1.1.2014 | 23:11
Stærsta víkingalottóland heims.
Ég heyrði í ávarpi forseta vors í dag að "heimshöfn" væri við það að rísa í Finnafirði í Bakkaflóa, hvorki meira né minna, vegna hinna stórfelldu sjóflutninga, sem væru að dynja yfir um Íshafið.
Liggur skásta og öruggasta norður-siglingaleiðin milli Evrópu og Austur-Asíu þó meðfram Noregsströndum, og Finnafjörður er nokkurn veginn eins langt frá þéttbýli með nauðsynlegum innviðum og þjónustu og hugsast getur.
Ráðamenn hafa talað um að alveg við hornið væri sæstrengur sem gerði Íslendingum kleift að útvega stórum hluta Evrópu orku.
2007 var talað um það í Reykjavíkurbréfi Moggans að Ísland væri að verða "Bahrein norðursins". Menn sáu í hillingum Íslendinga sitja eins og Araba við rafstrenginn með vefjarhetti á höfðum við að "stjórna orkuverði í Evrópu".
Samt hefur sú staðreynd legið fyrir í 15 ár að öll virkjanleg orka Íslands fullnægir aðeins innan við 1% af orkuþörf Evrópu !
2007 var á allra vörum að það væri að rísa fjármálamiðstöð í "heimsklassa" í Reykjavík þar sem skammt væri þess að bíða að borgin við sundin skákaði London og New York sem "heimsfjármálaborg".
Var sagt að landafundir víkinganna fyrir þúsund árum yrðu hjóm eitt miðað við þessi nýju afrek.
Í ljós kom eins og allir vita að þessi risa víkingalottóvinningur, sem átti að vera að detta inn til okkar allra, er enn fjær því að koma til okkar en þessi venjulegi vikulegi vinningur til okkar hvers og eins.
Fjármálaheimsveldisdraumurinn minnti svolítið á "heimsklassann" sem Kim Jong-Un talar um að verði í skíðaþjónustunni í Norður-Kóreu.
Á níunda áratugnum kepptust íslenskir ráðamenn við að boða að skammt þess að bíða að Ísland yrði mesta loðdýraræktarland heims, að minnsta kosti miðað við fólksfjölda.
Hundruð bænda, sem fóru af stað, urðu gjaldþrota vegna þess að það gleymdist að taka aðstöðu, þekkingu og reynslu með í reikninginn. Nú, aldarfjórðungi síðar, gengur að vísu nokkrum íslenskum bændum vel á þessu sviði, en hvergi nærri í neinum mæli miðað við skýjaborgirnar um árið.
Á sama tíma sáu menn í hillingum mesta fiskeldi heims í íslenskum fjörðum. Aldarfjórðungi síðar er enn beðið eftir því að þessi pottþétti víkingalottóvinningur verði afhentur.
2008 það sagt 99,9% víst að risaolíuhreinsistöð risi á næstu árum við Arnarfjörð með 500 starfsmönnum. Bóndinn á jörðinni hafði margvísleg áform um aðra uppbyggingu, en hefur frestað þeim öllum og bíður enn eftir þessum 99,9% pottþétta stóra víkingalottóvinningi.
Í fyrra og hitteðfyrra skiptu þær fréttir tugum sem hafa greint frá því að við Íslendingar sigldum hraðbyri inn í það að verða 20 sinnum meiri olíugróðaþjóð á hvern íbúa en Norðmenn.
Sami fréttamaður stóð á Skeiðarársandi í októberbyrjun 1996 með dyrnar opnar á bílnum, viðbúinn að hlaupa inn í bílinn ef yfirvofandi flóð, sem væri að skella á ofan úr Grímsvötnum, beljaði fyrirvaralaust út á sandinn. Vitað var að vísu að hækkun vatnsborðs í Grímsvötnum myndi enda með flóði, en það kom mánuði síðar eins og langmestar líkur voru til.
Víkingalottóshugsundarhátturinn hjá okkur er sérstakur fyrir það að vinningurinn er bókaður fyrirfram og það dugar ekkert minna en 100 milljónir minnst á hver Íslending.
Á sama tíma er stunduð hægt og bítandi útrás á ferðaþjónustusviðinu, tónlistarsviðinu, í kvikmyndagerð og skapandi greinum hugvits og þekkingar sem byggir á raunsærri bjartsýni á möguleikum mannauðs okkar og sjálfbærra auðlinda á 21. öld.
Sú bjartsýni og framfarasókn byggist á því að sígandi lukka sé betri og farsælli en kollsteypurnar þegar hátimbraðar skýja/spilaborgir verða að engu um leið og raunveruleikinn blæs þeim í burtu.
Ég hef talið mig vera bjartsýnan með því að benda á "eitthvað annað" en stóriðju og stórkarlalottúvinninga undanfarin ár, en sápukúlublásararnir hafa verið iðnir við að kalla það úrtölur.
Nýtt skíðasvæði í Norður-Kóreu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Við Íslendingar erum með minnstu þjóðum í heiminum.
Við erum þó með mestu fiskveiðiþjóðum í heiminum og þar er ekki miðað við höfðatölu.
Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann.
Og búist er við að hingað til Íslands komi um tvær milljónir erlendra ferðamanna eftir áratug.
Samt er það ekki nóg fyrir örþjóðina Íslendinga.
Þorsteinn Briem, 1.1.2014 kl. 23:23
Fyrir utan Vestfirði eru uppeldisstöðvar helstu nytjastofna á Íslandsmiðum.
Hrygningarstöðvar þorsks eru aðallega við Suðurland og Suðvesturland og þaðan berast afkvæmin með hafstraumum á Vestfjarðamið.
Hafstraumarnir fara einnig norður fyrir landið og þar með olía af Vestfjarðamiðum færi hún þar í sjóinn, til að mynda frá gríðarstórum olíuskipum sem sykkju þar eða strönduðu.
Olíumengun við Vestfirði gæti því lagt stærstu nytjastofna okkar Íslendinga í rúst á einni nóttu.
Exxon Valdez oil spill
18.9.2013:
Olíuskip á rangri siglingaleið hér við Ísland
Þorsteinn Briem, 1.1.2014 kl. 23:53
Þetta er þörf lesning og hvert orð satt.Mér líður snöggt um betur eftir þennan lestur ,heldur en eftir ávarp háttvirts forseta vors í dag,ég segi nú ekki meir.Kærar þakkir og gleðilegt ár Ómar.Þú ert það sem ég kalla :Samviska þjóðarinnar!
Reynir Jónasson (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 00:04
Það er nú óþarfi að kippa okkur niður á jörðina svona á fyrsta degi ársins, Ómar!
En varðandi höfnina "væntanlegu" í Finnafirði, þá er e.t.v. rétt að hafa í huga að Kínverjar eru enn móðgaðir út í Norðmenn vegna þess að þeir tóku á móti Dalai Lama betur en við, væntanlega úr því að við erum enn "inn" hjá kónginum í Kína. Þeir gætu því verið að storka Norðmönnum með því að daðra við okkur, þó höfnin í Finnafirði sé nú á höndum Bremenhaven hafna, ef ég hef tekið rétt eftir. Þeir ætla að kosta einhverjar rannsóknir á næstu árum. Hvort starfsemin þarna fer í sama farveg og olíuhreinsistöðvar við Kolkuós og í mynni Hvestudals, stóriðju í loðdýrarækt og fiskeldi verður tíminn að leiða í ljós, en mig grunar að ásetningur og harðfylgi við framkvæmdir í Finnafirði verði ekki með sama gossagangi og við ónauðsynlegan Álftanesveg um Gálgahraun....!
Ómar Bjarki Smárason, 2.1.2014 kl. 00:30
Bullið og þvælan um Finnafjörð, er beinlínis dapurleg, ef ekki ömurleg, á að hlýða. Að Ísland verði einhverskonar umferðarmiðstöð og umskipunarhöfn alheimssiglinga, millum Asíu og annara heimshluta, er jafnvel enn aumkunnarverðari. Verði þessi hugsjón einhverntíma að veruleika, verður það allavegana ekki á næsta ári, heldur áratugum seinna. Okkur vantar "PEPP" inn í næsta ár.
Þegar þjóðhöfðingjar dæla úr sér áramótadellunni, ættu þeir að minnsta kosti að gera það á þann hátt, að þeirra EIGIN ÞJÓÐ trúi einhverju af því sem þeir segja, um þessi mál.
Í annars ágætu ávarpi, gekk Ólafur Ragnar helst til langt, yfir strikið í framtíðarsýn og mögulegum möguleikum, hvað varðar siglingar um Norðurslóðina.
Góðar stundir og gleðilegt ár.
Halldór Egill Guðnason, 2.1.2014 kl. 01:11
Mikið er ég glaður að hafa svona mann eins og þig Ómar til að benda fólki á nokkrar staðreyndir.
Davíð, 2.1.2014 kl. 01:49
Takk fyrir að vera til Ómar Ragnarsson :-)
Elín Finnbogadóttir (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 02:57
Vil bara benda þér Ómar, og aðrir náttúrukærir, á ágætan pistil á svipan.is um sæstrenginn í stuttu máli.
Baldvin Björgvinsson, 2.1.2014 kl. 09:12
Þörf upprifjun, félagi.
Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 10:18
Við eigum stórustu klappstýru í heimi sem forseta!
Og þegar hann hættir, þá eigum við augljóslega nóg af öðrum stórum klappstýrum í pokahorninu!
Jonsi (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 11:56
Gleðilegt ár Ómar takk fyrir áratugina sem eru liðnir. Perla okkar lands ert þú klárlega, vandamálið er hinnsvegar græðgi og landráð sem ræður ríkjum og Stokkhólmsheilkennd þjóðin spilar með þeirri skammíma græðgi.
Sigurður Haraldsson, 2.1.2014 kl. 14:04
Takk fyrir þennan pistil, Ómar. Mér finnst merkilegt að við "gamlingjar" eru helstu baráttumenn fyrir framtíð landsins - og þá ekki bara til næstu 5 - 10 ára. Framtíð okkar liggur auðvitað í sjálfbærri notkun auðlinda, það þýðir að við neitum allri rányrkju sem rýrir afkomu komandi kynslóða. Eigum við ekki flestir börn og barnabörn sem okkur þykir vænt um?
Úrsúla Jünemann, 2.1.2014 kl. 14:37
Svartsýnisböl er þetta. Það er ekkert vist að um einhvert slys yrði að ræða, þessi olíuslys eru fátíð. Þarna bendir forsetinn á mikla möguleika í náninni framtíð, möguleika sem glæpsamlegt væri ekki að kanna. Það er vonandi að þetta mál verði unnið af fólki sem kann að búa til verðmæti
Baldur (IP-tala skráð) 2.1.2014 kl. 15:38
Varðandi Finnafjörð:
Þýska hafnarborgin Bremen er nálægt gjaldþroti. Þýsk sveitarfélög mega ekki stunda áhætturekstur og því var tekin sú stefna að einkavæða starfsemi hafnarinnar með von um betri tíð. Aðstandendur Bremen-Port eru því miður haldnir sömu þráhyggju og við þekkjum suma stjórnmálamenn okkar að unnt sé að finna gull og græna skóga og jafnvel í afskekktum firði lengst norður í Ballarhafi, jafnvel Finnafirði. Hér erum við að tengjast einhverju fjármálavafstri sem vert að vera vel á varðbergi enda er betri einn fugl í hendi en tveir í skógi eins og margir fjármálaafglapar á Íslandi virðast telja sé betra.
Guðjón Sigþór Jensson, 2.1.2014 kl. 15:42
Nú eru menn aldeilis hlessa, Ómar, ... og gamlárskvöldið rétt búið, með öllum sínum sprengingum. Þú hlýtur að vera einhver mesti loftblásari og "loftbólusprengjari" allra tíma, ... hver hvellurinn eftir annan.
Risahafnarsápukúlan í Finnafirði, ... blás, blás, - Bang, og höfnin horfin af landakortinu.
Sæstrengssápukúlan til Evrópu, ... blás, blás, - Bomm, og strengurinn í sundur og í tætlur og niður á hafsbotn, ... og Bahrein norðursins lenti norður í Bakkafirði.
Fjármálaheimsveldisdraumasápukúlan á hlutabréfamarkaðinum, ... blás, blás, - Púmm, og allt bréfadraslið í ruslið.
Stórveldisolíuversdraumasápukúlan í Arnarfirði, ... blás, blás, - Brúmm, og risaolíuverið komið út í hafsauga.
Heimsveldisrisarefaræktardraumasápukúlan út um allt land, ... blás, blás, - Rakkpúmm, og refaskinnin komin á haugana.
Risafiskeldisdraumasápukúlan í fjörðunum, ... blás, blás, - og Kviss-bang, og allur laxinn horfinn út í hafsauga.
Ferðaþjónustusápukúlan, tónlistarsviðssápukúlan, kvikmyndasápukúlan, sápukúlur hugvits og skapandi greina, ... Bing, Bong, Bang, - og allar sprungu í tætlur, ... - nei, heyrðu mig nú Ómar, nú ertu farinn að ganga of langt, - þessar áttir þú að geyma þar til næst, ... eða þannig. ! ? !
Tryggvi Helgason, 2.1.2014 kl. 21:10
Þarna misskilur þú mig, Tryggvi. Síðustu greinarnar sem ég nefndi voru ekki og eru ekki sápukúlur, vöxtur ferðaþjónustu, tónlistar, kvikmyndagerðar og hugvits og skapandi greina.
Allt raunverulegir vaxtarbroddar til þessa að minnsta kosti.
Ómar Ragnarsson, 2.1.2014 kl. 22:05
Sæll Ómar - Það kemur bakslag í ferðaþjonustuna, sannaðu til. Ástæðurnar eru þær að innviðir fylgja ekki vexti í fjölda ferðamanna - en fjöldinn er ekki góður mælikvarði á afkomu í atvinnugrein. (sbr. heildarafli á fiski segir ekkert um afkomuna)
Atvinnugreinin hefur ekki verið skilgreind sem slík a Íslandi. Þess vegna erum við að berjast við að koma á einhvers konar ítölu á ferðamannastöðum með gjaldi eða fjölda. Þess má geta að fjöldinn sem slíkur takmarkar eftirspurn á sumum ferðamannastöðum áður en landið fer að láta á sjá. Það er ekki eftirsókarvert að gaga "Laugaveginn" ef maður mætir ferðamanni í öðru hverju spori. Það er kyrrðin sem heillar. - Bestu kveðjur - Björn S. Lárusson ferðamálafræðingur (Búsettur í Danmörku)
Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 3.1.2014 kl. 15:29
Líklega góð ábending hjá þér Guðjón Sigþór. Þekki ekki þessa hliðina á málinu og slæmt að heyra ef við erum að binda trúss okkar við einhverja sem ekki eru betur staddir en við. En það er víst stundum þannig "að líkur sækir líkan heim", því miður.
Og ferðaþjónustubólan getur sprungið framan í okkur hvenær sem varir. Hvernig hefur ekki farið fyrir Spánverjum, sem ekki gátu aðlagað sig að markaði vegna þess gjaldmiðils sem þeir eru með. Þannig að það er vert að gefa orðum Björns S. Lárussonar gaum. Og svo þurfum við að fá eðlilegan arð af ferðaþjónustunni til að geta byggt upp innviðina og létt skattbyrði á landsmönnum. Hjákátlegt að vera með 7% virðisaukaskatt fyrir útlendinga, sem nota veitingastaði, gistihús og hótel....
Ómar Bjarki Smárason, 4.1.2014 kl. 00:00
Þróun alþjóðlegrar ferðaþjónustu frá árinu 1980 - Línurit bls. 7
Þorsteinn Briem, 4.1.2014 kl. 00:02
Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.
Yellowstone National Park
Þorsteinn Briem, 4.1.2014 kl. 00:07
Að sjálfsögðu þarf að byggja upp aðstöðu fyrir bæði íslenska og erlenda ferðamenn um allt landið, reisa til að mynda hótel og gistiheimili, ráða starfsfólk, stækka bílastæði, bæta salernisaðstöðu og leggja fleiri göngustíga.
Þorsteinn Briem, 4.1.2014 kl. 00:19
"Landsvirkjun getur ekki annast orkuöflun fyrir álver í Helguvík nema að litlu leyti, að sögn forstjórans.
Álverð þyrfti að hækka um 30 til 40 prósent svo að hægt yrði að ljúka samningum."
Landsvirkjun getur ekki aflað orku fyrir álver í Helguvík
Þorsteinn Briem, 4.1.2014 kl. 00:26
Er Steini Briem persóna gerð af þér? Trúi varla að svona persóna sé til með sjálfstæðan vilja.
Sólveig Þóra Jónsdóttir, 4.1.2014 kl. 03:21
Ábyrgðarmaður skv. Þjóðskrá: Þorsteinn Briem
Þorsteinn Briem, 4.1.2014 kl. 03:35
Hefur þú eitthvað fram að færa hér annað en skítkast, Sólveig Þóra Jónsdóttir?!
Þorsteinn Briem, 4.1.2014 kl. 03:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.