3.1.2014 | 15:46
Langbylgjan og fúkyrðaflaumurinn.
Með reglulegu millibili, jafnvel daglega, eys hópur manna fúkyrðaflaumi yfir Ríkisútvarpið, menn sem vilja það feigt og líkja stöðu þess á Íslandi hiklaust við ástand útvarpsmála í Austur-Evrópulöndunum á dögum kommúnismans !
Nú ber vel í veiði eftir síendurtekna skerðingu á rekstrarfé RUV, að nota afleiðingar þess sem röksemd fyrir því að leggja RUV niður en selja þó Rás 2 einkaaðilum, af því að það er út af fyrir sig sá hluti starfseminnar sem ber sig best !
Er það nýstárleg hugmynd um hagræðingu að leggja þann hluta starfseminnar niður sem best ber sig.
Alveg er þagað um það að hið fáránlega dýra og óhentuga útvarpshús er sá hluti starfseminnar sem er langtum dýrari en þyrfti að vera en engin leið að minnka það og því bitnar niðurskurður fyrst og fremst á dagskrárgerð þegar hann er kominn á það stig sem hann er núna.
Í bloggpistli einum í gær var látið að því liggja að ekki einu sinni langbylgjusendingar RUV næðust um allt land af því að ekki væri alls staðar hægt að hlusta á Rás 1 allan sólarhringinn á langbylgjunni.
Hér er hálfsannleikur eða hvít lygi notuð til að ófrægja RUV og gefa í skyn máttlausa og ónýta langbylgjusendingu. Hið rétta er að útsendingar langbylgjunnar nást allan daginn um allt land. Þeir sem öðru halda fram eru með sleggjudóma, eða hafa þeir sjálfir prófað að ná útsendingunum alls staðar? Gaman væri að það væri upplýst.
Það hef ég gert og oft um allt land árlega. Sem dæmi má nefna að bara á síðasta ári notaði ég lítil og ódýr langbyljgutæki til að hlusta á RUV alls staðar á landinu, meira að segja á Hornströndum, hálendinu allt frá vestri til norðausturhálendisins, víða um Vatnajökul, Mýrdalsjökul og hálendi á sunnan- og suðaustanverðu landinu.
Það má deila um hvernig efni Rásar 1 og Rásar 2 er skipt í langbylgjuútsendingunni, en fyrir þá sem eru á ferð á svona stórum afskekktum svæðum er mest um vert að ná fréttum, veðurfregnum, veðurspám, og efni sem fjallar um dægurmál og það sem er að gerast nýjast eða daglega í menningarlífinu svo að hægt sé að fylgjast með í þjóðlífinu.
Ekki má gleyma því að það eru ekki bara gamlingjar sem eiga heima á svæðunum þar sem langbylgjan næst ein og vill fylgjast með því nýjasta í tónlist og dægurmenningu.
Frábæra þætta á Rás 1 sem eru ótímabundnir, má nálgast síðar á netinu í Sarpinum á ruv.is
Sömu mennirnir og heimta frekari niðurskurð eða það að RUV verði selt og lagt niður heimta nú að báðar útvarpsrásirnar verði sendar út á langbylgjunni enda þótt vitað sé að það kosti mikla fjármuni.
Það má vel rökræða um hagræðingu í rekstri RUV og um skiptingu efnis rásanna tveggja til sendingar á langbylgju.
Sem dæmi um tillögu um sparnað má nefna að í eina skiptið sem Ríkisendurskoðun gerði viðamikla úttekt á rekstri RUV árið 1996 komst hún að þeirri niðurstöðu að reka þyrfti einn mann af um 400 sem þá unnu hjá RUV.
Þetta var ég og var talið nauðsynlegt að leggja þegar í stað það starf niður sem ég gegndi.
Ég biðst velvirðingar á því að verið þarna í vinnu tíu árum lengur í stað þess að hætta þegar í stað. Það er að sjálfsögðu hneyksli.
En sem betur fór hætti ég loks árið 2007 og hafa allir getað andað léttara síðan.
![]() |
Bifreið RÚV lenti utan vegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir frábæran pistil til varnar RUV.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 3.1.2014 kl. 17:36
Þorsteinn Briem, 3.1.2014 kl. 18:09
"Fréttastofa RÚV nýtur mest trausts samkvæmt nýrri könnun MMR. Af þeim fréttamiðlum sem kannaðir voru báru svarendur mest traust til fréttamiðla RÚV.
Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 76,5% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og 71,1% sagðist bera mikið traust til ruv.is."
"Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 50,2% bera mikið traust til mbl.is.
Traust til mbl.is hefur dregist nokkuð saman frá því í desember 2008 þegar 64% aðspurðra sögðust bera mikið traust til mbl.is."
RÚV nýtur mests trausts
Þorsteinn Briem, 3.1.2014 kl. 18:17
Bera lítið traust til Fréttastofu RÚV: 7,2%,
bera lítið traust til Ruv.is: 7,4%,
bera lítið traust til Mbl.is: 20,7%,
bera lítið traust til Morgunblaðsins: 26,1%.
RÚV nýtur mests trausts
Þorsteinn Briem, 3.1.2014 kl. 18:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.