Varpandi háhýsi þar og hér.

Háhýsi eru heillandi mannvirki og til dæmis afar skemmtilegt að búa ofarlega í háhýsi. Ég sakna til dæmis þess tíma þegar við Helga bjuggum í smáíbúð á 12. hæð í Austurbrún 2. Þegar eigendur íbúðanna drógu um íbúðirnar dró ég íbúð númer 2 á 5. hæð, en maður sem dró íbúð á 12. hæð nr. 5 var lofthræddur og vildi fá íbúð neðar.

Við skiptum því á íbúðum og ég taldi mig mjög heppinn.

Síðar bjuggum við i nokkur ár ofarlega í blokkinni að Sólheimum 23 og nutum útsýnisins þaðan.  

En háhýsin hafa ákveðna galla og tengjast þeir flestir því að þeir "varpa" skuggum, geislum, hávaða og jafnvel vindhviðum af sér.

Ekki hefur frést af háhýsi hér á landi sem endurvarpi svo sterklega af sér sól að það geti brætt bíla fyrir neðan eins og gerst hefur í London.

En "Hálfvitinn" við Höfðatorg (þetta nafn af því að hann eyðilagði vitann í Sjómannaskólanum) hefur verið staðinn af því að varpa snörpum vindhviðum af sér og einnig hávaða þegar rok blæs um hann, íbúum í Höfðahverfi til ama.

Ótalinn er stærsti ókostur hárra húsa á Íslandi en það er skuggavarpið. Sól er 15 gráðum lægra á lofti í Reykjavík en í norðanverðri Evrópu og það munar um þennan halla.

Þetta er jafn mikill hallamunur og er á sólarhæð í Reykjavik, annars vegar í september og hins vegar í janúarlok.

Þetta sést vel við götur í Reykjavík, sem liggja frá austri til vesturs, til dæmis við Laugaveg.

Það vekur athygli, að neðarlega við Laugaveg, þar sem nokkur gömul hús voru friðuð endanlega í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar, skín sólskin á gangstéttinni á móti, en ekki austan við þau.

Þetta skapar líf og útivist á þessum köflum götunnar. Það er ekki tilviljun að norðurhluti Austurvallar við Vallarstræti er vinsæll staður til að njóta veitinga utanhúss. Það er vegna þess að hinn opni Austurvöllur tryggir að sólskin nái þangað yfir daginn.

Þegar háhýsi eru staðsett þannig að skuggavarpið verður mikið má telja það stærsta ókost þeirra.

Og ef gatan er mjó munar þar um hverja hæð.

 

 


mbl.is Bygging sem bræðir bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband