Eitt magnaðasta markaðsafrek allra tíma.

Árið 1960 var Chevrolet Corvair byltingarkenndasti bíll hvað hönnun og alla gerð snerti, sem bandarísku bílarisarnir hafa sett á markað.

Vélin var afturí, ekki frammi í. Hún var loftkæld en ekki vatnskæld. Hún var flöt "boxaravél" en ekki upprétt og aldrei fyrr höfðu bílaverksmiðjur framleitt sjálfar sex strokka boxaravél.

Tucker var að vísu með flest af þessu 1948, en vélin í þeim bíl var flugvélahreyfill, framleidd af Franklin, og aðeins 51 eintak var smíðað.

Corvair fól hins vegar í sér markaðlseg mistök. Vélin varð mun þyngri en upphaflega stóð til, það þurfti alveg nýja þekkingu og verkfæri til að gera við hana og viðhalda henni enda frekar flókin, til dæmis sem sex aðskilin "hedd".

Þetta var einfaldlega of byltingarkenndur bíll.

Ford setti á flot álíka stóran ósköp venjulegan bíl, Falcon, sem laghentur eigandi gat gert við í bílskúr sínum og seldist mun betur en Corvair.

Á árunum 1961-63 reyndi GM að auka úrval Corvair bíla með því að framleiða skutbíl og sportgerðina Monza. Heildarsalan jókst að vísu ekki en Monza seldist miklu betur en venjulegi bíllinn.

GM áttaði sig hins vegar ekki á því að þarna hafði myndast alveg nýr markhópur kaupenda, fólk sem vildi eiga nettan og léttan sportlegan bíl sem gæti tekið fjóra í sæti, þótt þröngt væri setið í aftursæti. 

Lee Iacocca var markaðsmaður hjá Ford og kom auga á þetta.

250px-Ford_cz_ubt

Hann náði eyrum yfirmanna sinna og til varð Ford Mustang, í grunninn svipaður Falcon og með sömu vélum, en útlitið var nýbreytni í amerísku bílaflórunni, ný stærðarhlutföll, bíllinn hlutfallslega nokkuð breiður og lágur, með óvenju langa vélarhlíf, lágt og frekar stutt farþegarými og stuttan og kubbslegan afturenda. 

Studebaker sett að vísu á flot Avanti, sportbíl með líku útliti og Mustang, en hafði enga burði til að gera hann að mikilli söluvöru, enda verðið alltof hátt.  

Svo sannfærða gerði Iacocca yfirmenn sína um að Mustang dæmið  myndi ganga upp, að enda þótt bíllinn kæmi fram og byrjað væri að selja hann á allt öðrum tíma árs en tíðkaðist venjulega, seint í apríl, yrði hægt að anna eftirspurninni, nánast sama hver hún yrði.

Af því að grunnur bílsins, vélar og driflína áttu svo margt sameiginlegt með Ford Falcon og Mercury Comet, gátu samlegðaráhrif þessara bíla tryggt þetta og Mustang var afar einfaldur í öllu viðhaldi.

Skemmst er frá því að segja að Ford Mustang varð eitt mesta markaðsafrek allra tíma að mínum dómi, - kannski ekki eins stórfellt og Ford T hafði verið á sínum tíma, en örugglega mesta markaðsáhlupið, fór alla leið á örfáum mánuðum. 

Byrjað var að selja bílinn 17. apríl 1964,  en áður en árið var liðið höfðu selst meira en 700 þúsund eintök af bílnum á aðeins rúmlega átta mánuðum. Hann fangaði hug allra stétta og allra aldurshópa, enda var boðið upp á meira úrval af sérbúnaði en þekkst hafði fram að því.

Það var hægt að kaupa hræódýran, léttan einfaldan og sparneytinn Mustang með lítilli 2,7 lítra sex strokka Falcon vél, álíka þungan og Volkswagen Golf er núna, en líka með úrvali af V-8 vélum allt upp í fimm lítra á þriðja hundrað hestafla véla sem tilsvarandi drifbúnaði og fjöðrun. 

Fólk flykktist í hundraða þúsunda tali í sýningarsali til að skoða bílinn, vörubílstjórnar óku hugfangnir og annars hugar upp á gangstéttir og inn í búðarglugga og Mustanginn tók Ameríku með trompi.

Þegar við Helga komum til Los Angeles á þessum árum tók rígfullorðin kona, Jóna Freymóðsdóttir, á móti okkur á Ford Mustang, einhver ólíklegasta manneskja sem hugsast gat til þess að aka sportbíl með tilþrifum.

En Mustanginn hennar var þræl sparneytinn, ódýr í rekstri  og lipur í akstri, og rýmið frammi í var afar gott.  

 


mbl.is 50 ára saga Mustang á 100 sekúndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorkell Guðnason

Lee Iacocca sagðist hafa svarað spurningum um hvort hann væri ekki faðir Mustangsins á þann veg að: Svo margir hafa lýst sig feður Mustangsins að ég mundi forðast að láta sjá mig með móður hans á almannafæri...

"So many men have claimed to be the father of the Mustang, that I would not like to be seen in public with the mother"

Lee Iacocca

Þorkell Guðnason, 1.12.2013 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband