17.10.2013 | 21:06
Svipað og í Eldvörpum?
Örvæntingarfullri græðgi okkar Íslendinga eru fá takmörk sett. Búið er að setja Eldvörp á aftökulista náttúruverðmæta til þess að kreista þar út einhver hugsanleg 50 megavött úr sameiginlegu jarðvarmahólfi Eldvarpa og Svartsengis.
Það mun einungis flýta fyrir tæmingu hólfsins úr hugsanlega 50 árum niður fyrir 40 ár, allt á kostnað nánustu afkomenda okkar og allra þar á eftir.
Ef jarðvarmageymirinn undir Hverahlíð er í tengslum við svæðið við Hellisheiðarvirkjun verða afleiðingarnar svipaðar þar. Fróðlegt væri að vita hvað jarðvísindamenn segja um það.
Tengingin freistandi en ekki áhættulaus | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Jarðhitarannsóknir hafa leitt sitthvað athyglisvert í ljós.
Fyrir nokkru lést merkur bóndi á Kjalarnesi, Magnús Jónasson í Stardal. Einna fyrst heyrði eg hans getið í Leiðsöguskóla Íslands veturinn 1991-92. Ingvar Birgir Friðleifsson jarðfræðingur sagði í frábærum og eftirminnilegum fyrirlestrum okkur m.a. frá Esjunni og jarðfræðirannsóknum sínum. Ingvar varði doktorsritgerð um jarðfræði Esjunnar fyrir um 40 árum. Gott yfirlit er prentað í Árbók FÍ 1985. Átti Ingvar mikil samskipti við bændur allt umhverfis Esju vegna rannsókna sinna. Tjáði Ingvar okkur frá einstökum áhuga Magnúsar í Stardal fyrir öllu sem náttúrufræðingar voru að fást við á sínum tíma. Varð úr að Magnúsi var útvegaður lítill jarðbor sem hann gat látið dráttarvél sína knýja. Vann Magnús að borunum „milli mjalta og messu“ eins og sagt er til sveita, þ.e. milli annara anna tengdum bústörfum. Eitt haustkvöldið við verklok stöðvaði Magnús borinn. Mikil soghljóð bárust upp úr holunni og hrifsaði sogið vinnuvettling af annari hendi hans. Magnús símaði þegar í Ingvar jarðfræðing sem aftur hringdi í Þórð í Dælustöð Hitaveitunnar á Reykjum. Í ljós kom að nokkrum dögum áður hafði verið hert á dælunum og var nú alveg augljóst að jarðhitasvæðið í Mosfellsdal teygði sig neðanjarðar allt upp í Stardal og jafnvel undir Esjuna og upp í Kjós. Var nú sest á rökstóla og úr varð að Magnús hætti frekari borunum enda lutu rannsóknir að því að með því að dæla vatni úr borholunni í Stardal gæti það haft afdrifaríka afleiðingu í för með sér varðandi rekstraröryggi Reykjaveitu. Ekki fer neinum sögum af vinnuvettling Magnúsar hvort skilað hafi sér gegnum jarðlögin.
Ætli jarðhitasvæðin teygi sig ekki víðar neðanjarðar en við Esjuna?
Guðjón Sigþór Jensson, 17.10.2013 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.