Húsið bæði of lítið og of stórt fyrir of marga!

Skriffinnskan getur oft getið af sér furðulegar uppákomur og eru of löng nöfn á skírteinum ekki það eina.

Þegar í fjölskyldu minni voru alls níu manns var húsnæðið okkar orðið heldur lítið. Okkur bauðst annað sem var 20 fermetrum stærra og því var sótt um húsnæðismálastjórnarlán.

En viti menn: Því var hafnað á þeim forsendum að húsið sem ætti að kaupa, væri of lítið ! Ástæðan var sú að það var ekki nógu mörgum prósentum stærra en það sem selja átti.

Ég gafst ekki upp og prósentutalan ætti ekki að gilda heldur frekar aukningin í fermetrum.

Málið var aftur tekið fyrir hjá stjórn stofnunarinnar en nú brá svo við að umsókninni var hafnað af því að húsið, sem kaupa ætti, væri of stórt!  Sem sagt bæði of lítið og of stórt !

Enn þrasaði ég og benti á að fermetrafjöldi á hvern íbúa hjá okkur væri langt undir því sem tíðkaðist.

Fyrir "klíkuskap", - Þráinn Valdimarsson var í stjórninni frá Framsóknarflokknum, - fékk ég hálft lán !

Gott að eiga Framsóknarmenn að vinum !

Sótti um á eyðublaði, þar sem aðeins var dálkur fyrir sjö í fjölskyldunni, og setti því tilvísun um, að þau tvö nöfn, sem vantaði, væru á bakhlið blaðsins.

Umsókninni var hafnað. Hún væri ógild af því að ekki mætti setja neitt á bakhliðar umsóknareyðublaða ! 

Spurði ráða hjá starfsmanni, sem lét mig hafa tvö eyðublöð, þar sem allir nema tveir væru í réttum dálki á öðru blaðinu en tveir væru í réttum dálki á hinu eyðublaðinu.

Umsókninni var hafnað. Óheimilt væri að senda inn tvö eyðublöð fyrir eina umsókn.

Nú var búið að hafna sömu umsókninni fjórum sinnum, sem Þráinn sagði mér, að væri sennilega met í sögu stofnunarinnar.

Hann fór því enn einu sinni á stúfana og fékk því framgengt að hálfa lánið fengist. Góður maður og skilningsríkur, Þráinn.   

 


mbl.is Nafnið of langt á ökuskírteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Oft hann steytir Ómar görn,
æði mörg á kallinn börn,
afar löng var öll sú törn,
oft í sókn en nú í vörn.

Þorsteinn Briem, 15.9.2013 kl. 20:02

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það er sko ekkert grín að fást við "kerfið"

Foreldrar mínir leystu þetta vandamál á sínum tíma (fyrir tæpum 50 árum) með því að hóta því að ef ekki fengist húsnæðislán myndu þau segja sig til sveitar hjá sínu bæjarfélagi með alla fjölskylduna.  Íbúðin sem um var að ræða var 171 m2, eða heilum 1 fermetra stærri en þótti lánshæf fyrir 10 manna fjölskyldu... 

Kolbrún Hilmars, 15.9.2013 kl. 20:36

3 identicon

Nú hló ég með honum öllum, eins og sagt hefur verið – enda þótt mál af þessu tagi séu í rauninni dapurleg ekki síður en hlægileg. Grátbrosleg.

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 15.9.2013 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband