Deginum bjargað.

Ég hef haldið mig til hlés undanfarna daga náttúrunnar að öðru leyti en því að koma þar fram eða taka þátt í þeim atburðum þar sem þess hefur verið óskað. En í þetta sinn varð ekki umflúið að sinna því máli, sem upp kom í Gálgahrauni. Ástæðan er þessi:

 

Íslendingar eiga þrjá daga sem helgaðir eru þrennunni sem Snorri Hjartarson orti um:

 "Land, þjóð og tunga",

þrenning sönn og ein,

þér var ég gefinn barn við móðurkné.

Ég lék hjá þér við læk og blöð og stein,  

þú leiddir mig í orðs þíns háu vé."

 Snorri veltir hverju orði og afstöðu þeirra hvers til annars fyrir sér.

Land-þjóð-tunga, er rökrétt röð: Landið kemur fyrst, því að án landsins, náttúrunnar, er engin þjóð.

Og þjóðin skapar tunguna og hvorugt getur án hins verið.

Ekkert af þessu getur án annars verið, - þess vegna er þetta "þrenning sönn og ein."

Sama er um röðina  "...læk og blöð og stein." Lækurinn er vatnið, sem ekkert líf þrífst án, blöðin eru gróður jarðarinnar og steinninn er tákn hraunanna, sem allt Ísland er byggt úr.

Og þetta þrennt leiðir skáldið inn í undraheim íslenskrar tungu, "orðsins háu vé."  

Sjálfur var ég á aldrinum 7-9 ára þrjú heil sumur í Kaldárseli og "lék..við læk og blöð og stein," drakk í mig grunn þess skilnings sem landið leiddi mig inn í hin heilögu vé tungunnar.

Dagur íslenskrar náttúru, lýðveldisdagurinn og Dagur íslenskrar tungu eru "þrenning sönn og ein."

Á þeim dögum er um fjölmargt að velja sem þjóðin getur sameinast um að halda á lofti í einhug varðandi sig sjálfa og þau mestu verðmæti, sem hún á eða hefur verið falið að varðveita fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt, sem eru náttúran og tungumálið.

Það stefndi í að þessi samhljómur yrði rofinn með því að byrja þennan dag íslenskrar náttúru með mjög svo umdeildum aðgerðum í Gálgahrauni og það án þess að búið væri að reka málið til enda fyrir dómstólum.

Verkstjórinn og hans menn hættu við að gera þetta í dag en munu athafna sig annars staðar til kvölds.

Í mínum huga var deginum bjargað með þessu svo að engan skugga beri á varðandi þá tugi og hundruða atburða smárra og stórra, sem eru á dagskrá í dag.

Megi þeir hafa þökk fyrir sem að því stóðu.

 

 

 


mbl.is Hraunvinir við gröfur ÍAV í Gálgahrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Samkvæmt skoðanakönnun eru 80% íbúa Álftaness og Garðabæjar hlynntir þessari framkvæmd.

Það er mat fagaðila að vegurinn auki umferðaröryggi og bætt öryggi í hönnun vega er talinn stór póstur í þeirri ánægjulegu þróun sem hefur verið í fækkun banaslysa undanfarin ár.

Nú hef ég ekki kynnt mér þetta mál sérlega vel, en getur þú sagt mér Ómar, hvers vegna ekki var núverandi vegur bara breikkaður og endurbyggður?

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.9.2013 kl. 16:28

2 identicon

Það kemur svo sem ekki á óvart að íbúar Garðabæjar séu ekki ósáttir - enda dreifist kostnaðurinn á alla landsmenn, ekki bara Garðbæinga. Hugsa að það væri annað hljóð í þeim ef bara Garðbæingar ættu að standa straum af þessu.

Kristinn Magnússon (IP-tala skráð) 17.9.2013 kl. 23:29

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vegagerðin:

"Í þessu verkefni eru unnið að gerð Álftanesvegar (415) milli Hafnarfjarðarvegar og Bessastaðavegar. Verkið felst í því að leggja nýjan 4 km langan veg frá Hafnarfjarðarvegi að Bessastaðavegi.
..."

Þorsteinn Briem, 20.9.2013 kl. 19:43

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Í náttúruverndarlögum, sem tóku gildi 1. júlí 1999, eru tilgreindar landslagsgerðir sem njóta sérstakrar verndar.

Þar kemur fram að eldhraun runnin á nútíma [...] á borð við Garðahraun/Gálgahraun eru þar á meðal og forðast skuli röskun á þeim eins og kostur er."

"Gálgahraun er kennt við Gálgaklett, þríklofinn hraunstand nyrst í hrauninu."

"Samkvæmt náttúruminjaskrá afmarkast Gálgahraun af núverandi Álftanesvegi að sunnan en hraunjöðrunum að austan og vestan.

Framkvæmdasvæðið
, sem fjallað er um í matsskýrslu þessari, er því að stórum hluta innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá."

"Framkvæmdirnar munu því rýra verndargildi hraunsins sem svæðis á náttúruminjaskrá, auk þess sem eldhraun njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum."

"Garðahraun/Gálgahraun er sennilega stærsta hraunið sem enn er ósnortið í miðju þéttbýli á Innnesjum og verndargildi þess er ótvírætt sem slíkt."

Vegagerðin - Nýr Álftanesvegur - Mat á umhverfisáhrifum, janúar 2002

Þorsteinn Briem, 20.9.2013 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband