Maðurinn sem drekkti hænunni.

Þegar ég var í sveit í Hólmaseli í Flóa á sjötta árinu var þar á bænum heimastrákur í svipuðum aldri sem hafði gaman af að plata borgardrenginn.

Honum tókst að telja mér trú um hina ótrúlegustu hluti og taldi mér eitt sinn trú um að hænur gætu synt á vatni eins og endur og til þess að sannfæra mig enn betur um þetta sagði hann að ég gæti sjálfur prófað þetta.

Ég var það lítill að ég gat ekki handsamað neina hænu til að sannreyna þetta, en mér tókst að krækja í hænuunga og við fundum tunnu, fulla af vatni þar sem prófunin gat farið fram.

Ég setti ungann ofan í vatnið og viti menn: Hann synti eins og óður væri í hringi og tísti gríðarlega.

En allt í einu hætti hann að synda og flaut lífvana marandi í hálfu kafi.

Þá varð mér ljóst að hann hafði drukknað og þetta atvik fékk mjög á mig.

Í fyrsta sinn á ævinni sá ég lífveru deyja og áttaði mig á því að ég hafði orðið hennar bani og komið í veg fyrir að unginn gæti vaxið úr grasi, orðið hæna eða hani og notið lífsins.

Þrjátíu árum síðar átti ég leið um þetta svæði og komst að því að þessi saga um drekkingu hænuungans lifði enn góðu lífi hjá sumum í sveitinni, nema að nú var talað um borgardrenginn rauðhærða sem hefði drekkt hænunni.

Svona geta nú sögur vaxið í meðförum fólks, en þetta mátti að vissu leyti til sanns vegar færa úr því að ég hafði komið í veg fyrir að unginn gæti orðið að hænu, þannig að söm var gerðin.


mbl.is Þriggja ára drekkti bróður sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ég held að enginn íslendingur trúi því að Ómar Ragnarson hafi gert nokkrum mein.Hvort sem það er fluga hæna eða blóm.En vissulega er til fólk sem skilur ekki baráttu Ómars Ragnarssonar fyrir náttúruvernd.En ég held að það fólk sé í minnihluta hjá íslenskri þjóð.

Sigurgeir Jónsson, 7.12.2013 kl. 05:48

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

En svo getur fólk haft mismunandi skoðanir á því hvað sé nauðsynegt að gera til þess að fólk geti lifað.Á  að setja fólk í forgang eða á land að hafa forgang.Fólk verður að gera það upp við sig.

Sigurgeir Jónsson, 7.12.2013 kl. 06:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband