg" í kvenkyni? Það eru annars vegar melludólgar, og hinsvegar flugdólgar. En uppá ensku væri það karlkynsorðið "pimp" en kvenkynsorðið "madame," og bein þýðing á "madame" sem komið er úr Frönsku, væri "my lady." Búin að ná þessu, það væru þá "flugdólgar" og "flugdömur."

Ég vona að engin áhöfn né farþegar neyðist til þess að yfirbuga "fluddömu" í náinni framtíð.

ZZ (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 03:58

8 identicon

Dólgur er neikvætt orð, allavega í þessum skilningi orðsins sem við erum að nota það núna. Flugdama er því í þessum skilningi of jákvætt. Mér fyndist orðið flugtík eiga frekar við og vera neikvætt, sem það á að vera. Vildi bara skjóta því inn. En annars góð grein Ómar og hjá ykkur hinum sem erum þreytt á flugdólgum og flugtíkum.

Þórarinn (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 04:12

9 identicon

Vel get eg skilið omar, að þurfa að hlusta a rausið.

En eg verð samt að venda kvæði minu i kross og spyrja folk, hvað með allar "dömurnar" sem eru með ouppalda frekjudela sina i flugvelunum, skrikjandi og vælandi. Svo maður ekki minnist a marga bandariska, og þyska farþega sem eru svo uppaþrengjandi að manni blöskrar. Og hvað með sumt folk sem situr yfir manni, ekki bara i flugvel, heldur einnig utan ... I tuttugu ar, og litið til. Og finnur manni að allt að osekju.

Þetta lið hefur ekki einu sinni það til afsökunar, að vera fullir ...

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 10:38

10 identicon

Og hver ól þig upp Bjarne Örn Hansen?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 10:56

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kona getur til að mynda verið fáráðlingur, vitleysingur, bílstjóri, flugmaður eða ráðherra, sem eru karlkynsorð.

Þannig geta konur einnig verið flugdólgar.

Og að sjálfsögðu drekka ekki allir áfengi til að verða drukknir, hvað þá blindfullir.

Þorsteinn Briem, 1.8.2013 kl. 11:13

12 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Mér finnst að það eigi bara að banna alla neyslu og sölu á áfengi um borð í flugvélum. Fólk þarf ekkert að vera að hella í sig áfengi þessa stuttu stund sem að það tekur að fljúga landa á milli á kostnað öryggis annarra farþega um borð. Maður hefur ótrúlega oft orðið fyrir ónæði vegna áfengissölu og neyslu áfengis um borð í flugvélum. Flugfélögin ættu bara sjálf að borga tjónið sem fæst af þessum flugdólgum á meðan þau eru að halda áfengi að farþegum og fá þau til að auka drykkjuna með allskonar tilboðum. Síðast þegar ég flaug, sem var fyrir nokkrum mánuðum síðan, var einmitt tveir fyrir einn tilboð um borð og nokkrir urðu mjög slompaðir um borð, hávaðasamir og uppáþrengjandi.

Anna Margrét Bjarnadóttir, 1.8.2013 kl. 13:09

13 identicon

Hvernig hljómar "fluggrýla"?

Guðmundur Helgason (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 17:23

14 identicon

En hvað með Bloggdólga? (eru það ekki bloggdólgar sem sí og æ eru að láta ljós sitt skína í kpmmentakerfinu?)

AMX (IP-tala skráð) 1.8.2013 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband