12.12.2013 | 12:52
"Forpokun og fáfræði..."
Gestur og viðmælandi í útvarpsþætti, sem ég hitti fyrir tilviljun um daginn, notaði þessi tvö orð, "forpokun og fáfræði" þegar talið barst að því sem helst stæði íslensku þjóðinni og landi okkar og einstæðri náttúru þess fyrir þrifum. Hann bætti því við að forpokun og fáfræði væri undirstaða kúgunar.
Dæmin um þetta eru óteljandi. Ég hef áður minnst á mann við aldur, sem strunsaði út af ráðstefnu um varðveislu og verndarnýtingu norðausturhálendisins með þeim orðum, að fráleitt væri að laða ferðamenn til landsins á þeim forsendum, því að sjálfur vissi hann af 50 ára reynslu að það eina sem gæti laðað ferðamenn til austurhluta landsins væri Hallormsstaðaskógur!
Þáverandi forsætisráðherra Íslands taldi í sjónvarpsumræðum fyrir 15 árum ólíklegt að Eyjabakkar hefðu hið minnsta gildi því að enginn þekkti þá. Bætti því við að hann og fleiri hefðu fram að þessu haldið að Eyjabakkar væru gata í Breiðholtinu !
Á þessum tíma var hafin herferð til þess að koma í veg fyrir að ég sýndi myndir af því sem til stóð að gera á austurhálendinu og þess krafist að ég yrði rekinn frá Sjónvarpinu fyrir það, af því að ég hefði sýnt vítaverða misnotkun á aðstöðu og hlutdrægni í umfjölluninni, einokað hana og hyglað viðmælendum, sem höfðu önnur sjónarmið en sjónarmið ríkjandi valdaafla.
Nákvæm rannsókn leiddi í ljós að fyrir þessum ásökunum var ekki neinn fótur, en áfram var allt gert sem hagsmunaaðilar þröngrar skammtímagræðgi gátu fundið upp á til þess að kúga mig til hlýðni.
Ráðandi hagsmunahópar stjórnuðu þá og stjórna enn umræðu um mikilsverð málefni með því að stuðla að fáfræði og forpokun.
Til dæmis er nánast aldrei er minnst á stórfossana þrjá í Efri-Þjórsá sem Norðlingaölduveita mun þurrka upp því að það hentar virkjanafíklunum að fólk viti ekkert um þá og það gildi sem þeir hafa ósnortnir þar sem þeir gætu jafnvel malað gull á sama hátt og Gullfoss ósnortinn.
Síbyljan mikla um hina "hreinu og endurnýjanlegu orku" jarðvarmavirkjana á borð við Hellisheiðarvirkjun og það fagra fordæmi sem Íslendingar sýni heimsbyggðinni með slíkri orkunýtingu er svo yfirþyrmandi að ekkert annað kemst að.
Hið rétta, að þetta er hrein rányrkja, sem örsjaldan kemur fram, drukknar jafnharðan í umræðunni ráðandi öflum til mikillar gleði.
Síbylja er í gangi um það að svo gríðarlega orku getum við Íslendingar látið Evrópu í té, að íslenska orkan gæti gert Ísland að "Bahrain norðurins."
Hið rétta er að öll virkjanleg orka Íslands annar ekki nema langt innan við 1% af orkuþörf Evrópu.
Kvikmyndagerð og hvers kyns listastarfsemi er talin baggi á þjóðinni og þeir sem hana stunda "Lattelepjandi afætur í 101 Reykjavík". Þess vegna liggi beinast við að þrengja að henni, en í staðinn að ítreka einróma stuðning ríkisstjórnarinnar við álver í Helguvík.
Því má búast við að áskorun þekktra erlendra kvikmyndagerðarmanna muni verða eins og að stökkva vatni á gæs og talin merki um óæskilega íhlutun útlendinga um íslensk málefni.
Á þeim tíma sem allir Danir voru stimplaðir óvinir Íslands var það danskur maður sem var brautryðjandi um það að bjarga íslenskri tungu. Og það var breskur maður sem stóð fyrir björgun íslenska hundsins.
En alhæfingin um að allt vont komi frá útlöndum hentar því best að viðhalda þeirri forpokun og fáfræði, sem eru einhver bestu vopn sem skammgróðapungar sérhagsmuna hafa í hendi.
Skora á ríkisstjórn Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skapandi greinar hér á Íslandi veltu 189 milljörðum króna árið 2009, útflutningstekjur þeirra voru þá 24 milljarðar króna og ársverk voru 9.371.
Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina - Maí 2011
Þorsteinn Briem, 12.12.2013 kl. 13:08
Forpokaður hann Steini er
ekki er um það vafi
hann komentar þar og komentar hér
Sá blessaður drulluspaði.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 12.12.2013 kl. 13:57
Þetta kemur nú ekki alveg heim og saman við að fjölgun ferðamanna er slík að "til vandræða horfir " Þeir virðast ekki forðast landið þrátt fyrir Kárahnjúkavirkjun.
Sigurður Ingólfsson, 12.12.2013 kl. 14:33
Forpokun og fáfræði, óheiðarleiki og hroki.
Kögunar-flónið laug sig til valda og lýgur einnig að þinginu.
Ríkisstjórn silfurskeiðunganna er sú aumasta sem þjóðin hefur upplifað og voru þó margar eigi merkilegar. Og að þetta skuli gerast eftir Hrun framsjallanna, eftir Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og dóminn yfir Geir Haarde, er með ólíkindum. Innbyggjarar virðast ekkert hafa lært heldur forherðast í afdalamennsku og vitleysu.
Líklega erum við of fámenn, höfum ekki burði til að byggja upp réttlátt og siðað samfélag. Gerum vindhana að forseta og höldum úti plebba samtökum eins og Heimssýn, sem og Evrópuvöktunum báðum. Þykjumst vera betri en vinir okkar og frændur í Evrópu.
"Poets of enterprice, poets of banality".
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 12.12.2013 kl. 15:03
Því miður hefur ríkt allt of lengi mikil skoðanakúgun á Íslandi. Ef grafa þarf undan vinstri stjórn er Icesave leikrit sett á fjalirnar og forsetinn fenginn í lið með lýðskruminu. Ef á að setja landinu nýja stjórnarskrá er allt sett í endalaust málþóf og málinu eytt. Lendingin er að skipa sem formann aldurhniginn lagaprófessor sem helst engu vill breyta!
Og ef biðja á um þjóðaratkvæði hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið þá er það allt einu einkamál ráðherra Framsóknarflokksins. Og ef setja á landinu nýtískuleg náttúruverndarlög þá eiga gömlu lögin sem ekki er unnt að framkvæma talin betri.
Svona er afturhaldið á Íslandi í dag. Og verða gefin út bráðabirgaðfjárlög í anda þeirra Bismarcks og Estrups hins danska afturhaldsmanns ef ekki tekst að samþykkja draumafjárlög íslensku broskallanna núna fyrir jól?
Guðjón Sigþór Jensson, 12.12.2013 kl. 17:34
Veður vont og vetur er
rýnir Briem í sjóinn
níðir niður skrifin hér
biður um blogg í skóinn.
Hvernig var þessi Stein?
HHELGI (IP-tala skráð) 12.12.2013 kl. 20:04
Lærið nú eitthvað í bragfræði.
Þorsteinn Briem, 12.12.2013 kl. 20:13
Ein þöggunin var og er enn, að útlendingar fengju ekkert að vita um Kárahnjúkavirkjun og eðli hennar.
Þegar farin var gegn virkjunninni stærsta mótmælaganga í áratugi, sem hlutfallslega samsvaraði því að tvær milljónir Breta hefðu þrammað í gegnum London, létu íslenskir fjölmiðlar erlenda fjölmiðla ekkert um það vita.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2013 kl. 20:53
Var að sjá enn eina nýja þöggunina í Fréttablaðsgrein í dag. Þar er fullyrt að meðal helstu náttúrudjásna á nýrri gönguleið, "Austurstræti" milli Lóns og Fljótsdals, sé hinn stórkostlegi Kirkjufoss og meira að segja birt mynd af fossinum.
Þannig vill til að ég var sjálfur viðstaddur þegar vatn var tekið af þessum fossi og fossinum Faxa fyrir neðan hann þegar lokur voru settar í Ufsarstíflu þar fyrir ofan og byrjað láta vatn renna í Ufsarlón, sem er miðlunarlón fyrir það vatn handa Kárahnjúkavirkjun, sem kemur úr Jökulsá í Fljótsdal.
Það var táknrænt að ég var eini maðurinn sem var vitni af því og horfði á þessa fossar voru drepnir. Allir aðrir, fjölmiðlamenn og gestir Landsvirkjunar voru uppi við stífluna til að dást að hinum mikla tækniundri þar.
Engu að síður er fáfræðinni haldið svo kyrfilega til haga að ekki er vílað fyrir sér að birta mynd af fossi, sem ekki er lengur til, til þess að auglýsa nýja gönguleið.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2013 kl. 21:42
Til viðbótar má geta þess að þrír af tólf stórfossum Íslands voru drepnir með Kárahnjúkavirkjun en samt er látið eins og allir þessir fossar séu gersamlega ósnortnir.
Nú stendur til að drepa þrjá aðra stórfossa í einu vetfangi með Norðlingaölduveitu og verði það gert verður búið að drepa helminginn af stórfossum Íslands þegjandi og hljóðalaust, þökk sé kyrfilegri þöggun sem er besti vinur virkjanafíklanna.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2013 kl. 21:47
Erum við nokkuð búnir að kveða þig í kút Steini minn...??
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 08:24
Þetta er ekki bundið mál hjá ykkur vesalingunum, Helgi Jónsson.
Þorsteinn Briem, 13.12.2013 kl. 08:36
Í bundnu máli
kveðinn í kút
veðurí káli
setur upp stút
HH (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 09:57
Þú heldur greinilega að allt sem er í fjórum línum sé bundið mál, HH.
Þorsteinn Briem, 13.12.2013 kl. 10:21
Þetta með fossana, Ómar, er það ósvífið, að það ætti að vera forsíðufrétt, og aldrei minna.
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.12.2013 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.