Þráhyggja sem bara versnar.

Síðustu útspil iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra sem og allrar ríkisstjórnarinnar um að álver í Helguvík verði að rísa, sama hvað það kostar, lýsa þvílíkri þráhyggju, að erfitt er að finna orð yfir hana.

Látum vera ef þetta væri fólk á aldur við mig, sem tók þá afstöðu fyrir 50 árum að nauðsynlegt væri að reisa 33 þúsund tonna álver í Straumsvík og virkja Þjórsá við Búrfell, af því að okkur skorti sjálf rafmagn til okkar nota, nær allur útflutningurinn væri ein vara, fiskur, vegirnir í landinu væru lélegir malarvegir og við langt á eftir nágrannaþjóðunum í þróun fjölbreytts atvinnulífs.

Þessa afstöðu tóku ég og meirihluti þjóðarinnar á sjötta áratugnum og fylgdum henni næstu áratugina meðan verið var að skjóta þessari nýju stoð undir útflutning og tryggja það að við ættum meira en nóg rafmagn. Fyrir það væri jafnframt fórnandi talsverðu, eins og til dæmis það að selja þessa orku á brunaútsöluverði.  

Enn eru margir jafnaldrar mínir sem hafa staðnað eins og nátttröll í þessu máli, þótt aðstæður allar séu gerbreyttar, við framleiðum nú þegar fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum sjálf og séum byrjuð að ganga allt of langt í rányrkju jarðvarmaorkunnar og hrikalegum umhverfisspjöllum á sama tíma og við teljum okkur og heiminum´trú um að við séum fremst allra í sjálfbærri þróun og vernd einstæðra náttúruverðmæta.

Oft á gamalt fólk erfitt með að laga sig að nýjum aðstæðum og því skiljanlegt að margir jafnaldrar mínir geti ekki áttað sig á því, að 95% af vinnuafli þjóðarinnar verður að sækja sitt í annað en stóriðju, jafnvel þótt áfram verði haldið á stóriðjubrautinni.

Hitt er furðulegra og raunar grátlegt þegar miklu yngra fólk virðist hafa tekið við stóriðju- og áltrúnni af eldri kynslóðinni eins og þráhyggju sem líkist meira trúarbrögðum en eðlilegri skynsemi og heimta að einum aðila verði færð einokun á allri orku á sunnanverðu landinu og orkuverðið bara lækkað og lækkað, enda er samningsaðstaða okkar ónýt þegar búið er að fastsetja fyrirfram að einn aðili fái alla orkuna.  

Grátlegast er að fólk, sem aðhyllist markaðslæga stefnu skuli loka augunum fyrir markaðslögmálunum og vilja keyra fram sovét-stefnu í þessum málum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sumir staðna snemma í sínum hugsunarháttum og æða í gegnum lífið sitt á einstefnu. En sorglegt er að svona fólk situr í valdastólum og var kosið af meirihluta þjóðarinnar. Ég á hins vegar von um að unga fólkið mun snúa dæminu við. Margt bendir til þess að þeir sem vaxa úr grasinu núna munu sparka þessum nátttröllum út á hafsauga.

Úrsúla Jünemann, 16.11.2013 kl. 16:16

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Apakettir alstaðar,
engum hægt að treysta,
æði heimskir allir þar,
úr öllu rafmagn kreista.

Þorsteinn Briem, 16.11.2013 kl. 17:33

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér á Íslandi er löng hefð fyrir viðskiptum við glæpamenn, til að mynda stóð íslensk saltsíld út úr eyrunum á sovésku og austur-þýsku nomenklatúrunni áratugum saman.

Fjöldinn allur af íslenskum sjávarbyggðum lifði á þessum viðskiptum og Akureyri var iðnaðarbær sem byggðist á viðskiptum við Sovétríkin, rétt eins og Álafoss í Mosfellssveit.

Og við Íslendingar voru jafn háðir viðskiptum við lönd austan Járntjalds og Finnar voru áratugum saman.

En eftir að Sovétríkin hrundu hafa Finnar framleitt farsíma eins og þeim væri borgað fyrir það.

Íslendingar eru hins vegar margir hverjir enn í Nokia-gúmmístígvélunum en Rússar kaupa nú Nokia farsíma.

Í staðinn fyrir frystan þorsk og karfa, hundrað þúsund tunnur af saltsíld og hundrað þúsund trefla árlega til Sovétríkjanna fengum við Íslendingar bíla og stál, svo og olíu frá sovésku borginni Batumi.

Keflavík
byggðist á hinn bóginn á ótta Bandaríkjanna við Sovétríkin, sem skapaði mörg störf á Suðurnesjum.

Og ótti Breta við Þýskaland nasismans reif Íslendinga upp úr örbirgðinni, þó ekki gúmmístígvélunum.

Þorsteinn Briem, 16.11.2013 kl. 17:43

4 identicon

nú virðist vera að all nokkur fyrirtæki séu á leiðinni sem ekki taka mikla orku vonandi dreifast þau vel hvað vill ómar gera við byggíngarnar í helguvíkeiga þær að vera minnismerki

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 16.11.2013 kl. 18:02

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ekkert átta eg mig á aths. Steina Briem að þessu sinni. Ullarvöruútlutningur Íslendinga frá Álafossi var okkur alltaf mjög hagstæður og tengdist vöruviðskiptum. Við fluttum út ullarvörur og síld en keyptum vélar, bíla og olíuvörur, að vísu ekki í bestu gæðum en dugði okkur sem þjóð sem ekki hafði of mikið milli handanna.

Þessir gömlu áldraumsþursar virðast ekkert hafa fylgst með þróun í áliðnaði síðustu ára. Nú hafa Bandaríkjamenn hafið endurvinnslu í stórum stíl á áli og mun það grafa hratt undan vinnslu á áli fjarri mörkuðum. Og að ætla sér að reka álbræðslu með þeim hagnaði sem áður tíðkaðist ber vitni um mjög alvarlegan brest á að fylgjast nógu vel. Álbræðslurekstur víða um heim er í járnum og þarf ekki mikið út af bera að rekstur Alkóa á Reyðarfirði beri sig ekki. Og er þá verið að tala um eitthvað smáálver í Helguvík sem verður örugglega mun óhagkvæmara í rekstri. Framsóknarmenn verða að athuga að þetta er ekki sambærilegt við gamaldags rolluhald.

Guðjón Sigþór Jensson, 16.11.2013 kl. 18:49

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Atvinnulífið hér á Íslandi var mjög fábreytt og byggðist að miklu leyti á vöruskiptum við Sovétríkin, samkvæmt fimm ára áætlunum þeirra.

Íslenskar "samninga"nefndir um saltsíld héngu vikum saman í Moskvu en verðið var í raun ákveðið af Sovétmönnum.

Og íslenski viðskiptaráðherrann veitti upplýsingar um verðið þegar það lá fyrir.

Íslenska hagkerfið var því að miklu leyti kommúnískt.


Hundrað þúsund tunnur af saltsíld og hundrað þúsund treflar er gríðarlegt magn og því ljóst að ekki fékkst hátt verð fyrir hverja tunnu og hvern trefil, enda Sovétmenn ekki ríkir og Sovétríkin hrundu.

Þorsteinn Briem, 16.11.2013 kl. 19:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband