14.10.2013 | 14:15
Verri bílar til.
Við Íslendingar höfum kynnst sumum af þeim bílum, sem í tengdri frétt á mbl.is eru taldir vera verstu bílar sem framleiddir hafa verið. Við þekkjum líka bíla, sem ekki eru á listanum, en geta talist verstu bílar sem fluttir hafa verið inn til Íslands.
Í einni af mörgum stórum bókum um bíla, sem mér hafa áskotnast um ævina, er fyrsta gerðin af russneska Zahphorochets rassvélarbílnum, sem var grunsamlega líkur Fiat 600 en bara miklu ljótari.
Einn eða tveir slíkir bílar voru fluttir til Íslands og reyndust herfilega. Í stóru bílabókinni var staðhæft að þessi bíll væri versta bílahönnun allra tíma, enda ekki furða, því að hann væri svo hræðilegur, að stórlega mætti efast um að hann hefði yfirleitt verið hannaður!
Austur-Þýski sendibílinn Garant var jafnvel enn lakari bíll, að ekki sé minnst á P-70, fyrirrennara Traband, sem var úr pappaplasti vegna skorts á stáli, og ýmsir hlutar bílsins, þar á meðal gólfið í farangursgeymslunni, úr lélegum krossviði.
Í sumum bókum eru Skodabifreiðar sem hannaðar voru eftir 1960 hafa verið svo lélegar, að orðspor frameiðandans, sem hafði verið sæmilegt fram að því, breyttist í það að vera "international joke".
Ég notaði Skoda 120 í tvö ár við Kárahnjúka og einhvern veginn hékk hann saman og var hægt að skrönglast ótrúlega erfiðar slóðir, enda vélin fyrir aftan afturhjólin, sem drifið var á.
Bíllinn lak miklu vatni og það var enginn bakkgír, en það er nú reyndar ekki skylda samkvæmt íslenskum birfreiðalögum, ótrúlegt en satt.
Þegar hann átti að fara í skoðun eitt síðsumar bað ég verkstæðismann um að skoða hann og setja á blað þau atriði sem þyrfti til að koma honum í gegnum skoðun.
Ég fékk tveimur vikum síðar afhentan við hátíðlega athofn þennan lista innan í nokkurs konar Óskarsveeðlaunasumslagi, sem ég opnaði og las.
"Að þessum bíl er....allt !"
Ég skrönglaðist með hann í Ystafell og þar er hann nú á bílasafninu mikla
Ýmsir bresir bílar frá áttunda og níunda áratugnum hafa verið á lista yfir verstu bíla heims, svo sem Austrin Allegro, og jafnvel lúxus- tækniundrið Aston Martin Lagonda.
Ágætis bílar eins og Alfa Romeo Alfasud og Renault Dauphine hrundu niður vegna ryðs. .
Verstu bílar allra tíma? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Margir evrópskir bílar, sérstaklega þýskir, sem framleiddir voru á fyrri hluta áttunda áratugarins voru afskaplega lélegir því framleiðendur (þ.á m. Benz og Opel) höfðu glapist til að spara með því að kaupa stál í bílana af Rússum. Það byrjaði að ryðga á færibandinu og hélt því svo áfram hratt og örugglega.
Annars er þessi frétt skrítin, þar er haldið fram að Aztec og Cimarron hafi farið nærri að setja framleiðandann á hausinn! Það er engu líkara en blaðamaðurinn átti sig ekki á að framleiðandinn er General Motors, en deildir í því fyrirtæki sjá um að framleiða einstök merki. Það var ekki Aztec sem varð til þess að Pontiac hvarf, til þess voru margar aðrar ástæður, þótt Aztec hafi vissulega lagt í það púkk.
En af lélegum bílum, sá sem mér er eftirminnilegastur í fjölskyldusögunni er Citroen GS. Annarri eins dómsdagsdruslu held ég að ég hafi aldrei kynnst! En - sterkir kandidatar eru líka Dauphine, sem beinlínis datt í sundur, Fiat 132 sem var frábær að keyra en ryðgaði svo hratt að maður hafði vart undan að fylgjast með, ekki má gleyma Mini sem þrátt fyrir skemmtilega aksturseiginleika var skelfilega vondur bíll hvað öryggi og viðhald snerti.
Sérstaka "heiðurs" viðurkenningu fá svo amerískir bílar 7. áratugarins. Það er fyrir fullkominn skort á aksturseiginleikum auk þess sem margir þeirra höfðu að auki þá sterku eiginleika í þessari keppni að vera dómsdagsdruslur sem ryðguðu hratt og jafnvel duttu líka í sundur. En - og þar er jú stórt en - margir þeir amersísku voru sérlega fallegir bílar með mikinn útlitskarakter, sér í lagi '67 árgerðin. Flottar drossíur, það vantaði ekki!
Þórhallur Jósepsson (IP-tala skráð) 14.10.2013 kl. 15:43
Ekki má gleyma AMC Pacer, sem var fáránlegur bíll, næstum jafnbreiður og Cadillac og níðþungur, en meira en metra styttri, ljótur, aðeins með smásæti fyrir fjórar persónur.
Citroen GS var valinn bíll ársins í Evrópu ef ég man rétt, enda frábær hönnun, fjöðrun og lítil loftmótstaða. En loftkælda smávélin var ekki samboðin bílnum, flókin loft/vökvafjöðrunin entist illa sem og bíllinn almennt að ekki sé talað um bilanatíðnina.
Ómar Ragnarsson, 14.10.2013 kl. 19:45
Bara það sem hefur verið á götunum undanfarin 30 ár:
Allar gerðir af VW Golf. Allt vont, síbilandi og andstyggilegt.
Japanskir bílar almennt áttu það til að ryðga burt á nó tæm þangað til uppúr 1988. Veit ekki hvað veldur - betri efni, sennilega.
Hyundai Pony - 1993-1995. Þeir entust að 95.000 km, mest. Þá lak skyndilega öll olían úr vélinni á þeim og hún fraus. Bara af því.
Renault. Hvaða gerð sem er. Ekkert nema undarlegar bilanir. Man enn vel þegar bremsurnar duttu af einum Kangoinum í Flytjanda. Bókstaflega. Hágæða bíll þar á ferð, augljóslega.
Ssangyong Musso eru að auki frægir að endemum fyrir allskyns rafmagnsgremlinsa.
Það er mikið úrval til að lélegum bílum.
Ásgrímur Hartmannsson, 14.10.2013 kl. 19:58
Cadillac Cimarron ?
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.10.2013 kl. 05:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.