22.12.2013 | 22:42
Hálf öld frá hröðustu og stærstu kuldasveiflunni.
Síðastliðið vor var liðin rétt hálf öld síðan slíkt norðanáhlaup reið yfir landið að vori til að ekkert viðlíka hefur komið síðan.
Áhlaupið í apríl 1963 var svo slæmt vegna þess að það höfðu verið það mikil hlýindi á undan, að komið var brum á tré og gras farið að grænka, jafnvel að springa út blóm og gróður þar sem skjól var.
Á örfáum klukkustundum féll hitinn um meira en 20 stig, úr nokkurra stiga hita í hörkufrost ! Áhlaupið stóð í nokkra daga og olli meiri skemmdum á gróðri að vori til en orðið hafa í líkast til heila öld.
Jólaáhlaupið nú getur ekki orðið eins slæmt og vorhretið 1963 að því leyti til að enginn nýgræðingur getur farið illa út úr því á þessum árstíma. Vonandi falla ekki skæð snjóflóð eins og gerðist í tvígang árið 1995.
Gæti orðið dýpsta lægð 21. aldar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrsti andardráttur undirritaðs utanhúss var í þessu fræga veðri.
Sem sagt, foreldrar mínir fóru með mig heim af fæðingadeildinni þegar veðrið var í sínum versta ham í þessu fræga hreti. Oft hef ég fengið að heyra og er sannfærður um að þar sé skýringin fengin á dálæti mínu á snjó, fjöllum og vetraríþróttum.
En þess má líka geta að páskahretið fræga '63 beit norðlendinga ekki eins fast og sunnlendinga. Stór hluti trjágróðurs drapst hérna megin á landinu. Margir halda að hávöxnu trén á Akureyri séu orsök betra veðurfars. Skýringin er að jafnaldrar þeirra á SV-landi drápust í þessari gríðarlegu kuldasveiflu sem átti sér stað. Á nokkrum klst. fór hitinn úr +15° niður í -20°. Þetta þoldu fáar plöntur en fyrir norðan var gróðurinn ekki farinn að taka við sér þegar veðrið brast á þar sem ekki hafði verið jafn hlýtt þar.
Árni Tryggvason (IP-tala skráð) 22.12.2013 kl. 23:16
Í kjölfar hretsins vorið 1963 fórst svo flugvélin Hrimfaxi í Ósló. Sumir vilja reyndar meina að þetta hret hafi verið eins konar fyrirboði hafásáranna ásamt nokkrum öðrum einkennilegum veðurfyrirboðum á þeim árum ofan í áratuga hlýindi.
Sigurður Þór Guðjónsson, 22.12.2013 kl. 23:27
Inn Eyjafjörðinn kemur oft ískaldur vindur norðan úr ballarhafi og víða á Tröllaskaganum á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar er ekkert sólskin mánuðum saman á veturna vegna hárra fjalla, líkt og til að mynda á Ísafirði.
Gríðarleg snjókoma er einnig oft við Eyjafjörð, eins og til dæmis á Dalvík síðastliðinn vetur.
Þorsteinn Briem, 23.12.2013 kl. 00:08
Sumrin (júní, júlí og ágúst) 2001-2012 var meðalhitinn hærri í Reykjavík en á Akureyri, samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands.
Í Reykjavík var á þessum árum meðalhitinn í júní um 0,7 stigum hærri en á Akureyri, í júlí um 0,6 stigum hærri og í ágúst einnig um 0,6 stigum hærri.
Meðalhiti á Íslandi eftir mánuðum 1961-1990 - Kort
Þorsteinn Briem, 23.12.2013 kl. 00:50
Ég hef nú eiginlega lítið annað gert undanfarna vetur, en kennt í brjósti um landa mína Norðanlands, sem mátt hafa þolað hvern harðindaveturinn á fætur öðrum, meðan spjátrungur eins og ég, hef nánast vaðið hvern veturinn á fætur öðrum á sandölum hér sunnanlands, nema svona rétt, inn á milli.......
Væri sennilega ekki slæm hugmynd að slá saman í athvarf á Austfjörðum og hafa það frekar í stærri kantinum, því þar mun sólin skína skærast, næstu sumur)
Yndislegt hvað veðrið er, þrátt fyrir allt, stór hluti af ökkur öllum.
Kveðja að sunnan og gleðileg jól.
Halldór Egill Guðnason, 23.12.2013 kl. 03:26
Jólaspámennska getur farið út í öfgar. Samkvæmt sjálfvirkri spá átti að vera snjókoma á Faxaflóasvæðinu í dag og hiti um frostmark. Atlandshafsspákortið sýnir heita lægð koma úr suðri fyrir austan land. Alls óvíst er hvort hún verður eins kraftmikill og spámenn greina frá.
Sigurður Antonsson, 23.12.2013 kl. 11:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.