9.11.2013 | 22:23
Þarf að læra af öðrum þjóðum.
Umræður um gjaldtöku af útlendingum til þess að standa undir kostnaði við byggja upp þjónustu og aðstöðu á ferðamannastöðum benda til þess að óþol hafi gripið íslensk stjórnvöld til þess að krækja sér í fjármuni í þessu skyni sem allra fyrst með því að vaða áfram í miklum gassagangi án þess að hafa kynnt sér þessi mál erlendis.
Virðist litlu skipta hverjir eru í stjórn hvað varðar það að gefa þeim, sem málið snertir, sem minnst ráðrúm til þess að bregðast við gjaldtökunni í rekstri sínum.
Á þeim slóðum erlendis, sem helst líkjast íslenskum aðstæðum, svo sem á Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum, er þessum málum þannig komið fyrir, að það er á allt öðru plani en skín út úr því sem mönnum dettur helst í hug hér.
Í þessum löndum er horft á alla myndina á víðu plani.
1. Þjónusta og aðstaða í þjóðgörðum og á ferðamannastöðum miðast við það að þjóðin sjálf geti verið stolt af því gagnvart sjálfri sér og erlendum gestumm og ræktað með því samheldni sína og menningu.
2. Í bandarísku þjóðgörðunum er gengið út frá því að tap sé á rekstri þeirra, þrátt fyrir gjaldtöku af ferðamönnum því að vitað er að þegar dæmið er allt reiknað varðandi óbeinan hagnað í ferðaþjónustunni um landið allt, verður útkoman jákvæð.
3. Á þeirri sömu stundu og ferðamaðurinn greiðir gjaldið, fær hann í hendurnar vandaða fræðslubæklinga með öllum helstu upplýsingum og leiðbeiningum um þjóðgarðinn, þjónustuna sem þar er veitt og um þær reglur, sem allir verði að fara eftir.
Með þessu er skapað jákvætt viðhorf hjá ferðamanninnum, - hann fær strax eitthvað fyrir peningana.
Ef vel ætti að vera þyrfti að gefa að minnsta kosti eitt til tvö ár í undirbúning íslensks kerfis, sem tæki mið af reynslu og aðstæðum í öðrum löndun, síðan ár í viðbót til að ganga frá íslenska kerfinu, og loks enn eitt árið sem umþóttunartíma fyrir alla aðila.
Þetta myndi þýða að kerfið kæmist ekki á fyrr en í lok kjörtímabilsins eða jafnvel síðar, en íslenskir stjórnmálamenn verða að fara að hugsa lengra fram en til næstu kjarasamninga eða næstu kosninga.
Á meðan verið væri að ganga frá þessu öllu yrði hins vegar verja fé strax til nauðsynlegustu framkvæmda á mikilvægustu ferðamannastöðunum til þess að verja hina verðmætu og einstæðu íslensku náttúru gegn skemmdum af völdum átroðnings og lélegrar eða engrar aðstöðu.
Varað við náttúrupassa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nokkrir eiga karlar Ker,
krefjast þar nú passa,
ef þar kæmi Ómars her,
allir sýndu rassa.
Þorsteinn Briem, 9.11.2013 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.