3.12.2013 | 21:38
Flokkar Birgis og Eysteins?
Alþingismennirnir Eysteinn Jónsson og Birgir Kjaran voru meðal helstu brautryðjenda í náttúruvernd í Íslandi á liðinni öld.
Eysteinn var alþingismaður í fjóra áratugi, ráðherra í rúm 20 ár og varaformaður og síðar formaður Framsóknarflokksins.
Hann studdi alla tíð náttúruvernd og beitti sér fyrir stofnun Náttúruverndarráðs enda mikill náttúruverndarmaður og útivistarmaður.
Ég kynntist þessu í ferðum, sem ég fór með honum um landið þegar ég skemmti á héraðsmótum Framsóknarmanna á sjöunda áratugnum.
Þá miðlaði hann af fróðleik sínum og reynslu á þessu sviði.
Birgir Kjaran alþingismaður var einnig ötull náttúruverndarmaður og formaður Náttúruverndarráðs 1960-72, en þá tók Eysteinn við formennsku.
Í tíð þessara tveggja manna var unnið mikið brautryðjendastarf með gerð viðamikilllar náttúruminjaskrár yfir friðlýst svæði og önnur merk svæði hvað náttúrufar snertir.
Þegar hugsað er til þessara tveggja frumherja í röðum Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna hljómar nöturlega herhvöt Gunnars Braga Sveinssonar til samherja sinna í þingflokki Framsóknarmanna með sms-skeyti á útmánuðum 2013 um að standa vaktina sem allra best gegn náttúruverndinni í beitingu málþófs á Alþingi til að koma í veg fyrir afgreiðslu náttúruverndarlaga.
Og síðan hin dæmalausa einhliða tilskipun umhverfisráðherra flokksins um að hann hefði ákveðið að afturkalla náttúruverndarlögin.
Alþingi hvað?
Athugasemdir
Gunnar Bragi ferlegt fress,
fagurt allt hann hatar,
sauður sá með essemmess,
engan manninn platar.
Þorsteinn Briem, 3.12.2013 kl. 22:05
Að gera flónið hann Gunnar Braga að utanríkisráðherra, verður líklega frægasta og stórasta "heimsmet" Sigmundar Davíðs.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.12.2013 kl. 22:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.