31.10.2013 | 17:44
Þarf að lengja brautina á Egilsstöðum.
Stærsti ókosturinn við flugvöllinn á Akureyri er hve miklar og háar hindranir eru í kringum völlinn.
Eina hindranalitla leiðin að vellinum er úr NNA inn fjörðinn, en þá er fráflugið mjög erfitt til suðurs og raunar ekki notað.
Brautin er sú lengsta utan suðvesturhornsins en það skiptir ekki máli vegna þess að fjöllin í kring skelfa erlenda flugstjóra mest, einkum þá sem aldrei hafa gert aðflug að vellinum.
Stærsti kostur vallarins er sá að við hann er stærsta þéttbýlið og mesta þjónustan utan suðvesturhornsins, hann liggur nær miðpunkti landsins en nokkur annar flugvöllur, og þess vegna er hann ákjósanlegur sem miðstöð sjúkraflugs.
En fyrir ókunnuga flugstjóra falla þessir kostir allir í skuggann af því hvað blindaðflugið er vandasamt.
Suðvestan við völlinn eru Súlur, 1144 metra háar, og skammt sunnan við þær Kerling, 1539 metrar, eitt af hæstu fjöllum landsins.
Þess vegna hefði fyrir löngu átt að vera búið að lengja flugbrautina á Egilsstöðum, sem enn er miklu styttri en brautin á Akureyri. Aðflugið eystra er svo miklu auðveldara en á Akureyri að það skelfir ekki ókunnuga flugstjóra.
Á Egilsstöðum snýst málið eingöngu um það að færa hringveginn, sem liggur við suðurenda brautarinnar og skerðir lengd hennar og skapar hindrun, sem eyðileggur 200 metra af suðurendanum þegar lent er til norðurs.
Það kostar að vísu að minnka tún býlisins á Egilsstöðum, en skaðabætur vegna þess geta varla talist vera nema lítið brot af því sem vinnst með því að lengja brautina upp í minnst 2200 metra.
Aðflug að Akureyrarflugvelli mistókst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
En væri ekki ráð að lengja brautina á Króknum og gera þann völl alminlega nothæfan. Þar þyrfti eingar skaðabætur fyrir skemmd tún, og stuttur akstur til Reykjavíkur.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 31.10.2013 kl. 18:01
Hvar og hver ræður hvar skuli leggja vegi og flugvelli, eru það stjórnvöld í landinu eða er það Ómar Ragnarson Hraunavinur?
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 31.10.2013 kl. 18:24
Og hvað með Húsavíkurflugvöll Ómar?
Vaðlaheiðargöngin verða brátt tilbúinn.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 31.10.2013 kl. 19:00
Það má rétt einz lengja flugbrautina á EGS í vestur, yfir Eyvindará.
Krókurinn og Aðaldalur-Húsavík eru líkar einir verulega vannýttir flugvellir með fínar aðflugsstefnur.
Z.
Steingrímur Helgason, 31.10.2013 kl. 22:28
Það væri dálítið broslegt Þorvaldur þar sem það hefur verið gert í því að stytta þá flugbraut og stjórnvöld vilja stytta hann enn meira!
Karl J. (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 02:34
Og hvers vegna væri það broslegt? Þar eru möguleikarnir fyrir hendi og afar ódýrt miðað við t.d. Egilsstaði. Þótt menn hafi etv. stytt völlinn miðað við það flug sem þangað er stundað skiptir það engu máli í þessu tilliti enda yrði að malbika hann allan í stað klæðningarinnar sem á honum er núna. Völlurinn sjálfur hefur ekki verið styttur heldur væntanlega bundna slitlagið.
Og þótt ég sé fæddur og uppalinn handan við Héraðsvötnin og hafi átt vélar í skýlinu á Króknum hef ég aldrei heyrt minnst á styttingu vallarins sjálfs.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 08:25
Það þyrfti varla að lengja brautina á Króknum. Hún er meira en 1800 metrar. Þyrfti kannski að bæta slitlagið.
Ingólfur (IP-tala skráð) 1.11.2013 kl. 11:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.