19.12.2013 | 15:01
"Þetta reddast. Peninga strax, sama hvernig!"
Þannig myndi ég lýsa Íslendingaheilkenninu, sem fjallað er um í skemmtilegri grein í Fréttablaðinu í dag og er gott innlegg í "þjóðagrínið"sem farið hefur um netheima í mynd, sem franskur iðnhönnuður hannaði.
Miðað við höfðatölu er líklega engin þjóð á jarðríki, sem trúað hefur verið fyrir varðveislu jafn mikilla náttúruverðmæta og Íslendingar fyrir afkomendurna og mannkyn allt, en er jafn illa til þess fallin að gera það.
En er einnig jafn óforskömmuð í að þagga niður staðreyndir um raunveruleikann og búa til glansmyndir, byggðar á hreinum rangfærslum til að réttlæta og fegra nánast hvað sem er.
Þvert á móti er allt falt fyrir skammtímagróða, sama hvernig hann er fenginn og sama hvernig það muni bitna á afkomendum okkar. Hægt er að þylja upp úr sér langa runu af atriðum sem sýna þetta.
Framtíðin, sem Íslendingar hugsa um, nær fram að næstu mánaðamótum hjá einstaklingum, næsta fjórðungsuppgjöri já fyrirtækjum, næstu kjarasamningum hjá "aðilum vinnumarkaðarins" eða næstu kosningum hjá stjórnmálamönnum.
Og hugsunin um fortíðina nær jafnvel enn styttra til baka, enda gæti verið óþægilegt að reyna að læra eitthvað af fortíðinni.
Við köllum okkur "þróaða þjóð" og tölum með lítilsvirðingu um "vanþróaðar þjóðir."
Meðal "vanþróaðra þjóða" voru svokallaðir "frumstæðir þjóðflokkar indíána" í Ameríku sem gerðu þær kröfur til gerða sinna og nýtingar lands og auðlinda, að það skert í engu rétt og hagi sjö kynslóða fram í tímann.
Ríósáttmálinn var tilraun til að nálgast sjö kynslóða hugsun indíánanna, sem jafngildir sjálfbærri þróun, en ekki einasta hefur undirskrift okkar Íslendinga undir sáttmálann ekki reynst pappírsins virði gagnvart okkur, heldur virðist nú kominn vilji hjá okkur til að færa umhverfis- og náttúruverndarmál okkar aftur til tímanna fyrir Ríósáttmálann.
Þjóðagrínið vekur heimsathygli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú væri varla til ef forfeður þínir hefðu ekki haft "þetta reddast gen" sem olli því að þeir þorðu að róa til fiskjar og afla matar handa fjölskyldunni.
Grímur (IP-tala skráð) 19.12.2013 kl. 21:51
Íslenskir sjómenn voru sem sagt þeir einu í heiminum og þannig voru til að mynda engin frönsk og ensk fiskiskip hér við Ísland.
Enginn franskur eða íslenskur sjómaður drukknaði á Íslandsmiðum og allir sjómenn voru vissir um að allir sjóferðir myndu örugglega reddast og sjóferðabænir voru ekki til.
Þorsteinn Briem, 19.12.2013 kl. 22:05
Margt er hennar fúafen,
Framsókn á sig skítur,
þetta reddast þjófagen,
þolrif okkar brýtur.
Þorsteinn Briem, 19.12.2013 kl. 22:29
Á tímum seglskipa höfðu erlend skip ekki þá getu að þurrka hér upp bolfisk. En miðin voru nýtt.
Íslendingar öfluðu örugglega minna, enda amboðin ekki upp á marga fiska.
Segjandi það, þá bjuggum við jú við það vöruskipta-umhverfi að kúnninn ákvað bæði kaup-og söluverð. Altso Danir.
Skútuöldin kemur ekki fyrr en undir lok einokunarverslunar, svona almennilega, en vissulega áttu Englendingar hér spretti, - enda réðu þeir nokk höfunum á mörgum skeiðum mannkynssögunnar.
Það sem gerði okkar fiskútflutning hins vegar að okkar aðal útflutningsgrein til áratuga, - fram að deginum í dag, - var einfaldlega þetta viðhorf að leggja í að verja þetta fyrir okkur, og manífestarði sig í síðustu 2 þorskastríðum.
Þetta reddaðist.
Þá voru þeir mikið í forystu þeir Óli Jó og Geir Hallgrímsson. Skrítið....
Síðan er mikið vatn runnið til sjávar. Norðursjórinn, sem eitt sinni var besta fiskigrund Evrópu er talinn eiga 13 stórþorska, Ísland er komið fram úr Spáni sem stórveiðiþjóð, og engin þjóð og enginn hinna gildu lima ESB fiskar meir en Íslendingar.
Framsókn og íhöld skitu ekki á sig 1972-1973 frekar en 1975-1976. En kratar skitu upp á bak í undirgefni sinni mörg undarliðin ár og fram á þennan dag.
Jón Logi (IP-tala skráð) 21.12.2013 kl. 13:37
Þúsundir íslenskra og franskra sjómanna drukknuðu hér á Íslandsmiðum.
Ísland gat orðið fullvalda og sjálfstætt ríki 1. desember 1918 vegna þess að Danir samþykktu það og við Íslendingar gátum selt saltfisk til Spánar.
Íslensk fiskiskip hafa einnig veitt í Norðursjó og við Íslendingar stunduðum ofveiði hér á Íslandsmiðum, þannig að hér hefur verið settur á aflakvóti á nær öllum fisktegundum, rétt eins og í Norðursjó.
Og íbúar Evrópusambandsríkjanna kaupa um 80% af sjávarafurðum okkar Íslendinga.
Fyrir þá skiptir engu máli hverjir veiða fisk hér á Íslandsmiðum, þar sem neytendur greiða allan kostnað við fiskveiðar, rétt eins og landbúnað, og evrópskir neytendur fá allan þann fisk sem þeir vilja héðan af Íslandsmiðum, enda greiða þeir hæsta verðið fyrir fiskinn.
Þorsteinn Briem, 21.12.2013 kl. 20:27
Útfærsla íslensku fiskveiðilögsögunnar í 12 sjómílur árið 1958:
ríkisstjórn Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins 1956-1958.
Þar að auki veit ég ekki til þess að Alþýðuflokkurinn hafi greitt atkvæði á Alþingi gegn útfærslu fiskveiðilögsögunnar.
Og Alþýðuflokkurinn hefur ekki verið í ríkisstjórn 80% af lýðveldistímanum eins og Sjálfstæðisflokkurinn.
Þorsteinn Briem, 22.12.2013 kl. 00:23
Útlendingar geta nú þegar átt helminginn af öllum aflakvóta íslenskra fiskiskipa en hafa mjög lítið fjárfest í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
2.9.2011:
Fimmtíu fyrirtæki eiga 84% af aflakvóta íslenskra fiskiskipa
23.11.2010:
"Friðrik J. Arngrímsson, [fyrrverandi] framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að lögin hafi alltaf verið skýr varðandi erlent eignarhald í sjávarútvegi.
"Erlendir aðilar mega eiga allt að 49,99% óbeint, þó ekki ráðandi hlut, og svona hafa lögin verið lengi," segir Friðrik."
"Nefnd um erlenda fjárfestingu hefur að undanförnu fjallað um málefni sjávarútvegsfyrirtækisins Storms Seafood sem er að hluta til í eigu kínversks fyrirtækis, Nautilius Fisheries.
Eignarhlutur Kínverjanna er um 44%, beint og óbeint.
Og niðurstaða nefndarinnar er að það sé löglegt."
11.8.2010:
"Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, segist ekki sjá ástæðu til að þrengja lög um eignarhald útlendinga að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
"Þessi lög hafa ekki truflað okkur," segir Adolf.
Samkvæmt lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem sett voru árið 1991, mega útlendingar eiga allt að 25% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
Og fyrirtæki sem er óbeint í eigu útlendinga má eiga 49,9% í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki."
Þorsteinn Briem, 22.12.2013 kl. 00:33
"Um þriggja alda skeið héldu fjölmargar franskar fiskiskútur til þorskveiða á Íslandsmiðum. Þær lögðu upp síðla vetrar og sneru heim undir lok sumars."
"Elínu Pálmadóttur telst svo til að frá 1828 til loka veiðanna árið 1939 hafi um fjögur þúsund franskir fiskimenn og um fjögur hundruð skip hafnað í votri gröf við strendur Íslands."
"Með Ensku öldinni er átt við þann hluta sögu Íslands sem oft á við alla 15. öldina en nær strangt til tekið frá 1415 til 1475 þegar Englendingar öðrum fremur sigldu til Íslands til veiða og kaupa á skreið og annarri vöru (til að mynda vaðmáli og brennisteini) í skiptum fyrir ensk klæðaefni, mjöl, bjór, vín og fleira."
"Þýska öldin er það tímabil í Íslandssögunni þegar þýskir kaupmenn voru ráðandi í utanríkisverslun Íslendinga og þeir stunduðu einnig veiðar við Íslandsstrendur og útgerð frá íslenskum verstöðvum."
"Elsta heimild um siglingu þýskra kaupmanna til Íslands er frá 1432 en frá því um 1470 voru komur þeirra árvissar og þýska öldin er talin hefjast um það leyti. Hún stóð svo alla 16. öldina."
"Alla 17. öldina var launverslun mikil við erlenda kaupmenn og erlend fiskiskip skiptu hundruðum á Íslandsmiðum."
"Þegar útgerð togara hófst við Faxaflóa eftir aldamótin 1900 höfðu Íslendingar öldum saman stundað fiskveiðar á árabátum á miðum nálægt landi.
Fiskveiðar voru landsmönnum afar mikilvægar og stór hluti íbúa Gullbringusýslu hafði framfæri sitt eingöngu eða að mestu leyti af fiskveiðum á 18. og 19. öld.
Á síðustu áratugum 19. aldar höfðu loks myndast ákjósanleg skilyrði fyrir útgerð stærri þilskipa frá Íslandi og skútuöldin náði hámarki í Reykjavík á tímabilinu 1890-1910 en eftir það urðu togarar allsráðandi."
Þorsteinn Briem, 22.12.2013 kl. 04:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.